Spurningakassinn
◼ Er við hæfi að láta fé af hendi rakna til ferðakostnaðarins þegar aðrir sjá manni fyrir fari?
Sum okkar búa við þær aðstæður að vera háð aðstoð annarra við að komast að staðaldri á samkomur og út í boðunarstarfið. Margir bræður og systur sýna þá góðvild að leggja lykkju á leið sína og nota tíma sinn, farartæki og annað sem þeir hafa til að sjá okkur fyrir fari. Þó að þessi trúsystkini okkar þurfi að vera tilbúin fyrr en ella og heimferð þeirra tefjist nokkuð eru þau fús til að sjá öðrum fyrir fari.
Hér gildir, eins og í öllum öðrum þáttum kristinnar þjónustu okkar, frumreglan sem er að finna í Galatabréfinu 6:5: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ Ef einhver sér okkur að staðaldri fyrir fari ættum við tvímælalaust að sýna þakklæti okkar, ekki aðeins með orðum heldur líka, ef við mögulega getum, með sanngjörnu fjárframlagi til að hjálpa honum að standa undir kostnaðinum. — Matt. 7:12; 1. Kor. 10:24.
Jafnvel þótt sá sem notar farartæki sitt biðji ekki um fjárstuðning og virðist ekki þurfa á honum að halda, er einlægt boð um að taka þátt í kostnaðinum alltaf metið að verðleikum. Ökumaðurinn vill kannski ekkert þiggja og hann ræður því. En það er rétt af þér að bjóða borgun. Ef fjárhagur þinn leyfir það ekki þá stundina getur þú haft það hugfast; þú kannt að geta boðið fram eitthvað aukreitis næst þegar þú þiggur far. — Lúk. 6:38.
Það er mjög kærleiksríkt þegar þeir sem hafa yfir ökutæki að ráða sjá þeim fyrir fari sem að öðrum kosti kæmust ekki á samkomur eða út í boðunarstarfið. (Orðskv. 3:27) Jafnframt er það líka kærleiksríkt af hendi þeirra sem njóta slíkrar góðvildar að láta þakklæti sitt í ljós með því að láta eitthvað af hendi rakna í samræmi við aðstæður sínar. — Kól. 3:15.