Lifum í trú
1 Milljónir manna láta líf sitt snúast um efnislegar eigur sínar, sýna þá heimsku að treysta táli auðæfanna. (Matt. 13:22) Þeir læra harða lexíu þegar auðæfi þeirra glatast eða er stolið eða reynast koma að litlu haldi. Við erum hvött til að fara viturlegri leið, keppa eftir andlegum fjársjóðum. (Matt. 6:19, 20) Í því felst að við þurfum að ‚lifa í trú.‘ — 2. Kor. 5:7.
2 Orðið „trú“ er þýtt frá grísku orði sem ber með sér hugmyndina um trúnað, traust, bjargfasta sannfæringu. Að lifa í trú þýðir að mæta erfiðum aðstæðum með trausti á Guði, reiða sig á hæfni hans til að stýra skrefum okkar og á fúsleika hans til að annast þarfir okkar. Jesús gaf hið fullkomna fordæmi; hann einbeitti sér að því sem var sannarlega mikilvægt. (Hebr. 12:2) Við þurfum líka að beina hjarta okkar ávallt að hinu ósýnilega, andlega. (2. Kor. 4:18) Við verðum sífellt að minnast hversu ótryggt núverandi líf okkar er og viðurkenna að við erum algerlega háð Jehóva.
3 Við verðum einnig að vera algerlega sannfærð um að Jehóva noti sýnilegt skipulag sitt undir stjórn ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ til að leiða okkur. (Matt. 24:45-47) Við sýnum trú okkar þegar við ‚hlýðum leiðtogum okkar‘ í söfnuðinum. (Hebr. 13:17) Við sýnum traust okkar á Jehóva með því að starfa auðmjúk í fullri samvinnu við hina guðræðislegu skipan mála. (1. Pét. 5:6) Við ættum að finna hjá okkur hvöt til að styðja heilshugar starfið sem skipulaginu hefur verið falið að framkvæma. Það mun styrkja kærleiks- og einingarböndin milli okkar og bræðra okkar. — 1. Kor. 1:10.
4 Hvernig styrkja má trúna: Við megum ekki leyfa trú okkar að hjakka í sama farið. Við verðum að leggja hart að okkur til að auka hana. Reglufesta í að nema, biðja og sækja samkomur hjálpar okkur að styrkja trúna svo að við getum, með hjálp Jehóva, staðist allar prófraunir. (Ef. 6:16) Hefur þú gert þér að vana að lesa daglega í Biblíunni og að undirbúa þig fyrir samkomur? Hugsar þú oft vandlega um það sem þú lærir og nálgast Jehóva í bæn? Ertu vanur að sækja allar samkomur og að taka þátt í þeim eins og tækifæri gefst til? — Hebr. 10:23-25.
5 Sterk trú sannast af góðum verkum. (Jak. 2:26) Ein besta leiðin til að sýna trú okkar er að segja öðrum frá von okkar. Leitar þú tækifæra til að deila fagnaðarerindinu með öðrum? Er hægt að gera einhverjar breytingar á aðstæðum þínum til þess að þú getir gert meira í boðunarstarfinu? Notfærir þú þér tillögurnar sem við fáum um að gera boðunarstarf okkar betra og áhrifaríkara? Setur þú þér andleg markmið og kappkostar að ná þeim?
6 Jesús varaði okkur við að eyða of miklum kröftum í hversdagsleg mál og leyfa efnishyggju eða eigingjörnum hagsmunum að skyggja á andlegt útsýni okkar. (Lúk. 21:34-36) Við verðum að hafa nákvæmar gætur á hvernig við breytum til að forðast að líða skipbrot á trú okkar. (Ef. 5:15; 1. Tím. 1:19) Öll vonum við að geta að síðustu sagt að við ‚höfum barist góðu baráttunni, höfum fullnað skeiðið og varðveitt trúna.‘ — 2. Tím. 4:7.