Verum fyrirmynd í orði og í hegðun
1 Páll postuli hvatti Tímóteus til að verða fyrirmynd í orði og í hegðun. (1. Tím. 4:12) Tal okkar og hegðun ætti líka að vera til fyrirmyndar, einkum þegar við erum í boðunarstarfinu, vegna þess að það getur ráðið úrslitum um hvort við náum til hjarta þess sem við hittum.
2 Við þurfum að sýna allar hliðar góðra mannasiða, þar með talin kurteisi, tillitssemi, vinsemd, háttvísi og nærgætni. Þegar við endurspeglum þessa eiginleika sést að við gerum okkur ljóst hvernig breytni okkar verkar á tilfinningar annarra. Góðum mannasiðum í boðunarstarfinu má líkja við það að krydda mat og draga þannig betur fram bragð hans. Kryddlaus getur hollur matur verið bragðlaus og ólystugur. Látum við undir höfuð leggjast að sýna góða mannasiði í samskiptum við aðra getur það haft sams konar áhrif. — Kól. 4:6.
3 Verum fyrirmynd í orði: Vingjarnlegt bros og hlýleg kveðja eru nauðsynlegir þættir kynningar okkar á fagnaðarerindinu. Þegar við kryddum inngangsorð okkar með hlýju og einlægni gefum við húsráðandanum til kynna að við höfum ósvikinn áhuga á honum. Þegar hann talar skaltu hlusta vandlega og sýna skoðunum hans tilhlýðilega virðingu. Þegar þú talar skaltu gera það með nærgætni og á viðfeldinn hátt. — Samanber Postulasöguna 6:8.
4 Af og til hittum við einhvern sem kann að vera óvingjarnlegur, jafnvel að láta ófriðlega. Hvernig ættum við þá að bregðast við? Pétur hvatti okkur til að tala „með hógværð og virðingu.“ (1. Pét. 3:15, 16; Rómv. 12:17, 18) Jesús sagði að ef húsráðandi hafnar ruddalega boðskapnum um Guðsríki ættum við einfaldlega að ‚hrista dustið af fótum okkar.‘ (Matt. 10:14) Ef mannasiðir okkar við slíkar kringumstæður eru til fyrirmyndar kann það um síðir að mýkja hjarta þess sem er á móti okkur.
5 Verum fyrirmynd í hegðun: Prédikun fagnaðarerindisins á fjölförnum strætum og þar sem almenningur er á ferð krefst þess að við séum tillitssöm, aldrei hávær eða ágeng, og að við hindrum ekki umferð. Þegar við erum á heimilum áhugasamra manna ber okkur að gæta að útliti okkar og hegða okkur eins og lítillátir gestir, sýna að við kunnum að meta gestrisni þeirra. Ef börn eru með okkur verða þau að sýna húsráðandanum og eignum hans virðingu og ættu að vera prúð og eftirtektarsöm þegar við eigum í samræðum. Séu börnin óstýrilát mun það hafa neikvæð áhrif. — Orðskv. 29:15.
6 Útlit okkar ætti að bera það greinilega með sér að við erum þjónar orðs Guðs. Klæðnaður okkar ætti hvorki að vera subbulegur né vekja ástæðulausa athygli og við ættum hvorki að vera ósnyrt né óhóflega tilhöfð. Útlit okkar á alltaf að vera samboðið fagnaðarerindinu. (Samanber Filippíbréfið 1:27.) Með því að gefa vandlegan gaum að útliti okkar og búnaði munum við ekki gefa öðrum tilefni til að hneykslast eða finna að þjónustu okkar. (2. Kor. 6:3, 4) Ef við erum til fyrirmyndar í orði og í hegðun gerir það boðskapinn um Guðsríki enn meira aðlaðandi og heiðrar Jehóva. — 1. Pét. 2:12.