Spurningakassinn
◼ Hvernig ætti að bregðast við ef bræður okkar verða fyrir eigna- eða heilsutjóni af völdum náttúruhamfara?
Ef náttúruhamfarir eða hörmungar verða þar sem þú býrð: Fyllstu ekki skelfingu. Haltu ró þinni og einblíndu á það sem dýrmætast er — lífið, ekki eigur þínar. Hugaðu tafarlaust að brýnustu þörfum fjölskyldu þinnar. Láttu síðan öldungana vita um aðstæður þínar og hvar þú ert niðurkominn.
Öldungar og safnaðarþjónar gegna þýðingarmiklu hlutverki í að veita neyðaraðstoð. Ef varað er fyrirfram við yfirvofandi náttúruhamförum, svo sem fárviðri, ættu þessir bræður að tryggja að allir séu á öruggum stað, og ef tími leyfir, afla nauðsynlegra vista og dreifa þeim.
Eftir að ósköpin eru gengin yfir ættu bóknámsstjórarnir að hafa uppi á sérhverjum safnaðarmanni og kanna hvernig honum líður. Láta ætti öldung í forsæti eða annan öldung vita um aðstæður á hverju heimili jafnvel þótt allt sé í stakasta lagi. Ef einhver hefur slasast reyna öldungarnir að koma honum undir læknishendur. Þeir reyna líka að útvega matvæli, klæðnað, húsaskjól eða hreinlætisvörur sem þörf er á. (Jóh. 13:35; Gal. 6:10) Öldungar á staðnum sjá um að veita söfnuðinum andlegan og tilfinningalegan stuðning og gera ráðstafanir eins fljótt og auðið er til að koma safnaðarsamkomunum af stað aftur. Þegar búið er að meta aðstæður vandlega ætti öldungur að hafa samband við farandhirðinn fyrir hönd öldungaráðsins og upplýsa hann um meiðsli, skemmdir á ríkissalnum, tjón á heimilum bræðra eða aðrar sérstakar þarfir. Farandhirðirinn hringir síðan til deildarskrifstofunnar og skýrir frá stöðu mála. Deildin sér svo um að samhæfa aðgerðir sé þörf á víðtækri neyðaraðstoð.
Ef náttúruhamfarir eða hörmungar verða annars staðar: Minnstu bræðra og systra í bænum þínum. (2. Kor. 1:8-11) Ef þú vilt leggja eitthvað af mörkum peningalega geturðu sent framlög þín til Félagsins í til þess gerðan hjálparsjóð. Heimilisfangið er: Varðturninn, Pósthólf 8496, 128 Reykjavík. (Post. 2:44, 45; 1. Kor. 16:1-3; 2. Kor. 9:5-7; sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. desember 1985, bls. 20-2.) Sendu ekki vistir eða efni til hamfarasvæðisins nema bræðurnir, sem hafa umsjón með neyðarhjálpinni, óski eftir því. Þetta tryggir skipulega neyðaraðstoð og rétta dreifingu hjálpargagna. (1. Kor. 14:40) Hringdu ekki að óþörfu til Félagsins því það heldur símalínum uppteknum sem hringt er í af hamfarasvæðinu.
Þegar búið er að meta aðstæður fyllilega ákveður Félagið hvort koma þurfi á fót hjálparnefnd og eru þá ábyrgir bræður skipaðir. Allir ættu að vera samstarfsfúsir við þá öldunga, sem fara með forystuna, svo hægt sé að sinna brýnustu þörfum allra bræðra sem best. — Sjá bókina Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs, bls. 310-315.