Vottar Jehóva — sannir fagnaðarboðar
1 Jesús Kristur fól öllum lærisveinum sínum þá ábyrgð að prédika og hann fyrirskipaði þeim sérstaklega að boða fagnaðarerindið um Guðsríki. (Matt. 24:14; Post. 10:42) Fyrstu lærisveinar hans gáfu fordæmið er þeir létu ekki af að tala um Guðsríki — ekki aðeins á tilbeiðslustöðum heldur hvar sem þeir hittu fólk á almannafæri og hús úr húsi. (Post. 5:42; 20:20) Vottar Jehóva nútímans hafa reynst sannkristnir boðberar og þeir prédika boðskapinn um Guðsríki í 232 löndum. Á aðeins síðustu þrem árum höfum við skírt meira en eina milljón nýrra lærisveina! Hvers vegna hefur boðunarstarf okkar verið svona árangursríkt?
2 Fagnaðarerindið hrífur okkur: Boðberar fagnaðarerindisins eru boðberar góðra frétta. Sem slíkir höfum við þau spennandi sérréttindi að kunngera ríki Jehóva — einu raunverulega góðu fréttirnar sem hægt er að færa nauðstöddu mannkyni. Við erum stórhrifin af því að hafa öðlast ítarlega þekkingu á nýjum himni sem mun með réttlæti stjórna nýrri jörð sem mynduð er af trúföstu mannkyni í hinni komandi paradís. (2. Pét. 3:13, 17) Við erum þeir einu sem hafa öðlast þessa von og erum ákafir í að segja öðrum frá henni.
3 Sannur kærleikur hvetur okkur: Boðunarstarf er björgunarstarf. (Rómv. 1:16) Þess vegna finnum við mikla gleði þegar við útbreiðum boðskapinn um Guðsríki. Sem sannir boðberar elskum við fólk og það knýr okkur til að segja því frá fagnaðarerindinu — fjölskyldum okkar, nágrönnum, kunningjum og eins mörgum öðrum og við getum. Ein besta leiðin til að sýna sannan kærleika okkar til annarra er að vinna þetta starf af öllu hjarta. — 1. Þess. 2:8.
4 Andi Guðs styður okkur: Orð Guðs fullvissar okkur um að það sé Jehóva sem „vöxtinn gefur“ þegar við vinnum starf okkar að gróðursetja og vökva sæði Guðsríkis. Það er nákvæmlega það sem við sjáum gerast í skipulagi okkar núna. (1. Kor. 3:5-7) Það er andi Guðs sem styður okkur í boðunarstarfinu og árangurinn er frábær. — Jóel 3:1, 2.
5 Síðara Tímóteusarbréf 4:5 hvetur okkur til að ‚gera verk trúboða.‘ Megi kærleikur okkar til allra manna knýja okkur til að segja frá hinu spennandi fagnaðarerindi um Guðsríki við hvert tækifæri í þeirri vissu að Jehóva haldi áfram að blessa starf okkar.