Kynnstu bræðrum þínum
1 Biblían segir að sannur vinur sé tryggari en bróðir, staðfastur í elsku sinni og hollustu og komi félaga sínum til hjálpar í nauðum. (Orðskv. 17:17; 18:24) Okkur skortir ekki slíka vini í söfnuðinum ef við leggjum okkur fram um að kynnast og elska hver annan. — Jóh. 13:35.
2 Fyrir og eftir samkomur gefast góð tækifæri til að kynnast bræðrum okkar. Væri ekki ráð að mæta snemma og doka við eftir að samkomunni lýkur til að njóta hlýlegs og líflegs félagsskapar? Leitaðu uppi alls konar bræður og taktu þá tali, þar á meðal þá sem eru þér eldri, reyndari eða yngri og eru ef til vill feimnir.
3 Komdu af stað samræðum: Gerðu meira en aðeins að kasta kveðju á bræður þína. Þú gætir byrjað samræður með því að segja þeim frásögu úr boðunarstarfinu, eitthvað sem vakti áhuga þinn í nýlegu blaði eða eitthvað um samkomuna sem var að ljúka. Þú getur lært margt um bræður þína með því að vera góður áheyrandi og hvatt þá til að segja frá reynslu sinni og því sem þeir eru að læra. Það eitt að spyrja hvernig viðkomandi kynntist Jehóva getur leitt margt í ljós. Sumir eiga trústyrkjandi reynslu að baki og aðrir eiga í erfiðleikum sem margir geta varla ímyndað sér. Slík vitneskja hjálpar okkur að vera næm á þarfir annarra og hjálpfús eins og sönnum vinum ber.
4 Vingist hvert við annað: Eftir að systir nokkur missti unga dóttur átti hún erfitt með að syngja ríkissöngva sem minntust á upprisuna. Hún segir: „Einu sinni sá systir, sem sat hinum megin við ganginn, að ég var að gráta. Hún færði sig yfir til mín, tók utan um mig og söng það sem eftir var af söngnum með mér. Ég fann til svo sterkrar ástar á bræðrunum og systrunum og ég var svo ánægð að við skyldum hafa farið á samkomurnar, því að ég gerði mér ljóst að það er í ríkissalnum, sem við fáum hjálpina.“ Við skulum vingast við bræður okkar með því að hugga þá þegar þörf er á og hvetja öllum stundum. — Hebr. 10:24, 25.
5 Þegar álag þessa heims eykst skulum við einsetja okkur að kynnast bræðrum okkar betur. Það verður öllum til blessunar þegar við erum hvert öðru til einlægrar uppörvunar. — Rómv. 1:11, 12.