Foreldrar — setjið börnum ykkar gott fordæmi
1 Orð Guðs segir að ‚faðir [og móðir] réttláts manns fagni.‘ (Ok 23:24, 25) Hvílík blessun fyrir foreldra sem hafa sett börnum sínum gott fordæmi! Bróðir, sem á sæti í deildarnefnd, sagði um foreldra sína: „Sannleikurinn var líf þeirra og ég vildi líka gera hann að lífi mínu.“ Hvað ættu börn að sjá í fari foreldra sinna?
2 Góðir mannasiðir og djúp virðing: Sú ábyrgð hvílir á herðum foreldra að innprenta börnum sínum heilnæma siði. Maður lærir góða mannasiði bæði fyrir tilstilli munnlegra leiðbeininga og með því að fylgjast með því sem aðrir gera og líkja síðan eftir því. Hvers konar mannasiði sýnir þú? Heyra börnin þig segja „afsakið,“ „gerðu svo vel,“ og „þakka þér fyrir“? Sýnið þið hvert öðru í fjölskyldunni djúpa virðingu? Fylgist þú með þegar aðrir tala? Hlustar þú þegar börnin tala við þig? Sýnir þú þessa góðu eiginleika jafnt innan veggja heimilisins sem í ríkissalnum?
3 Sterkt andlegt hugarfar og ötult starf: Bróðir, sem hefur þjónað í fullu starfi í rösklega 50 ár, segir: „Móðir mín og faðir settu mér frábært fordæmi því að samkomurnar voru þeim mikils virði og þau höfðu brennandi áhuga fyrir starfinu.“ Hvernig sýnir þú börnunum þínum fram á að þér sé annt um andlegt hugarfar fjölskyldunnar? Farið þið saman yfir dagstextann? Hafið þið fjölskyldunám reglulega? Sjá börnin þig lesa í Biblíunni og ritum Félagsins? Hvað heyra þau þegar þú biður fyrir hönd fjölskyldunnar? Áttu uppbyggjandi andlegar samræður við þau um það jákvæða sem tengist sannleikanum og söfnuðinum? Er þér umhugað um að sækja allar samkomurnar og taka þátt í boðunarstarfinu með fjölskyldunni?
4 Foreldrar, íhugið hvernig fordæmi þið setjið börnunum ykkar. Setjið frábært fordæmi sem þau munu meta mikils alla ævi. Eiginkona farandhirðis, en hún er á áttræðisaldri, sagði: „Ég nýt enn góðs af góðu fordæmi kærleiksríkra, kristinna foreldra minna. Og það er einlæg bæn mín að ég sýni og sanni að ég kunni að meta þessa arfleifð með því að fara rétt með hana um ókomna framtíð.“