„Prédika þú orðið, gef þig að því“
1 Ef þú fengir bréf í hendur sem á stæði „ÁRÍÐANDI,“ hvernig litirðu á það? Orðið „áríðandi“ merkir brýnt, eitthvað sem þarf að sinna tafarlaust. Af ærinni ástæðu hvetur Páll postuli kristna menn til að ‚prédika orðið og gefa okkur að því.‘ (2. Tím. 4:2) Gefur þú þig allan að þessu starfi?
2 Páll hefur ef til vill haft spurnir af því að sumir trúbræðra hans væru orðnir „hálfvolgir í áhuganum“ gagnvart boðunarstarfinu. (Rómv. 12:11) Það takmarkaði árangurinn af erfiði þeirra og dró úr gleðinni sem þeir hefðu annars getað öðlast við að hjálpa öðrum.
3 Viðhorf Jesú til starfsins: Jesús hafði ómælda ánægju af þjónustu sinni. Hann sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ Fordæmi hans hvatti lærisveinana til dáða, og enn fremur þau orð hans að akrarnir væru „hvítir til uppskeru.“ (Jóh. 4:34, 35) Alla þjónustutíð sína gaf hann til kynna að mikið lægi á og sagði lærisveinunum að biðja „herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:38) Hann tók prédikunarumboð sitt alvarlega og var staðráðinn í að láta ekkert aftra sér.
4 Hvað um okkur? Það ríður meira á núna að prédika en nokkru sinni fyrr. Akrarnir eru tilbúnir til uppskeru víða um heim. Jafnvel í löndum, þar sem vitnað hefur verið rækilega, láta þúsundir skírast á ári hverju. Endir þessa heimskerfis nálgast óðfluga og það er nóg að gera „í verki Drottins.“ (1. Kor. 15:58) Það er brýnna nú en nokkru sinni að við kappkostum að koma boðskapnum um Guðsríki til annarra.
5 Höfum allan hugann við að koma fagnaðarerindinu til annarra, bæði hús úr húsi og annars staðar þar sem fólk er að finna á starfssvæðinu. Með því að eiga eins mikinn þátt og mögulegt er í prédikunarstarfinu gefum við ótvírætt merki um að Guðsríki gangi fyrir í lífi okkar. (Matt. 6:33) Gleði okkar verður mikil ef við gefum okkur trúfastlega að boðun orðsins.