‚Hvað get ég gert?‘
1 ‚Hvað get ég gert?‘ Þessi spurning brann vafalaust á vörum þeirra er voru í hinum litla biblíunámshópi Charles Taze Russells á áttunda áratug 19. aldar. Þegar skilningur þessara Biblíunemenda á vilja Guðs dýpkaði hljóta þeir að hafa velt fyrir sér hvernig þeir gætu hjálpað öðrum að kynnast tilgangi hans. Það var risavaxið verkefni að koma biblíuþekkingunni, sem þeir voru að afla sér, til allrar heimsbyggðarinnar.
2 Sem betur fer fyrir okkur þá tókst þeim það. Hvernig? Hver og einn lagði sitt litla lóð á vogarskálarnar með þeim árangri að nú eru vottar Jehóva þekktir um heim allan og hafa skipulag sem í eru sex milljónir boðbera í um 90.000 söfnuðum í 234 löndum og eyjum hafsins. — Jes. 60:22.
3 Veittu heilshugar stuðning: Það er brýnt að sérhvert okkar taki einhvern þátt í því gríðarmikla starfi sem Jesús spáði að framkvæmt yrði á þessum síðustu dögum. (Mark. 13:10) Þetta starf geta ekki aðeins hinir fámennu öldungar unnið eða það lagst eingöngu á herðar brautryðjendanna. Sérhver vígður kristinn maður gegnir hér mikilvægu hlutverki. Allir geta tekið þátt í einhverri grein prédikunarstarfsins. (1. Tím. 1:12) Í þeim mæli sem við gerum það verður það okkur og öðrum til góðs. — 1. Tím. 4:16.
4 Við getum hvert og eitt stutt hið kristna bræðrafélag okkar með ráðum og dáð á fleiri mikilvæga vegu. Við getum stutt safnaðarsamkomurnar með því að sækja þær að staðaldri og taka kostgæfilega þátt í þeim. (Sálm. 122:1, 8, 9) Við getum lagt okkar af mörkum til að halda söfnuðinum siðferðilega hreinum. Við getum stutt alþjóðastarfið með fjárframlögum eins og efni leyfa. Við getum tekið þátt í ræstingu ríkissalarins. Allir geta stuðlað að hlýju, kærleika og einingu í söfnuðinum með því að aðstoða jafnt nýja, unga sem aldraða. — Kól. 3:12, 14.
5 Þú spyrð kannski hvað þú getir gert. Þótt framlag þitt kunni að virðast lítið geturðu stuðlað að sterkum, starfssinnuðum og heilbrigðum söfnuði ef þú leggur þitt af mörkum. Þannig getum við öll átt veigamikinn þátt í að heiðra nafn Jehóva.