„Guð megnar allt“
1 Aðalstarf kristna safnaðarins er að boða boðskapinn um ríkið um heim allan. (Matt. 24:14) Það er gríðarlegt verkefni. Margir, sem fyrir utan standa, telja okkur alls ekki hafa bolmagn til þess að gera það. Öðrum finnst óhugsandi að okkur takist það vegna þess að við mætum andstöðu, ofsóknum og gert er gys að okkur. (Matt. 24:9; 2. Tím. 3:12) Efasemdamenn eru sannfærðir um að þetta sé ógerlegt verk. Jesús sagði hins vegar: „Guð megnar allt.“ — Matt. 19:26.
2 Góð fordæmi til eftirbreytni: Þegar Jesús hóf þjónustu sína stóð hann einn á móti öllum heiminum. Andstæðingar hans svívirtu hann á alla hugsanlega vegu til að koma í veg fyrir að honum tækist ætlunarverk sitt og að lokum líflétu þeir hann á kvalafullan hátt. Undir lokin var Jesús samt sigurviss og sagði: „Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh. 16:33) Það var sannarlega mikið afrek.
3 Lærisveinar Jesú sýndu sama hugrekki og kostgæfni í boðunarstarfinu. Margir voru húðstrýktir, barðir, fangelsaðir og jafnvel drepnir. Samt voru þeir „glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.“ (Post. 5:41) Þótt ótrúlegt sé tókst þeim að framkvæma verk sem virtist ógerlegt — að boða fagnaðarerindið „allt til endimarka jarðarinnar.“ — Post. 1:8; Kól. 1:23.
4 Hvernig er það hægt nú á dögum?: Við höfum líka tekist á hendur að boða Guðsríki og gerum það af kappi þó að allt virðist vera okkur í óhag. Og okkur tekst það þrátt fyrir ofsóknir, fangelsanir og aðrar ofbeldisaðgerðir sem beitt er til að stöðva okkur. Hvernig er það hægt? „Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Sak. 4:6) Þegar Jehóva er með okkur getur ekkert stöðvað okkur. — Rómv. 8:31.
5 Við höfum enga ástæðu til að vera óframfærin, hrædd eða finnast við ekki vera vandanum vaxin. (2. Kor. 2:16, 17) Við höfum mjög góðar ástæður til að halda áfram að flytja fagnaðarerindið um ríkið af kappi. Með hjálp Jehóva framkvæmum við „það sem mönnum er um megn.“ — Lúk. 18:27.