Andlega sterkar fjölskyldur — hvernig?
1 Kristnar fjölskyldur eiga hrós skilið fyrir að „sýna rækt eigin heimili.“ (1. Tím. 5:4) En það er svo margt í umhverfinu sem getur haft slæm áhrif á okkur þannig að fjölskyldur verða að leggja mikið á sig til að vera andlega sterkar. Hvernig?
2 Líkið eftir forystu Krists: Þeir sem veita fjölskyldu forstöðu þurfa að styrkja fjölskylduna með því að axla ábyrgð sína eftir fyrirmynd Jesú Krists. Jesús sýndi mikinn kærleika er hann dó fórnardauða í eitt skipti fyrir öll en hann lét ekki þar við sitja heldur ‚elur hann og annast‘ söfnuðinn stöðuglega. (Ef. 5:25-29) Ástríkir foreldrar líkja eftir þessari umhyggju með því að sinna andlegum þörfum fjölskyldunnar daglega. Það felur í sér fjölskyldunám í hverri viku, andlega auðgandi umræður alltaf þegar tækifæri gefst til og að taka á vandamálum um leið og þau koma upp. — 5. Mós. 6:6, 7.
3 Í boðunarstarfinu: Allir í fjölskyldunni ættu að líta á það sem mikilvægan þátt í tilbeiðslunni að vitna fyrir öðrum um Jehóva og tilgang hans. (Jes. 43:10-12) Foreldrar, þið verðið að búa hjörtu barna ykkar snemma undir boðunarstarfið ef þið viljið að þau verði trúfastir vottar Jehóva. Ræðið um hvers vegna það er mikilvægt að vera fórnfús í starfinu og taka þátt í því í hverri viku. (Matt. 22:37-39) Gerið svo ráðstafanir þannig að þau fari reglulega með ykkur út í boðunarstarfið.
4 Taktu frá tíma vikulega í fjölskyldunáminu til að undirbúa og æfa áhrifarík kynningarorð. Það hjálpar þeim að skilja enn frekar mikilvægi boðunarstarfsins. Þjálfaðu börnin í starfinu með þarfir hvers og eins í huga og hjálpaðu þeim að taka framförum í samræmi við aldur þeirra og getu. Þegar þið hafið starfað saman skaltu ræða við þau um það hvernig þau hafi fundið fyrir gæsku Jehóva. Segðu trústyrkjandi frásögur. Því meir sem fjölskyldur ,hafa smakkað hvað Jehóva er góður,‘ þeim mun nálægari verða þær honum. Það hjálpar þeim að forðast „alla vonsku.“ — 1. Pét. 2:1-3.
5 Á samkomum: Það er mjög gott þegar fjölskyldumeðlimir hjálpa hver öðrum að sækja allar samkomur, sérstaklega þegar einhver þeirra er þreyttur, kjarklítill eða finnst hann að niðurlotum kominn. „Pabbi minn er þreyttur þegar hann kemur heim úr vinnu,“ segir ung systir. „En ég segi honum eitthvað uppörvandi sem verður á samkomunni um kvöldið og það hvetur hann til að fara. Svo uppörvar hann mig þegar ég er þreytt.“ — Hebr. 10:24, 25.
6 Að gera eitthvað saman: Fjölskyldur ættu að gera ýmislegt saman, til dæmis að hjálpast að við heimilisstörfin. Það ætti einnig að taka frá tíma til vel valinnar afþreyingar. Stuttar skemmtiferðir, leikir, gönguferðir og ferðalög til ættingja og vina geta verið ánægjulegar stundir og skilið eftir góðar minningar. — Préd. 3:4.
7 Sterkar kristnar fjölskyldur standast hið daglega álag sem andlegt hugarfar þeirra verður fyrir. Ef þær nálægja sig Jehóva jafnvel enn meira munu þær finna fyrir þeim krafti sem hann veitir. — Ef. 6:10.