Höfuð fjölskyldunnar á að halda uppi góðum andlegum venjum
1 Daníel bjó um áratugaskeið í Babýlon þar sem hann var umkringdur skurðgoðadýrkun og spillingu en þrátt fyrir það var hann þekktur fyrir að þjóna Jehóva „án afláts.“ (Dan 6:17, 21) Hvernig gat hann viðhaldið andlegu hugarfari sínu? Biblían bendir á að það hafi verið föst venja hjá honum að sinna viðfangsefnum sem tengdust sannri tilbeiðslu. Til dæmis hafði hann það fyrir sið að biðjast fyrir þrisvar á dag í loftstofu sinni. (Dan. 6:11) Eflaust hefur hann haft góða reglu á öðrum andlegum viðfangsefnum, eins og lestri í lögmálinu. Þar af leiðandi sýndi Daníel Jehóva óhagganlega hollustu og bjargaðist á yfirnáttúrulegan hátt þegar hann varð fyrir lífshættulegri prófraun. — Dan. 6:5-23.
2 Eins þurfum við nú á dögum að leggja hart að okkur til að vera ‚árvökur og staðföst.‘ (Ef. 6:18) Við lifum í heimi sem „er á valdi hins vonda.“ (1. Jóh. 5:19) Við getum skyndilega orðið fyrir andstöðu eða prófraunum sem reyna á trú okkar. Í þrengingunni miklu verða þjónar Guðs skotspónn allsherjar árásar Gógs frá Magóg og þá virðist engrar undankomu auðið. Þá verður nauðsynlegt að treysta Jehóva fullkomlega. — Esek. 38:14-16.
3 „Mikilvægt er að gera lestur Biblíunnar, nám í henni og umræður um hana að fastri venju í fjölskyldunni.“ Þetta kom fram á landsmótinu 1998 í inngangsorðum leikritsins „Fjölskyldur — lesið daglega í Biblíunni!“ Áframhaldið var svona: „Þegar fjölskyldur fylgja biblíulestraráætlun að staðaldri og gera Biblíuna lifandi, þá getur þessi biblíulega venja haft gríðarlega sterk áhrif á fjölskylduna. Hún eykur þekkingu okkar, styrkir trúna og lætur okkur í té fyrirmyndir — framúrskarandi trúfasta menn og konur fyrri tíma — sem geta verið okkur til hvatningar og fengið okkur til að verja sannleikann.“ Um leið og við veltum fyrir okkur ýmsum hliðum á góðum andlegum venjum ættu þeir, sem eru höfuð fjölskyldu sinnar, að reyna að koma auga á eina til tvær leiðir til að bæta andlega dagskrá fjölskyldunnar.
4 Hugleiðið orð Guðs daglega: „Þegar ríki Guðs stjórnar án mótstöðu og vilji hans er gerður á jörð eins og á himni munu hvorki menn né dýr ‚illt fremja eða skaða gjöra.‘ (Jes. 11:9; Matt. 6:9, 10)“ Þessi orð birtust í Rannsökum daglega ritningarnar — 2001 í skýringunum við biblíuversið fyrir 11. september. Þessi orð reyndust einstaklega huggunarrík. Hefur þú, sem höfuð fjölskyldunnar, það fyrir daglega venju að íhuga dagstextann með fjölskyldu þinni? Það er ákaflega gagnlegt. Ef ykkur hentar ekki að safnast saman á morgnana gætuð þið ef til vill gert það seinna um daginn. Faðir nokkur sagði: „Kvöldmatartíminn hefur hentað okkur vel til að ræða dagstextann.“
5 Ef lestur dagstextans er nú þegar í föstum skorðum hjá fjölskyldu þinni, eigið þið hrós skilið. Ef til vill getið þið haft enn meira gagn af dagstextanum með því að lesa kafla úr Biblíunni um leið. Sumir hafa vanið sig á að lesa allan kaflann sem biblíuvers dagsins er tekið úr. Aðrir lesa smátt og smátt ákveðna biblíubók frá upphafi til enda. Daglegur biblíulestur hjálpar fjölskyldunni að þroska með sér heilnæman ótta við að vanþóknast Jehóva og löngun til að gera vilja hans. — 5. Mós. 17:18-20.
6 Biblíulestraráætlun fjölskyldunnar og dagleg yfirferð dagstextans verður enn gagnlegri ef þið takið ykkur örfáar mínútur til að ræða um það hvernig upplýsingarnar geta komið að gagni. Kennslubók boðunarskólans hefur þessa tillögu á bls. 60: „Þú gætir . . . valið fáein vers úr biblíulestri vikunnar, rætt um merkingu þeirra og síðan spurt: ‚Hvaða leiðbeiningar eru í þessum versum? Hvernig getum við notað þau í boðunarstarfinu? Hvað segja þau um Jehóva og starfshætti hans og hvernig auka þau virðingu okkar fyrir honum?‘“ Svona andlegar umræður hjálpa öllum í fjölskyldunni að ‚reyna að skilja, hver sé vilji Drottins.‘ — Ef. 5:17.
7 Fjölskyldunám: Góð leið fyrir höfuð fjölskyldunnar til að sýna börnunum fram á að andleg mál hafi forgang er reglubundið fjölskyldunám í hverri viku. Ungur maður segir svo frá: „Pabbi var stundum svo þreyttur eftir vinnuna að hann gat varla haldið sér vakandi, en samt féll námsstundin ekki niður, það hjálpaði okkur að skilja hvað hún var þýðingarmikil.“ Börnin geta líka stuðlað að því að þessi regla skili góðum árangri. Ellefu manna fjölskylda vaknaði reglubundið klukkan fimm til fjölskyldunáms vegna þess að það var eini tíminn sem kom til greina.
8 Til þess að fjölskyldunámið verði árangursríkt þarf höfuð fjölskyldunnar að ‚hafa gát á fræðslunni.‘ (1. Tím. 4:16) Kennslubók boðunarskólans segir á bls. 32: „Segja má að gott fjölskyldunám hefjist á því að líta gagnrýnu auga á fjölskylduna. Hvernig dafnar hún andlega? . . . Eru börnin ófeimin að láta jafnaldra sína sjá sig í boðunarstarfinu og láta þau vita að þau séu vottar Jehóva? Njóta þau þess að nema biblíuna og lesa í henni með fjölskyldunni? Eru þau að tileinka sér lífsveg Jehóva? Skarpskyggnir foreldrar sjá hvað gera þarf til að byggja upp andlega eiginleika hjá hverjum og einum.“
9 Safnaðarsamkomur: Samkomusókn og undirbúningur ætti að vera snar þáttur í vikulegri dagskrá ykkar. (Hebr. 10:24, 25) Stundum gæti öll fjölskyldan undirbúið sig í sameiningu fyrir sumar samkomurnar. Getið þið gert ráðstafanir í tæka tíð í stað þess að bíða fram á síðustu stundu með undirbúninginn? Fastar venjur á þessu sviði verða til þess að þið undirbúið ykkur betur og hafið líka meira gagn af samkomunum. — Orðskv. 21:5.
10 Góðar andlegar venjur einkennast af reglufestu. Hvað er til bragðs ef kringumstæðurnar gera þér erfitt um vik að undirbúa þig fyrir allar samkomur? Eftirfarandi tillögu er að finna í kennslubók boðunarskólans á bls. 31: „Gættu þín að falla ekki í þá gryfju að renna hratt og grunnfærnislega yfir efnið til þess eins að fara yfir það eða, það sem verra er, að sleppa því alveg fyrst þú kemst ekki yfir það allt. Reyndu heldur að ákvarða hve mikið þú kemst yfir og farðu rækilega yfir það. Temdu þér að gera þetta í hverri viku, og með tímanum geturðu kannski bætt við þig og undirbúið þig fyrir aðrar samkomur líka.“
11 Þegar fjölskyldan kemur snemma á samkomur á hún auðveldara með að vera í réttu hugarástandi til að lofa Jehóva og hafa gagn af þeim leiðbeiningum sem hann veitir. Er það venja í þinni fjölskyldu? Það krefst góðrar skipulagningar og samvinnu allra i fjölskyldunni. Ef fjölskylda þín er oft á þönum og undir miklu álagi á samkomukvöldum, gætuð þið þá breytt venjum ykkar? Gætuð þið gengið frá einhverju fyrir fram? Ef einhver í fjölskyldunni hefur allt of mikið að gera gætu hinir þá ekki hjálpað honum? Myndi það ekki draga úr álaginu ef allir væru ferðbúnir á samkomuna nokkrum mínútum fyrr? Gott skipulag stuðlar að friði bæði í fjölskyldunni og í söfnuðinum. — 1. Kor. 14:33, 40.
12 Boðunarstarfið: Að hafa fastan tíma fyrir boðunarstarfið er annað atriði sem fellur undir góðar andlegar venjur. Jayson heitir ungur maður. Hann segir: “Laugardagsmorgnar voru alltaf helgaðir boðunarstarfinu hjá okkur fjölskyldunni. Það gerði mér gott vegna þess að því meira sem ég var úti í starfinu, þeim mun betur sá ég hverju það kemur til leiðar og þá naut ég þess betur.“ Margir þeirra, sem hafa alist upp í vottafjölskyldum, hafa líka séð að fastur vikulegur tími fyrir boðunarstarfið átti þátt í framförum þeirra sem kristnir boðberar.
13 Fastar venjur geta líka stuðlað að því að tími fjölskyldunnar í boðunarstarfinu verður ánægjulegri og skilar meiri árangri. Hvernig er hægt að gera það? Eftirfarandi tillaga er í Varðturninum 1. ágúst 1999, bls. 21: „Notið þið fjölskyldunámstímann stundum til að aðstoða börnin við að búa sig undir boðunarstarf vikunnar? Það getur reynst mjög gagnlegt og stuðlað að innihaldsríku og árangursríku starfi. (2. Tímóteusarbréfið. 2:15) Endrum og eins mætti nota allan námstímann til slíks undirbúnings. Yfirleitt mætti þó fjalla um ýmsa þætti boðunarstarfsins í styttri umræðum í lok fjölskyldunámsins eða á öðrum tíma vikunnar.“ Hefur fjölskylda þín prófað þetta?
14 Haldið áfram að taka framförum: Hefur þessi yfirferð hjálpað þér að koma auga á þau svið sem fjölskylda þín stendur sig vel á? Hrósaðu henni, og reyndu að stuðla að frekari framförum. Ef þú sérð önnur svið sem þarfnast lagfæringa, veldu þá eitt eða tvö til að takast á við í byrjun. Þegar þau eru orðin að fastri andlegri venju skaltu taka eitt til tvö fyrir til viðbótar. Vertu jákvæður og sanngjarn. (Fil. 4:4, 5) Það kostar mikla fyrirhöfn að koma á góðum andlegum venjum á heimilinu, en það er ómaksins vert, því að Jehóva fullvissar okkur um að ‚hann vilji láta þann sem breytir grandvarlega sjá hjálpræði sitt.‘ — Sálm. 50:23.