Hjálp í tæka tíð
1 Þegar Pétur postuli sá ástæðu til að styrkja trúsystkini sín var það umhyggjusemi sem fékk hann til að veita þeim hlýlegar áminningar og hvatningu. (2. Pét. 1:12, 13; 3:1) Hann hvatti ‚þá sem hlotið höfðu hina sömu dýrmætu trú‘ að þroska með sér andlega eiginleika til þess að verða hvorki „iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ (2. Pét. 1:1, 5-8) Markmið Péturs var að hjálpa þeim að staðfesta köllun sína og útvalningu sem þeir höfðu fengið frá Jehóva. Þannig gætu þeir verið „flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.“ (2. Pét. 1:10, 11; 3:14) Hvatningin reyndist mörgum vera hjálp í tæka tíð.
2 Kristnir umsjónarmenn nú á dögum sýna fólki Guðs svipaða umhyggju. Margir þjónar Jehóva búa við afar erfiðar aðstæður á þessum ‚örðugu tímum.‘ (2. Tím. 3:1) Vegna langvarandi fjárhags- og fjölskylduvandamála eða annarra persónulegra erfiðleika eru sumir eflaust sama sinnis og Davíð: „Ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.“ (Sálm. 40:13) Álagið getur orðið svo íþyngjandi fyrir suma að þeir vanrækja andlegar skyldur sínar og hætta að taka virkan þátt í boðunarstarfinu. Þeir hafa samt ekki ‚gleymt boðum Jehóva‘ þrátt fyrir erfiðleikana. (Sálm. 119:176) Núna er rétti tíminn fyrir öldunga að veita þeim nauðsynlega aðstoð. — Jes. 32:1, 2.
3 Öldungarnir hafa verið hvattir til að leggja sig sérstaklega fram um að aðstoða þá sem taka ekki þátt í boðunarstarfinu um þessar mundir. Þetta samstillta átak er nú í gangi og stendur út marsmánuð. Bóknámsumsjónarmenn eru beðnir um að heimsækja óvirka og bjóða þeim andlega aðstoð með það fyrir augum að þeir geti aftur byrjað að starfa með söfnuðinum. Hægt væri að eiga biblíunámsstund með viðkomandi ef þess þarf. Aðrir boðberar verða hugsanlega beðnir um að hjálpa til. Ef þú ert beðinn um að veita aðstoð gæti hún orðið til góðs, sérstaklega ef þú veitir vingjarnlega hvatningu og sýnir skilning.
4 Þegar einstaklingur fer aftur að starfa með söfnuðinum hafa allir ástæðu til að gleðjast. (Lúk. 15:6) Viðleitni okkar til að hvetja óvirka getur svo sannarlega orðið eins og „orð í tíma töluð.“ — Orðskv. 25:11.