Eftirlaunaárin — tækifæri til að taka meiri þátt í boðunarstarfinu?
1 Margt vinnusamt fólk hlakkar til þess að fara á eftirlaun og losna undan striti og álagi vinnunnar. En það er allt of algegnt að fólk finni fyrir deyfð og leiða og eldist of fljótt þegar það fer á eftirlaun. Þegar fólk hefur ekki nóg fyrir stafni getur það farið að hafa of miklar áhyggjur af sjálfu sér. Dagblað í Brasilíu sagði að þeir sem látið hafa af störfum hjá hinu opinbera kvarti yfir ‚óánægju, skapstyggð, óöryggi, tilgangsleysi og jafnvel þunglyndi eða að þeim finnist allt vera í upplausn.‘
2 Aftur á móti líta margir kristnir menn á þennan nýja kafla í lífinu sem tækifæri til að sinna andlegum málum enn betur. Bróðir einn gerðist brautryðjandi tveimur vikum eftir að hann varð 65 ára. Hann segir: „Ég hef aldrei fengið jafnmikla blessun í lífinu eins og síðustu tíu árin sem ég hef verið brautryðjandi.“ Hjón skrifuðu: „Bestu ár ævinnar hófust þegar við byrjuðum í brautryðjandastarfinu.“ Já, eftirlaunaárin eru gullið tækifæri fyrir marga til að færa út kvíarnar í boðunarstarfinu og uppskera mikla blessun frá Jehóva.
3 Verið virk og athafnasöm: Margir sem eru á eftirlaunum núna ólust ekki upp við nútímaþægindi og lærðu frá unga aldri að leggja hart að sér við vinnu. Þó svo að þeir hafi ekki sama æskuþrótt og áður eru þeir samt mjög athafnasamir. Ein deildarskrifstofa segir að af þeim 20.000 brautryðjendum, sem starfi á svæðinu, séu 22 prósent yfir sextugt. Þessir rosknu einstaklingar leggja mjög mikið af mörkum til boðunarstarfsins. Þeir auðga söfnuðina sem þeir starfa í með reynslu sinni og kristnum eiginleikum. — Jak. 3:17, 18.
4 Ef við erum virk í boðunarstarfinu stuðlar það að betri heilsu og auknum lífsgæðum. „Ég hef haldið mörg biblíunámskeið og það hefur hjálpað mér að halda huganum virkum,“ segir 84 ára systir sem gerðist brautryðjandi þegar hún fór á eftirlaun. „Ég á ekki bíl svo að ég geng mikið og er því við góða heilsu.“ Öldruð brautryðjendahjón sögðu: „Boðunarstarfið heldur okkur andlega og líkamlega hraustum. Við erum alltaf saman. Við hlæjum mikið og njótum lífsins.“
5 Að þjóna þar sem þörfin er meiri: Sumir kristnir menn á eftirlaunum hafa haft fjárhagslegt bolmagn til að flytja þangað sem meiri þörf er fyrir boðbera fagnaðarerindisins. Aðrir hafa fært út kvíarnar með því að starfa meðal þeirra sem tala erlent tungumál. Þessir kostgæfu boðberar fylgja fordæmi Páls og gera „allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að [þeir] fái hlutdeild með því.“ — 1. Kor. 9:23.
6 Ein hjón gerðust brautryðjendur eftir að hafa alið upp tvo syni. Þegar þau höfðu verið brautryðjendur í nokkur ár tóku þau sér það verkefni á hendur að læra kínversku. Núna eru þau að nálgast áttrætt og urðu nýlega þeirrar gleði aðnjótandi að sjá kínverska hópinn, sem þau starfa með, verða að söfnuði. Hjón sem þessi eru svo sannarlega til mikillar blessunar.
7 Enginn eftirlaunaaldur í boðunarstarfinu: Flestir hætta að lokum að vinna veraldlega vinnu en kristnir menn láta hins vegar aldrei af störfum í þjónustu Guðs. Allir verða að vera trúfastir „allt til enda.“ (Matt. 24:13, 14) Auðvitað geta ekki allir gert jafnmikið í þjónustu Jehóva og þeir gerðu þegar þeir voru ungir. En það er mjög hvetjandi að sjá þá gera það sem þeir geta, af heilum hug. Orð Guðs fullvissar þá um að hann gleymi ekki verki þeirra og kærleikanum sem þeir sýna nafni hans. — Lúk. 21:1-4; Hebr. 6:10.
8 Ef þú ert að nálgast eftirlaunaaldurinn væri gott fyrir þig að velta því fyrir þér í bænarhug hvernig þú getur nýtt þessar breyttu aðstæður til fulls. Með hjálp Jehóva kemst þú kannski að raun um að eftirlaunaárin veita þér tækifæri til að sinna andlegum málum enn betur og það er Jehóva til lofs og okkur til blessunar. — Sálm. 148:12, 13.