Tónlist sem endurnærir
1 Söngur og tónlist er óaðskiljanlegur hluti sannrar tilbeiðslu. Í Ísrael til forna sungu Asaf og bræður hans: „Lofið Drottin. . . . Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.“ (1. Kron. 16:8, 9) Nú á dögum syngjum við fyrir Jehóva í hverri viku á safnaðarsamkomum. (Ef. 5:19) Eru það ekki kjörin tækifæri til að lofa nafn hans? — Sálm. 69:31.
2 Við getum fyllt hugann af andlegum hugsunum með því að hlusta á Kingdom Melodies af geisladiskum eða snældum, en það eru ríkissöngvar í hljómsveitarútsetningu. „Þegar ég hlusta á ríkissöngvana heyri ég textann í huganum,“ segir systir nokkur. „Þetta er svo sannarlega góð leið til að hugsa um Jehóva og njóta góðrar tónlistar.“ — Fil. 4:8.
3 Hvenær hefurðu tækifæri til að hlusta? Þegar maður hlustar á ríkissöngvana heima hjá sér skapast notalegt og gott andrúmsloft á heimilinu sem stuðlar að friði innan fjölskyldunnar. „Við spilum [söngvana] aftur og aftur heima fyrir og í bílnum og þreytumst aldrei á að hlusta á þessar áhrifamiklu útsetningar,“ skrifaði fjölskylda nokkur. „Oft hafa Kingdom Melodies skapað rétt hugarástand þegar við erum að hafa okkur til fyrir samkomur eða erum á leiðinni á mótsstað.“ Systir nokkur sagði: „Það er virkilega upplífgandi að hlusta á þá [ríkissöngvana] þegar ég er að vinna húsverkin. Hverjum hefði dottið í hug að ég myndi brjóta saman þvottinn með bros á vör? Ég er ákveðin í því að spila þessi lög þegar ég verð niðurdregin. Lögin eru svo upplífgandi. . . . Hvert lag vekur ánægjutilfinningu.“ Hvenær heldurðu að gott væri fyrir þig að hlusta á þessa upplífgandi tónlist?
4 Mikið af tónlist nútímans endurspeglar anda heimsins. Með því að nýta sér upptökur af ríkissöngvunum í hljómsveitarútsetningu geta foreldrar hjálpað börnunum að þroska með sér smekk fyrir heilnæmri tónlist. Margir biblíunemendur og áhugasamt fólk yrði líka ánægt að frétta af þessari fallegu tónlist sem lofar Jehóva og gleður hjartað. — Sálm. 47:2, 3, 7, 8.