Ungt fólk sem skín eins og ljós
1. Hvernig gefur Biblían til kynna að kristnir menn myndu vekja athygli og hvernig má heimfæra þau orð upp á kristna unglinga nú á dögum?
1 Jesús sagði við lærisveina sína: „Þér eruð ljós heimsins.“ (Matt. 5:14, 16) Þeir myndu vekja athygli eins og borg á fjallstindi, sem leiftrar í sólskini. Nú á dögum skína margir kristnir unglingar „eins og ljós í heiminum“ vegna heiðvirðrar hegðunar og dugnaðar í boðunarstarfinu. — Fil. 2:15; Mal. 3:18.
2. Hvernig má vitna fyrir kennurum og bekkjarfélögum?
2 Í skólanum: Hvernig gætir þú vitnað í skólanum? Sumir unglingar hafa nýtt sér bekkjarumræður um málefni eins og eiturlyf, þróunarkenninguna og Helförina, svo fátt eitt sé nefnt. Ung systir átti að skrifa ritgerð um hryðjuverk og notaði tækifærið til að segja frá Guðsríki sem einu von mannkynsins. Kennarinn var ánægður með hvað ritgerðin var vel unnin. Þetta ruddi brautina fyrir frekara boðunarstarf.
3. Hvernig getur þú með framkomu þinni skinið eins og ljós í skólanum?
3 Einnig er hægt að skína eins og ljós á annan hátt, það er að segja með góðri hegðun, siðlegum klæðaburði og snyrtilegu útliti. (1. Kor. 4:9; 1. Tím. 2:9) Þegar nemendur og kennarar sjá að þú hegðar þér öðruvísi en hinir gætu sumir laðast að sannleikanum. Góð hegðun þín gæti veitt þér tækifæri til að segja frá sannleika Biblíunnar. (1. Pét. 2:12; 3:1, 2) Það er ekki alltaf auðvelt að hegða sér í samræmi við Biblíuna, en Jehóva mun blessa þig ríkulega. (1. Pét. 3:16, 17; 4:14) Þú gætir vakið áhuga á fagnaðarerindinu með því að lesa biblíurit í hléum milli kennslustunda eða með því að láta þau liggja þar sem aðrir sjá þau.
4. Nefnið nokkra kosti þess að vitna í skólanum?
4 Það styrkir trú þína að skína eins og ljós í skólanum og þú verður hreykinn af því að þjóna Jehóva. (Jer. 9:24) Auk þess veitir það vörn. Systir nokkur sagði: „Kosturinn við að tala um trúna er sá að aðrir nemendur reyna ekki að fá mig til að gera það sem stangast á við orð Biblíunnar.“
5. (a) Hvernig hafa sumir unglingar aukið boðunarstarf sitt? (b) Hvaða andlegu markmið hefur þú sett þér?
5 Aukin þjónusta: Margir unglingar skína eins og ljós á annan hátt, það er með því að auka boðunarstarf sitt. Eftir að ungur bróðir hafði lokið grunnnámi flutti hann þangað sem mikil þörf var fyrir boðbera. Þar tilheyrði hann litlum söfnuði með aðeins einn öldung. „Mér finnst alveg frábært að vera hér,“ skrifaði hann vini sínum. „Boðunarstarfið er svo skemmtilegt. Við tölum við alla í um 20 mínútur vegna þess að fólk vill hlusta á allt sem við höfum að segja.“ Hann bætti við: „Ég vildi óska að allir unglingar gerðu eitthvað þessu líkt svo að þeim geti liðið eins og mér. Það er ekkert betra til en að þjóna Jehóva með öllu sem við eigum.“
6. Hvers vegna getum við verið stolt af unga fólkinu í söfnuðinum okkar?
6 Við erum stolt af ykkur unga fólkinu sem skínið eins og ljós í heiminum. (1. Þess. 2:20) Þegar þið þjónið Jehóva af öllu hjarta, allri sálu, öllum huga og öllum mætti munið þið uppskera „hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma . . . og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ — Mark. 10:29, 30; 12:30.