Skapaðu þér tækifæri til að boða trúna
1 Söfnuðurinn samanstendur af fólki sem býr við ólíkar aðstæður. En staðfesta okkar í því að lofa Jehóva sameinar okkur. (Sálm. 79:13) Hvernig getum við skapað okkur tækifæri til að boða trúna ef heilsuleysi eða aðrar erfiðar kringumstæður gera okkur það erfitt fyrir?
2 Við dagleg störf: Jesús notaði tækifærin sem gáfust til að vitna fyrir fólki sem hann átti samskipti við. Hann talaði við Matteus þegar hann átti leið hjá tollbúð, Sakkeus þegar hann var á ferðalagi og samverska konu þegar hann hvíldi sig. (Matt. 9:9; Lúk. 19:1-5; Jóh. 4:6-10) Við getum einnig notað hversdagslegar samræður til að bera vitni. Ef við höfum Biblíuna og smárit eða bæklinga við höndina erum við frekar tilbúin að tala við aðra um von okkar. — 1. Pét. 3:15.
3 Gerir hreyfihömlun það að verkum að þú kemst minna hús úr húsi en þú vildir? Vertu vakandi fyrir tækifærum til að vitna fyrir læknum, hjúkrunarfólki og öðrum sem þú hittir. (Post. 28:30, 31) Hefurðu prófað að nota símann eða bréfaskriftir til að bera vitni ef þú kemst sjaldan að heiman? Systir nokkur skrifar reglulega til ættingja sinna sem eru ekki í trúnni. Hún lætur uppörvandi orð frá Biblíunni og frásögur af eigin reynslu í boðunarstarfinu fylgja með.
4 Í vinnunni og skólanum: Löngun okkar að lofa Jehóva fær okkur til að skapa okkur tækifæri til að sá fræjum sannleikans í vinnunni og skólanum. Átta ára boðberi sagði bekknum sínum frá því sem hann las um tunglið í blaðinu Vaknið! Eftir að kennari hans komst að því hvaðan hann fékk upplýsingarnar þáði hann Varðturninn og Vaknið! reglulega. Ef við látum bókina Hvað kennir Biblían? liggja þar sem aðrir á vinnustaðnum geta séð hana getur það eitt vakið spurningar og orðið til þess að við berum vitni um trú okkar.
5 Sérð þú möguleika á að skapa þér tækifæri til að boða trúna við dagleg störf? Við skulum leggja okkur fram um að „bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð“ með því að nota aðstæður okkar sem best dag hvern. — Hebr. 13:15.