Spurningakassinn
◼ Er viðeigandi að söfnuðir eða einstaklingar noti opinber merki lögskráðra félaga í eigu Votta Jehóva?
Þegar talað er um opinbert merki (lógó) er átt við nafn, tákn eða vörumerki sem fólk á að þekkja eða eiga auðvelt með að bera kennsl á. Varðturnsmerkið stendur fyrir Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania og fleiri félög í eigu alþjóðasafnaðarins. Önnur lögskráð félög í eigu Votta Jehóva nota ýmis önnur merki.
Söfnuðir eða einstaklingar ættu ekki að nota opinber merki eða nöfn lögskráðra félaga í eigu alþjóðasafnaðarins eða afbrigði af þeim, hvorki í bréfhausum eða til að merkja ríkissali, persónulega muni eða nokkuð annað. Ef opinber merki í eigu alþjóðasafnaðarins væru notuð með þeim hætti gæti það valdið því að opinberir aðilar, boðberar og aðrir geri ekki greinarmun á einstökum söfnuðum okkar og lögskráðum félögum í eigu alþjóðasafnaðarins. Hið sama er að segja um bréf. Menn gætu ranglega dregið þá ályktun að þau væru send frá höfuðstöðvunum eða deildarskrifstofunni.
Héðan í frá ætti ekki að nota Varðturnsmerkið eða afbrigði af því til að merkja ríkissali, ekki einu sinni sali í eigu Watch Tower Society eða dótturfélaga þess. Söfnuðir, sem eru með merkið á ríkissölum sínum núna, þurfa ekki að breyta því þegar í stað því að breytingin getur bæði verið kostnaðarsöm og tímafrek. Huga mætti að breytingu samhliða meiri háttar viðhaldi eða endurnýjun. Ef það kostar ekki mikið fé eða fyrirhöfn að fjarlægja merkið mætti hins vegar gera það fljótlega.