Ríkissalasjóður Félagsins
1 Allt frá fyrstu öld og fram til þessa dags hafa kristnir menn safnast saman til tilbeiðslu bæði á einkaheimilum og stöðum sem opnir eru almenningi. (Post. 2:42, 46; 12:12) En einkum frá árinu 1935, þegar tilkynnt var að samkomusalur, sem var í smíðum á Havaji-eyjum, yrði kallaður ríkissalur, hafa söfnuðir votta Jehóva um víða veröld leitast við að hafa sína eigin og einstæðu tilbeiðslustaði og hafa auðkennt þá með þessu nafni. Afleiðingin er sú að nær alls staðar þar sem votta Jehóva er að finna má einnig finna slíka ríkissali og þeim fer fjölgandi ár hvert þegar nýir eru byggðir eða söfnuðir verða sér úti um húsnæði á annan hátt til að nota sem fastan samkomustað.
2 Fyrir votta Jehóva er ríkissalurinn mikilvægasta byggingin í byggðarlaginu. Hann kann í sjálfu sér að vera fallega hannaður og byggður, en þótt hann sé tiltölulega íburðarlítill í útliti er hann mikils metinn sem miðstöð sannrar tilbeiðslu og guðræðislegrar starfsemi í því byggðarlagi. Hann ber vitni um að verið er að boða fagnaðarerindið á þessum stað. Þar geta allir sem eru sér meðvitandi um andlega þörf sína fengið sanna andlega endurnæringu og fræðslu. — Matt. 5:3.
3 Hröð aukning kallar á fleiri ríkissali: Á undanförnum árum hefur svo sannarlega ‚hinn minnsti orðið að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð.‘ (Jes. 60:22) Þörfin á ríkissölum er því sífellt fyrir hendi og fer vaxandi. Ríkissalasjóður Félagsins var stofnaður sem hjálpartæki til að mæta þessari þörf. Upphaflega var tilkynnt um þessa ráðstöfun á umdæmismótinu „Eining undir Guðsríki“ árið 1983. Síðan þá hefur boðberatalan á Íslandi tvöfaldast. Sjóður þessi hefur sannarlega sannað gildi sitt á þessum árum því að með hjálp hans hefur fjöldi ríkissala verið reistur víða um heim. Hann hefur gefið fólki Jehóva um heim allan tækifæri til að sýna á framúrskarandi hátt kærleika sinn og einingu. — Jóh. 13:35.
4 Hvernig Ríkissalasjóður Félagsins starfar: Ríkissalasjóður Félagsins starfar sem „gegnumstreymissjóður.“ Það þýðir að framlög til sjóðsins eru lögð inn á reikning sem er notaður eingöngu til að standa undir lánum til að aðstoða söfnuði við að fjármagna kaup eða byggingu ríkissala eða endurbætur á þeim. Framlög til Ríkissalasjóðsins verða ekki „gjöf“ til afmarkaðra verkefna varðandi einstaka ríkissali. Lán úr sjóðnum verður að endurgreiða til hans aftur. Endurgreiðslurnar, sem þannig safnast inn, svo og áframhaldandi framlög, standa síðan undir lánum til að fjármagna enn aðra ríkissali.
5 Félagið stendur straum af öllum rekstrarkostnaði sjóðsins, svo sem bréfaskriftum, lögfræðilegum þáttum, bankakostnaði og öðru slíku. Öll framlögin til Ríkissalasjóðs Félagsins fara því óskipt í þann „pott“ sem lánað er úr til safnaðanna. Lánin eru síðan endurgreidd með 6 prósenta vöxtum. Vextirnir eru til að vega upp á móti verðbólgu og halda verðgildi þeirra fjármuna sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar og þar með getu hans til að aðstoða söfnuði núna og í framtíðinni.
6 Hvaðan Ríkissalasjóður Félagsins fær tekjur sínar: Sú frumregla, sem tekjuöflun sjóðsins byggir á, kemur fram í orðum Páls postula í 2. Korintubréfi 8:14, 15. Hann hafði áhyggjur af efnislegum þörfum bræðranna í Palestínu og bar fram viðeigandi tillögur til safnaðanna í Litlu-Asíu um að þeir veittu aðstoð. Postulinn vísaði til kærleiksríkra ráðstafana Jehóva til að annast þarfir Ísraelsmanna á ferð þeirra í eyðimörkinni í fjörutíu ár og sagði: „Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna, til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður, eins og skrifað er: ‚Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.‘“ (Samanber 2. Mósebók 16:18.) En hvernig er þetta í framkvæmd?
7 Í byrjun september 1983 var eftirfarandi fyrirkomulag tekið upp í Bandaríkjunum og Kanada og síðan hefur því smám saman verið komið á víðast hvar annars staðar. Frá og með 1. júlí 1993 mun sami háttur verða tekinn upp á Íslandi. Í hverjum söfnuði er settur upp sérstakur framlagabaukur sem merktur er „FRAMLÖG TIL RÍKISSALASJÓÐS FÉLAGSINS.“ Þetta fyrirkomulag gefur sérhverjum í söfnuðinum, sem þess óskar, tækifæri til að leggja fram frjáls framlög til þessa sjóðs af og til. (Ef einhver hér á landi hefur fram að þessu viljað styrkja þennan sjóð hefur hann þurft að senda framlög sín beint til deildarskrifstofunnar og auðkenna þau sem framlög til Ríkissalasjóðs Félagsins.) Það sem í þennan sérstaka framlagabauk kemur er síðan sent til Félagsins í lok hvers mánaðar og verður eingöngu notað til að aðstoða söfnuði sem þarfnast fjármuna vegna byggingar á ríkissal. Félagið mun viðurkenna móttöku á öllum framlögum og færa þau til tekna á reikning Ríkissalasjóðs Félagsins. — Samanber 2. Konungabók 12:9-16.
8 Í greininni „Haltu í við vaxtarhraða guðveldisins“ í Ríkisþjónustu okkar fyrir desember 1989 var rætt um þennan sjóð. Þar var einnig minnst á annan sérstakan sjóð sem nefndur var „Framkvæmdasjóður votta Jehóva á Íslandi.“ Sá sjóður hefur hins vegar verið lagður niður eins og fram kemur í bréfi Félagsins til allra safnaða votta Jehóva á Íslandi, dagsettu 16. október 1992. Þar af leiðandi renna „sóknargjöldin,“ sem íslenska ríkið greiðir til trúfélags votta Jehóva á Íslandi, beint til Félagsins. Þau eru alveg óháð Ríkissalasjóðnum. Sama er að segja um framlög þau sem lögð eru í baukinn sem merktur er „Framlög til alþjóðastarfs Félagsins.“ Þeir fjármunir renna beint til Félagsins til að standa straum af útgjöldum vegna framleiðslu ritanna, reksturs Betel- og trúboðsheimila, styrks til sérbrautryðjenda og farandhirða og annarra slíkra útgjalda.
9 Í ljósi þeirrar grundvallarreglu að ‚gnægð eins bæti úr skorti annars‘ er greinilegt að ekki geta allir söfnuðir lagt jafnt af mörkum til þessa sjóðs. Sumir söfnuðir eru fámennir og geta gert lítið meir en að standa undir eigin útgjöldum. Aðrir eru að greiða niður lán vegna ríkissalar síns. Það eitt að framlagabaukur vegna Ríkissalasjóðs Félagsins sé fyrir hendi í ríkissal safnaðar þýðir ekki að ætlast sé til framlaga frá söfnuði þar sem fremur er ‚skortur‘ en ‚gnægð.‘ Öllum er hins vegar gefið tækifæri til að aðstoða aðra söfnuði á þennan hátt.
10 Undirbúningur, kostnaðaráætlun og bókhaldsaðferðir: Það er ánægjulegt þegar söfnuður getur haft sinn eigin ríkissal, einn eða í félagi við annan eða aðra söfnuði. Það er hins vegar ekki alltaf raunhæft. Öldungarnir ættu að vega og meta allar aðstæður og ræða málið við farandhirðinn. Ef niðurstaðan er sú að kanna málið frekar ættu þeir að láta fara fram könnun í söfnuðinum til að komast að raun um (1) hversu mikið fé muni vera lagt fram strax í upphafi sem ganga mun upp í kaupverð eða byggingarkostnað, (2) hversu stóra upphæð þeir sem tengjast söfnuðinum(-unum) geti lagt fram sem lán og (3) hversu mánaðarlegu frjálsu framlögin verði mikil sem standa þurfa undir venjulegum rekstrarkostnaði og endurgreiðslu láns sem hugsanlega fengist hjá Félaginu. Þegar slík könnun er gerð ættu engin nöfn að vera á miðunum þegar þeim er skilað inn aftur. Mikilvægt er að allir gefi upp nákvæmar tölur og líti raunsæjum augum á hversu mikið þeir geti lagt fram eða lánað og til hve langs tíma, þar sem öldungarnir munu nota þessar tölur til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir í þágu safnaðarins.
11 Áður en hafist er handa við að kaupa eða byggja ríkissal ætti að gera vandlega kostnaðaráætlun og það áður en sótt er um lán til Ríkissalasjóðs Félagsins. Það kemur í veg fyrir að söfnuðurinn reisi sér hurðarás um öxl og að greiðslubyrði lánsins sé meiri en hann fái risið undir. Þar fyrir utan stuðlar það að því að ekki sé beðið um hærra lán en þörf er á og því meira eftir í sjóðnum til að aðstoða aðra söfnuði sem þarfnast sárlega aðstoðar. Eining og samvinna bræðra víða um heim varðandi byggingu og endurbætur ríkissala og miklar framkvæmdir á þessu sviði á síðustu árum hefur orðið þess valdandi að núna er fyrir hendi mikil reynsla og þekking hvað varðar alla þætti þessa verkefnis. Þegar því söfnuður hyggst fara út í að kaupa, byggja eða betrumbæta ríkissal ættu öldungar safnaðarins að leita ráða hjá Félaginu áður en hafist er handa eða farið er út í einhverjar skuldbindingar. Þannig má byggja á reynslu annarra og forðast óþarfan tvíverknað og að endurtaka kostnaðarsöm mistök sem öðrum hefur orðið á. Ef til vill eru til mun hagkvæmari lausnir á ýmsum verkþáttum en öldungunum á staðnum er kunnugt um. Þótt erfitt sé að útiloka að óvæntir kostnaðarliðir láti heildarkostnaðinn fara eitthvað fram úr áætlun má með hjálp reyndra aðila gera verulega nákvæma kostnaðaráætlun með því að vinna skipulega og fara rækilega í saumana á öllum stærstu kostnaðarliðunum. Sé þannig að málum staðið er ekki nauðsynlegt að reikna með stórum fjárhæðum til að mæta óvæntum útgjöldum og söfnuðurinn veit með vissu hvað hann er að samþykkja.
12 Það kostar mikil fjárútlát fyrir söfnuð að koma sér upp ríkissal. Öldungarnir verða að sjá svo um að öll meðhöndlun fjármunanna sé með ábyrgum hætti. Halda þarf nákvæmt bókhald og þeim söfnuði (söfnuðum), sem málið varðar, skyldi mánaðarlega gefin nákvæm skýrsla um stöðu mála. Umsjónarmaður í forsæti ætti að sjá svo um að staða byggingarsjóðsins og allra tengdra reikninga sé endurskoðuð ársfjórðungslega sömu mánuði og hið venjulega reikningshald safnaðarins er endurskoðað. Söfnuðurinn verður að samþykkja framkvæmdirnar í heild sinni eftir að hafa verið upplýstur nákvæmlega um alla þætti málsins og áætlaðan kostnað. (km 6. 84 bls. 7) Að því loknu ætti að fara rétta leið til að fá heimild fyrir öllum greiðslum áður en nokkrir fjármunir eru reiddir af hendi. Við lok framkvæmdanna ætti að liggja fyrir skýrt bókhald og uppgjör útgjaldanna í heild. Félaginu skyldi sent afrit af því uppgjöri því að það getur komið að gagni við gerð áætlana hjá öðrum söfnuðum. Ef einhverjir fjármunir eru afgangs og lán var fengið úr Ríkissalasjóði Félagsins ætti að endursenda það sem afgangs er svo nota mætti það til að hjálpa öðrum söfnuðum.
13 Það sem áorkað hefur verið og framtíðarverkefni: Veitt hafa verið lán úr Ríkissalasjóði Félagsins til byggingu meira en 1000 ríkissala í Bandaríkjunum og svipaða sögu er að segja víða um heim. Mörg þakkarbréf hafa borist frá söfnuðum sem notið hafa slíkrar aðstoðar. Söfnuður í Wisconsin í Bandaríkjunum skrifaði: „Nú er rétt rúmt ár liðið síðan við vígðum nýja ríkissalinn okkar Jehóva og við viljum tjá þakklæti okkar fyrir að hafa fengið lán úr Ríkissalasjóðnum. Það sem virtist ógjörningur fyrir tveim árum er nú orðið að veruleika — og það allt vegna kærleiksríks örlætis bræðra okkar og systra.“
14 Þetta örlæti kemur fram í fleiru er framlögum til sjóðsins. Hópur bæði bræðra og systra ver tíma og kröftum til að hjálpa söfnuðum að reisa ríkissali. Þetta fólk stendur sjálft undir ferðakostnaðinum og oft líka dvalarkostnaðinum og notar þar að auki eigin verkfæri. Það hlýtur sannarlega að gleðja himneskan föður okkar að sjá þjóna sína nota efni sín og hæfileika á þennan hátt. — Samanber 1. Þessaloníkubréf 2:6-9 og 2. Þessaloníkubréf 3:8b.
15 Nútímaþjónar Jehóva taka til sín orð Hebreabréfsins 10:24, 25 um að ‚gefa gætur hver að öðrum og vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar.‘ Þegar þetta helst í hendur við mikla aukningu er engin furða að sífellt sé þörf á fleiri ríkissölum. Hversu ánægð erum við ekki að hafa menn valda af skipulagi Jehóva til að taka forystuna bæði í andlegum efnum og í að reisa nauðsynlegt húsnæði. En við þurfum líka sem einstaklingar og söfnuðir að vega og meta hvað við getum lagt af mörkum til að styrkja Ríkissalasjóð Félagsins í því verkefni hans að hjálpa söfnuðum að koma sér upp ríkissal. (Post. 20:35; 1. Jóh. 4:12, 13, 21) Jehóva hefur blessað þessa ráðstöfun og hann mun vissulega blessa okkur er við sinnum af elsku og alúð þörfum þeirra sem gefa núna gaum að boðskapnum um Guðsríki og hraða sér inn í skipulag Guðs á lokadögum þessara síðustu daga. — Jes. 60:8, 10, 11, 22.