Spurningakassinn
◼ Hvað þurfa börn að læra til að taka út þroska í sannleikanum?
Kristnir foreldrar vinna hörðum höndum að því að ala börn sín upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) Þeir hafa til dæmis komist að því að það er mjög gagnlegt að fara yfir dagstextann með börnunum á hverjum morgni. Fjölskyldur gætu horft á myndböndin saman og rætt um þau, talað um ákveðið efni úr greinaröðinni Spurningar unga fólksins, sviðsett atburð úr Biblíunni eða haft æfingar fyrir boðunarstarfið. Þetta getur fjölskyldan gert í tilbeiðslustundinni eða við önnur tækifæri. En svo börnin geti tekið framförum verður líka að kenna þeim dýpri biblíusannindi. – Hebr. 6:1.
Lítum nánar á hvað við kennum fólkinu úti á starfssvæðinu. Í fyrstu eða annarri heimsókn reynum við að hefja biblíunámskeið með því að nota bókina Hvað kennir Biblían? Eftir að við höfum lokið við þá bók byrjum við að skoða bókina „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“. Af hverju förum við þannig að? Með hjálp bókarinnar Hvað kennir Biblían? lærir nemandinn undirstöðuatriði Biblíunnar. Síðan lærir hann í seinni bókinni hvernig hann getur nýtt sér meginreglur Biblíunnar í daglegu lífi sínu. Með því að fara yfir báðar þessar bækur geta nýir náð rótfestu og orðið stöðugir í trúnni. (Kól. 2:6, 7) Myndi þetta efni ekki líka gagnast börnunum okkar? Þau þurfa líka að læra um lausnarfórnina, Guðsríki og eðli dauðans. Þau verða að vita af hverju Guð umber þjáningar og hvernig þau geta þekkt síðustu daga þessa heimskerfis. Þau verða að vera sannfærð um að vottar Jehóva séu með sannleikann. Ungt fólk þarf líka að skilja meginreglur Biblíunnar og fá þjálfun í því að „aga hugann“. (Hebr. 5:14) Foreldrar þurfa auðvitað að taka tillit til aldurs og getu barna sinna. En gott er að hafa í huga að mörg börn geta byrjað að læra flókin biblíusannindi þótt þau séu enn mjög ung. – Lúk. 2:42, 46, 47.
Til að aðstoða foreldra verður að finna námsgögn á jw.org sem byggð eru á bókinni Hvað kennir Biblían? Fjölskyldur geta fundið þessa síðu með því að smella á BIBLÍAN OG LÍFIÐ og svo UNGLINGAR. Seinna meir koma svo ný námsgögn þarna inn sem byggð verða á bókinni „Láttu kærleika Guðs varðveita þig“. Það má þó að sjálfsögðu nota prentaðar útgáfur þessara bóka. Foreldrar geta sjálfir ákveðið hvort þeir vilji nota þetta efni í tilbeiðslustund fjölskyldunnar, þegar þeir kenna hverju barni í einrúmi eða þegar þeir kenna börnum að hafa sjálfsnám.