Haltu áfram að taka framförum í boðunarstarfinu
1. Hvaða dæmi frá fyrstu öld sýna að við eigum að taka framförum í boðunarstarfinu?
1 Við eigum að taka framförum í boðunarstarfinu. Það var það sem vakti fyrir Jesú þegar hann þjálfaði fylgjendur sína. (Lúk. 9:1-5; 10:1-11) Það sama má segja um Priskillu og Akvílas þegar þau tóku Apollós að sér og „skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg“. (Post. 18:24-26) Af sömu ástæðu hvatti Páll Tímóteus sem var reyndur boðberi til að halda áfram að vera kostgæfinn við að kenna svo að framför hans væri „öllum augljós.“ (1. Tím. 4:13-15) Sama hversu lengi við höfum þjónað Drottni sem boðberar fagnaðarerindisins þurfum við sífellt að vinna að því að taka framförum.
2. Hvernig getum við lært af öðrum?
2 Lærðu af öðrum: Ein leið til að taka framförum er að læra af öðrum. (Orðskv. 27:17) Fylgstu því með þegar aðrir boðberar kynna sannleikann. Biddu reynda boðbera um hnitmiðuð ráð og hlustaðu síðan vel á ráðleggingar þeirra. (Orðskv. 1:5) Finnst þér erfitt að fara í endurheimsókn, hefja biblíunámskeið eða taka þátt í einhverjum öðrum greinum boðunarstarfsins? Taktu frumkvæðið og biddu umsjónarmanninn í hópnum þínum eða reyndan boðbera um aðstoð. Mundu líka að heilagur andi Jehóva getur hjálpað okkur að verða færari boðberar, biddu því reglulega um anda Guðs í bænum þínum. – Lúk. 11:13
3. Hvernig ættum við að bregðast við ráðum þótt þau séu óumbeðin?
3 Ekki móðgast ef einhver bendir þér á hvernig þú getur bætt þig, jafnvel þótt ráðin séu óumbeðin. (Préd. 7:9) Taktu ráðin til þín með auðmýkt og þakklæti eins og Apollós gerði. Það er viturlegt. – Orðskv. 12:15.
4. Hvaða góðu ástæðu gaf Jesús fyrir því að taka framförum í boðunarstarfinu?
4 Framfarir eru Guði til lofs: Jesús notaði líkingar til að hvetja fylgjendur sína til að taka framförum í boðunarstarfinu. Hann líkti sjálfum sér við vínvið og smurðum fylgjendum sínum við greinar. Hann sagði að faðir sinn hreinsaði hverja þá grein sem bæri ávöxt svo að hún bæri meiri ávöxt. (Jóh. 15:2) Rétt eins og víngarðseigandi vill að greinar vínviðarins beri sem mestan ávöxt þá vill Jehóva að við höldum áfram að bera meiri „ávöxt vara“ okkar. (Hebr. 13:15) Hver er árangurinn af því að taka framförum sem boðberar? Jesús svarar: „Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt.“ – Jóh. 15:8.