Var Jesús með holdlegan eða andlegan líkama þegar hann var reistur upp?
Svar Biblíunnar
Í Biblíunni segir að Jesús hafi verið „tekinn af lífi að holdinu til en lífgaður [reistur upp] sem andi“. – 1. Pétursbréf 3:18; Postulasagan 13:34; 1. Korintubréf 15:45; 2. Korintubréf 5:16.
Það sem Jesús sjálfur sagði sýnir að hann myndi ekki rísa upp í líkama sínum úr holdi og blóði. Hann sagði að hann gæfi ‚hold sitt heiminum til lífs‘, eða gæfi það sem lausnargjald fyrir mannkynið. (Jóhannes 6:51; Matteus 20:28) Ef hann hefði tekið holdlegan líkama sinn aftur þegar hann reis upp hefði hann ógilt lausnarfórnina. Það getur þó ekki verið því að Biblían segir að hann hafi fórnað holdi sínu og blóði „í eitt skipti fyrir öll“. – Hebreabréfið 9:11, 12.
Hvernig gátu lærisveinar Jesú séð hann ef hann reis upp í andlegum líkama?
Andaverur geta tekið sér mennskan líkama. Englar sem gerðu þetta til forna borðuðu jafnvel og drukku með mönnum. (1. Mósebók 18:1–8; 19:1–3) Þeir voru samt andaverur og gátu yfirgefið efnisheiminn. – Dómarabókin 13:15–21.
Eftir upprisuna tók Jesús sér líka mennskan líkama tímabundið, rétt eins og englar höfðu gert áður. En þar sem hann var andavera gat hann samt birst og horfið fyrirvaralaust. (Lúkas 24:31; Jóhannes 20:19, 26) Líkamarnir sem hann birtist í voru ekki eins í hvert skipti. Það var ástæðan fyrir því að jafnvel nánir vinir Jesú þekktu hann ekki í sjón heldur á því sem hann sagði og gerði. – Lúkas 24:30, 31, 35; Jóhannes 20:14–16; 21:6, 7.
Þegar Jesús birtist Tómasi postula tók hann sér líkama þar sem sárin eftir aftökuna sáust. Jesús gerði það til að styrkja trú Tómasar af því að Tómas efaðist um að hann væri risinn upp. – Jóhannes 20:24–29.