Hvað er Babýlon hin mikla?
Svar Biblíunnar
Opinberunarbókin lýsir „konu“ en hún ber nafn sem er „leyndardómur: ‚Babýlon hin mikla‘“. Henni er líka lýst sem „vændiskonunni miklu“. (Opinberunarbókin 17:1, 3, 5) Konan táknar öll falstrúarbrögð heims en þau hafa „skipt út sannleikanum um Guð fyrir lygina“.a (Rómverjabréfið 1:25) Þó að þessi trúarbrögð séu ólík á margan hátt eiga þau það öll sameiginlegt að leiða fólk frá tilbeiðslunni á hinum sanna Guði, Jehóva. – 5. Mósebók 4:35.
Hvernig berum við kennsl á Babýlon hina miklu?
Babýlon hin mikla er tákn. Opinberunarbókin er borin fram „með táknum“ og þess vegna er rökrétt að álykta að Babýlon hin mikla sé tákn, en ekki bókstafleg kona. (Opinberunarbókin 1:1) Þar að auki „situr [hún] yfir mörgum vötnum“ sem „tákna kynþætti, fólk, þjóðir og tungur“. (Opinberunarbókin 17:1, 15) Raunveruleg kona gæti ekki gert það.
Babýlon hin mikla táknar heimsveldi. Hún er kölluð ‚borgin mikla sem ríkir yfir konungum jarðarinnar‘. (Opinberunarbókin 17:18) Hún hefur því áhrif um allan heim.
Babýlon hin mikla er trúarlegt veldi, ekki stjórnmála- eða viðskiptalegt. Fólkið í Babýlon til forna var mjög trúað og var þekkt fyrir ‚galdra og særingar‘. (Jesaja 47:1, 12, 13; Jeremía 50:1, 2, 38) Íbúar hennar stunduðu falstrú en tilbáðu ekki hinn sanna Guð, Jehóva. (1. Mósebók 10:8, 9; 11:2–4, 8) Leiðtogar Babýlonar voru hrokafullir og hófu sjálfa sig yfir Jehóva og tilbeiðsluna á honum. (Jesaja 14:4, 13, 14; Daníel 5:2–4, 23) Babýlon hin mikla er einnig þekkt fyrir ‚dulspekiiðkanir‘ sínar. Þetta sýnir að hún er trúarlegt veldi. – Opinberunarbókin 18:23.
Babýlon hin mikla getur ekki verið stjórnmálalegt veldi því að „konungar jarðarinnar“ harma eyðingu hennar. (Opinberunarbókin 17:1, 2; 18:9) Hún er ekki heldur viðskiptalegt veldi því að Biblían aðgreinir hana frá ‚kaupmönnum jarðar‘. – Opinberunarbókin 18:11, 15.
Babýlon hin mikla er viðeigandi tákn um falstrúarbrögð heims. Fölsk trúarbrögð fá fólk til að tilbiðja falsguði frekar en að kenna því að nálgast hin sanna Guð, Jehóva. Biblían kallar þetta „andlegt vændi“. (3. Mósebók 20:6; 2. Mósebók 34:15, 16) Mörg falstrúarbrögð halda á lofti kenningum sem eiga rætur að rekja til hinnar fornu Babýlonar. Það á meðal annars við um þrenningarkenninguna, kenninguna um ódauðleika sálarinnar og notkun líkneskja í tilbeiðslu. Þessi trúarbrögð blanda líka tilbeiðslu sinni við ást á heiminum. Biblían nefnir slíka ótryggð andlegt hjúskaparbrot. – Jakobsbréfið 4:4, neðanmáls.
Falstrúarbrögðin hafa mikið ríkidæmi sem þau stæra sig af og það passar við þá mynd sem Biblían gefur af Babýlon hinni miklu sem er „klædd purpura og skarlati“ og „skrýdd gulli, gimsteinum og perlum“. (Opinberunarbókin 17:4) Babýlon hin mikla er uppspretta „viðbjóðs á jörðinni“, eða þeim kenningum og verkum sem vanvirða Guð. (Opinberunarbókin 17:5) Þeir sem tilheyra falstrúarbrögðunum eru ‚kynþættir, fólk, þjóðir og tungur‘ sem styðja Babýlon hina miklu. – Opinberunarbókin 17:15.
Myndin er tekin með góðfúslegu leyfi British Museum
Steinhella með mynd af Nabónídusi Babýlonarkonungi með táknum guðaþrenningarinnar Sin, Ístar og Samas.
Babýlon hin mikla er ábyrg fyrir dauða „allra sem hafa verið drepnir á jörðinni“. (Opinberunarbókin 18:24) Í gegnum mannkynssöguna hefur falstrú ekki aðeins ýtt undir stríð og hryðjuverk heldur einnig hindrað fólki í að kynnast sannleikanum um Jehóva, Guð kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þetta hefur stuðlað að miklum blóðsúthellingum.
Hvernig lítur Guð á Babýlon hina miklu?
Í augum Guðs hafa syndir Babýlonar hinnar miklu ‚hlaðist upp allt til himins‘. (Opinberunarbókin 18:4, 5) Guð er reiður út í fölsk trúarbrögð vegna þess að þau gefa ranga mynd af honum og koma illa fram við áhangendur sína.
Hvað verður um Babýlon hina miklu?
Biblían segir að Guð hafi „fellt dóm yfir“ Babýlon hinni miklu. (Opinberunarbókin 18:20) Hún segir fyrir á táknrænan hátt að Guð bindi enda á öll falstrúarbrögð. (Opinberunarbókin 18:8) Hann fær skarlatsrautt villidýr – sem táknar öflugt pólitískt veldi – til að snúast gegn fölskum trúarbrögðum og eyða þeim. (Opinberunarbókin 17:16, 17) „Svona snögglega verður Babýlon, borginni miklu, varpað niður og hún hverfur um alla framtíð.“ (Opinberunarbókin 18:21) Þeir sem vilja þóknast Guði þurfa því nauðsynlega að ‚fara burt frá‘ falstrúarbrögðunum, aðgreina sig frá þeim. – 2. Korintubréf 6:14–17.
a Sjá greinina „Hvernig get ég fundið hina sönnu trú?“