Fóstureyðing – hver hefur rétt fyrir sér?
TVEIR sérfræðingar segja þér að einungis 0,1 prósent líkur séu á að barnið, sem þú gengur með, lifi. Ef það fæðist lifandi verður það mjög vanskapað og gæti dáið fáeinum dögum eftir fæðingu. Hvað gerir þú? Tekur þú áhættuna og fæðir barnið eða lætur þú eyða fóstrinu?
Þér þykir þetta kannski harla ólíkleg staða, en hún getur komið upp og gerði það í Lundúnum. Sem betur fór studdi spítalinn þá ákvörðun foreldranna að láta ekki eyða fóstrinu. „Það var aldrei reynt að fá okkur til að láta eyða fóstrinu,“ segir faðirinn. Hjónin eiga nú lítinn dreng sem er eðlilega skapaður að öllu leyti.
„Við fögnum því að sjálfsögðu,“ segir einn af læknunum, og bætir svo við: „Vandinn er sá að í líffræði er aldrei hægt að segja neitt með hundrað prósent vissu.“ Það er satt, en rangt mat læknis (eða foreldra) er aðeins ein hlið á fóstureyðingavanda okkar tíma.
Deiluatriði
Hin læknisfræðilegu og siðfræðilegu rök með og móti fóstureyðingum eru mjög tilfinningablandin. Þrýstihópar, sem eru ýmist með eða á móti, bera í einlægni fram rök fyrir sinni skoðun sem þeir vilja að aðrir heyri og skilji, og deilurnar eru oft harðar. Hver hefur á réttu að standa?
Ljóst er að foreldrarnir, sem getið er hér á undan, tóku rétta ákvörðun. En hefði verið rétt af móðurinni að láta eyða fóstrinu ef læknarnir hefðu haft á réttu að standa?
Mörgum þykir erfitt eða ógerlegt að gefa einhlítt svar við þeirri spurningu. En eins og við munum sjá síðar eru til meginreglur sem geta verið okkur til leiðsagnar. Fyrst skulum við þó skoða hið hrikalega umfang fóstureyðinga og vandamála þar að lútandi á heimsmælikvarða.