Fóstureyðing – skiptar skoðanir
HVE margar fóstureyðingar — löglegar og ólöglegar — eru gerðar ár hvert í heiminum? Bókin Abortion segir að þær séu líklega „að minnsta kosti jafnmargar og dauðsföll fullorðinna — um 45 milljónir. En alþjóðasamtök, sem beita sér fyrir því að fólk takmarki barneignir að vild sinni, áætla að fóstureyðingar séu allt að 55 milljónir árlega!
Sovétríkin voru fyrst ríkja til að lögleiða fóstureyðingar árið 1920. Samkvæmt nýlegum, óstaðfestum fréttum eru gerðar um 5 milljónir fóstureyðinga þar á ári. Að sögn talsmanna heilbrigðisráðuneytisins í Kína er eytt upp undir 9 milljón fóstrum þar í landi á ári — sem nemur þriðjungi þungana. Í Japan er talan yfir tvær milljónir og í Bandaríkjunum yfir ein og hálf milljón. Á Bretlandseyjum telja fóstureyðingar upp undir fjórðung úr milljón og á Íslandi liðlega 700 (árið 1985) sem er um 16 af hundraði allra þungana. [Hagtíðindi júlí 1986]
Á Spáni og á Írlandi, þar sem rómversk-kaþólsk trú er ríkjandi, eru fóstureyðingar ekki lögleyfðar. Samt tekst konum í þeim löndum í tugþúsundatali að fá eytt fóstri. Hvernig? Að sjálfsögðu starfa þar læknastofur, sem taka að sér ólöglegar fóstureyðingar, en fjöldi kvenna tekur einfaldlega þann kost að ferðast til lands, þar sem fóstureyðingar eru lögleyfðar, og England er þar efst á lista.
Að sjálfsögðu er ekki öllum þessum fóstrum eytt sökum þess að hætta sé á vansköpun, líkamlegri eða huglægri, eða af því að rekja megi þungunina til nauðgunar eða sifjaspells. Tölur frá Bretlandseyjum gefa til kynna að einungis tvö af hundraði fóstureyðinga séu af þeim orsökum. Hvers vegna eru þær þá svona margar? Fyrir því liggja tvær meginorsakir.
Meginorsakirnar
Til forna þurfti ekki að tempra fólksfjölgun. Ættflokkar og þjóðir fögnuðu því að fólki fjölgaði, og konur höfðu sjaldan ástæðu til að tempra barneignir. Fóstureyðing var yfirleitt ólögleg og kom til einungis ef um hafði verið að ræða hjúskaparbrot eða saurlifnað.
Víða eru það nú stjórnvöld sem beita sér fyrir fóstureyðingum. Með því móti má halda barnsfæðingum í skefjum þar sem hætta er á offjölgun.
Þótt slíkri hættu sé sjaldnast til að dreifa á Vesturlöndum fer fóstureyðingum þrátt fyrir það fjölgandi þar. Hvers vegna? „Ef við trúum á frelsi kvenna,“ segir talsmaður kirkjusamtaka í New Yorkborg sem beita sér fyrir frjálsum fóstureyðingum, „verðum við að trúa að konur hafi rétt til að taka sínar eigin ákvarðanir í siðferðismálum.“
En hefur barnshafandi kona óumdeilanlegan rétt til að láta eyða barninu sem hún ber undir belti? Er hægt að sætta sig við slíka lífsstefnu? Það er þungamiðja deilunnar um fóstureyðingar. Hvert er svarið við spurningunni?
Svarið veltur að miklu leyti á því hvernig hugtök eru skilgreind. Hvað er líf? Hvenær hefst það? Hefur ófætt barn einhver lagaleg réttindi?
Hvenær byrjar lífið?
Þegar hinir 23 litningar í sáðfrumu karlmanns sameinast jafnmörgum litningum í eggfrumu konu er til orðin ný lífvera, nýr maður. Allt frá því augnabliki, þegar getnaður á sér stað, er kynferði og önnur einkenni ráðin og verður ekki breytt. Eina breytingin, sem verður eftir það, er sú að fóstrið vex þá níu mánuði sem þungun stendur. „Það er líffræðileg staðreynd að sérhver maður var einu sinni aðeins ein fruma,“ segir dr. John C. Willke. Byrjar þá lífið á því augnabliki sem getnaður á sér stað? Margir eru þeirrar skoðunar. Þeir sem það gera geta ekki litið á fóstureyðingu sem annað en morð, óháð því hvenær á meðgöngutímanum hún á sér stað.
Aðrir halda því fram að ‚lífið hefjist um 20 vikum eftir getnað.‘ Hvers vegna halda þeir því fram? Vegna þess að það er um það leyti sem móðirinn byrjar að merkja hreyfingar fóstursins. Barn getur lifað ef það fæðist eftir tuttugustu viku, og yfirleitt eiga fóstureyðingar sér stað fyrir 24. viku meðgöngu þótt víða sé bundið í lögum að fóstureyðing þurfi að fara fram löngu fyrr. Er barnið þá fyrst lifandi í lagalegum skilningi þegar þeim meðgöngutíma er náð að landslög heimila ekki lengur fóstureyðingu?
Á Bretlandseyjum er ófætt barn ekki viðurkennt sem mannvera lögum samkvæmt. Við þær aðstæður er aldrei hægt að skilgreina fóstureyðingu lagalega sem morð. En strax og barnið er komið út úr líkama móður sinnar, jafnvel þótt ekki sé búið að rjúfa naflastrenginn, er það glæpsamlegt athæfi að drepa þetta sama barn. Þá hefur barnið öðlast lagaleg réttindi. Frá réttarfarslegu sjónarmiði hefst því lífið og lögbundin réttindi, sem því fylgja, fyrst við fæðingu.
Yfirrabbíninn á Bretlandseyjum segir þetta vera viðhorf Gyðinga: „Lífið hefst ekki fyrr en við fæðingu,“ segir hann og bætir við: „Við lítum ekki á eyðingu ófædds barns sem morð.“ En hvernig er þá litið á fóstrið, hið vaxandi barn í móðurkviði? Í bókinni Marital Relations, Birth Control and Abortion in Jewish Law segir David M. Feldman, rabbíni í New York: „Fóstrið er óþekkt, það er framtíð, möguleiki, hluti af ‚leyndardómum Guðs.‘“
Skoðanaágreiningur
Eftir þessu dæmi mætti ætla að trúarbrögðin geti sætt sig við fóstureyðingar. En ekki eru öll trúfélög sama sinnis. Lítum á sem dæmi opinbera afstöðu rómversk-kaþólsku kirkjunnar.
Árið 1869 ákvað Píus páfi IX að bannfæring skyldi liggja við því að eyða fóstri á hvaða tíma meðgöngu sem er. Árið 1951 ítrekaði Píus XII þessa reglu og sagði: „Sérhver mannvera, jafnvel barn í móðurkviði, fær lífsrétt sinn beint frá Guði, ekki foreldrum sínum.“ Í ræðu í Kenýa árið 1985 sagði Jóhannes Páll páfi II umbúðalaust: „Aðgerðir svo sem getnaðarvarnir og fóstureyðingar eru rangar.“
Margt kaþólskra manna heldur því hins vegar fram að slík afstaða sé úrelt og þarfnist endurskoðunar. Þar af leiðandi er kaþólska kirkjan tvískipt í þessu mái. Það er auðsætt af því sem á eftir fer.
Ógöngur rómversk-kaþólskra
Formaður nefndar amerískra biskupa til verndar lífi, Bernardin kardináli, staðhæfir að fóstureyðingar séu siðferðilega rangar og að opinber stefna kirkjunnar sé bindandi fyrir alla rómversk-kaþólska. Rómversk-kaþólskur prófessor í siðrænni guðfræði við Notre Dame-háskólann í Bandaríkjunum, James D. Burtchaell, sagði árið 1982: „Mín röksemd er einföld. Fóstureyðing er manndráp — barnsmorð.“ En fjórum árum síðar lagði presturinn Richard P. McBrien, forstöðumaður guðfræðideildar þessa sama háskóla, sig í framkróka til að leiða rök að því að fóstureyðing sé ekki skilgreind kennisetning kirkju hans.a Séð frá þeim sjónarhóli er ekki hægt að bannfæra kaþólska menn sem aðhyllast fóstureyðingar, jafnvel þótt líta megi á það sem sviksemi við trúna.
Sökum þessarar tvíræðu afstöðu kirkjunnar eru margir nafnkunnir kaþólskir menn eindregnir stuðningsmenn fóstureyðinga. Í þeirra hópi eru nokkrir bandarískir prestar, svo og allmargar nunnur sem sumar hverjar studdu umdeilda auglýsingu um fóstureyðingar í dagblaði og var hótað brottvísun úr trúarreglum sínum fyrir vikið.
Auk þess mynda nú kaþólskir leikmenn þrýstihóp til stuðnings fóstureyðingum. „Þorri venjulegra kaþólskra manna er sömu skoðunar og ég,“ staðhæfði frú Eleanor C. Smeal, formaður NOW, landssamtak kvenna í Bandaríkjunum, á fjöldafundi í Washington D.C. til stuðnings fóstureyðingum. Að sögn dagblaðsins The New York Times gerði hún samtímis gys að þeirri hugmynd að stuðningur hennar við frjálsar fóstureyðingar gæti orðið til þess að hún yrði bannfærð í rómversk-kaþólsku kirkjunni.
Kirkjan í Róm á sífellt erfiðara með að finna lausn á svona andstæðum sjónarmiðum meðal sinna manna.
Hættur samfara ólöglegum fóstureyðingum
Það er eitt að setja lög og gefa út tilskipanir um fóstureyðingar en allt annað að framfylgja þeim — jafnvel þótt viðkomandi yfirvaldi gangi gott eitt til. Þetta mál snertir fólk, mjög mikið og persónulega, og undir álagi er fólk oft óútreiknanlegt.
En yrði vandinn leystur ef þrýstihópi, sem beitir sér gegn fóstureyðingum, auðnaðist annaðhvort að koma í veg fyrir að löggjafarvald lögleiddi fóstureyðingar eða fengi hnekkt lögum í þá átt sem sett hafa verið? Ekki ef marka má orð Marilyn Waring sem á sæti í nýsjálenska þinginu og aðhyllist fóstureyðingar. „Kona finnur leið [til að láta eyða fóstri], og stundum kostar það hana lífið,“ sagði hún, „og það er ekkert sem stjórnmálamenn eða löggjöf getur gert til að stöðva hana.“ Og í þessum orðum eru fólgin sterk rök. ‚Hvort er heppilegra?‘ spyrja þeir sem aðhyllast fóstureyðingar.
Þar sem fóstureyðingar eru lögleyfðar eru þær gerðar undir ströngu eftirliti lækna, jafnvel þótt fáein dauðsföll eigi sér stað þeim samfara. Dánartíðnin samfara ólöglegum fóstureyðingum er hins vegar skelfilega há, því að þeir sem gera þær eru oft ólærðir og hreinlæti mjög ábótavant. Í Bangladesh er til dæmis ætlað að ár hvert deyi 12.000 konur af völdum ólöglegra fóstureyðinga.
En í öllu þessu er annar mannlegur þáttur sem gefa ber gaum. Hvað finnst læknum og hjúkrunarfræðingum um að eyða fóstrum nánast eins og á færibandi? Hvers konar áhrif hefur fóstureyðing á hina verðandi móður — og föður — líkamlega, hugarfarslega og tilfinningalega? Þetta eru spurningar sem fjallað verður um í greininni hér á eftir.
[Neðanmáls]
a „Skilgreind kennisetning“ er skoðuð sem óskeikul, eins og hún er birt af hálfu rómversk-kaþólsku kirkjunnar undir yfirvaldi páfa.
[Mynd á blaðsíðu 5]
‚Við verðum að trúa að konur hafi rétt til að taka eigin ákvarðanir í siðferðismáum,‘ segja margir.
[Rétthafi]
Ljósmynd: H. Armstrong Roberts
[Mynd á blaðsíðu 7]
Margar konur eru eindregið andvígar fóstureyðingum.
[Rétthafi]
Ljósmynd: H. Armstrong Roberts