Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.10. bls. 8-13
  • Fóstureyðing – hve dýru verði?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fóstureyðing – hve dýru verði?
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fóstureyðingar sem atvinna
  • Hver á að taka ákvörðun?
  • Eftirköstin
  • ‚Ég fór að skammast mín‘
  • „Þú ættir að láta eyða fóstrinu“
  • Ef barnið er vanskapað
  • Ákvörðunin
  • Fóstureyðing — ekki einföld lausn
    Vaknið! – 2009
  • Fóstureyðing – skiptar skoðanir
    Vaknið! – 1987
  • Fóstureyðing – hver hefur rétt fyrir sér?
    Vaknið! – 1987
  • Hvað segir Biblían um fóstureyðingar?
    Biblíuspurningar og svör
Vaknið! – 1987
g87 8.10. bls. 8-13

Fóstureyðing – hve dýru verði?

TVÆR hjúkrunarkonur í Glasgow fengu „hræðilegar martraðir“ og máttu þola margar andvökunætur að sögn dagblaðsins The Daily Telegraph. Þær höfðu tekið þátt í fóstureyðingaraðgerð sem gerð var á 24. viku meðgöngu. Gagnstætt því sem búist var við lifði drengurinn „skamma stund.“

Í Detroit í Bandaríkjunum var 29 vikna gömlu fóstri hent í stálfötu á fóstureyðingadeild sjúkrahúss. Menn héldu að það væri dáið vegna innspýtingar í leg móðurinnar. En barnið, sem var stúlka, lifði, grátur hennar heyrðist og hún var í skyndingu flutt í gjörgæslu.

Eftir því sem fóstureyðingar verða algengari fjölgar að sama skapi lífvænlegum fóstrum sem fjarlægð eru úr mæðrum sínum. Læknavísindunum hefur fleygt svo fram að 26 vikna fóstur, sem er að öðru leyti heilbrigt, á góða lífsmöguleika. Fyrir fáeinum árum hefði verið afarerfitt að halda lífinu í slíku barni. Af því leiðir að hjúkrunarfræðingar njóta í sumum löndum lagalegs réttar til að neita, samvisku sinnar vegna, að vinna við fóstureyðingar.

En hvað um læknana? Hver eru viðbrögð þeirra?

Fóstureyðingar sem atvinna

„Það er sama og dauðadómur að vera opinberlega þekktur fyrir að starfa við fóstureyðingar,“ sagði dr. Phillip Stubblefield í viðtali við tímaritið Newsweek. Almenningsálitið hefur meira að segja neytt fjölmarga lækna í Bandaríkjunum til að hætta algerlega að starfa við fóstureyðingar. Allmargar fóstureyðingastöðvar hafa eyðilagst í sprengjutilræðum, og „út um öll Bandaríkin eru læknastofur sem ekki geta fengið forstöðumenn til starfa, sökum þess að læknar óttast viðbrögð samfélagsins,“ sagði dr. Stubblefield.

En þrátt fyrir þetta fer fóstureyðingum fjölgandi. Og ein ástæðan er ekki sérlega vandfundin. Þetta er arðsöm atvinnugrein.

Í París greiddu hjón til dæmis jafnvirði 56.000 króna til að dóttir þeirra á unglingsaldri gæti látið eyða fóstri á einkastofu, að því er segir í frétt í læknatímaritinu Pulse. Í sömu frétt segir að sumar læknastofur í Lundúnum taki upp undir 110.000 krónur fyrir hverja fóstureyðingu.

Árið 1982 höfðu tvær stærstu fóstureyðingastöðvar á Bretlandseyjum samanlagt um 250 milljónir króna í tekjur. Tímaritið Human Concern segir um þessa fjárhæð: „Fóstureyðingar eru gróðavænleg starfsemi.“ Japönsk yfirvöld þráast við að leyfa notkun getnaðarvarnalyfja, „pillunnar.“ Lundúnarblaðið The Sunday Times segir: „Bannið stafar af þrýstingi lækna sem stórgræða á fóstureyðingum.“ Hvar sem litið er á fóstureyðingar í heiminum koma peningasjónarmið upp á yfirborðið.

Það er tæpast undrunarefni. Þegar foreldrar standa skyndilega frammi fyrir því að ógift dóttir á unglingsaldri er barnshafandi, eru margir fúsir til að greiða nánast hvað sem er til að leysa vandamálið, einkum ef hægt er að fá eytt fóstri áhættulaust, fljótt og í fyllsta trúnaði.

En hvað sem því líður eru margir læknar harla óánægðir með ástandið. Um þær mundir sem fóstureyðingar voru gefnar frjálsar á Bretlandseyjum hafði dagblaðið Daily Mail eftir prófessor Ian Morris: „Ef ég væri rétt að hefja starfsferil minn og vissi það sem ég veit núna um fóstureyðingar hefði ég aldrei valið mér kvensjúkdómafræði.“ Hann bætti við: „Ég hef viðbjóð á aðgerðinni. Hún er í algerri mótsögn við alla mína menntun. Markmið læknis er að bjarga mannslífum, ekki að fremja þessa sérstöku tegund manndráps.“ Þetta er sterkt að orði kveðið og ekki eru allir læknar þessu sammála. En orð hans gefa nokkra hugmynd um þann viðbjóð sem sumir læknar hafa ósjálfrátt á fóstureyðingum.

Hver á að taka ákvörðun?

Þegar kona stendur frammi fyrir því hvort hún eigi að láta eyða fóstri gefa fáir, jafnvel ekki einu sinni konan sjálf, því mikinn gaum hvað föðurnum finnst. Oft tekur konan ein ákvörðun um að láta eyða fóstri og sækir stuðning til náinna vina og ættingja. En „karlmenn finna líka fyrir sorg og söknuði,“ segir The New York Times, „og geta líka haft jafnblendnar tilfinningar og konur gagnvart því að eignast barn.“

Sumum feðrum þykir sem þeir ættu að hafa eitthvað að segja áður en móðirin ákveður að láta fjarlægja barn þeirra. „Menn vilja taka þátt í ákvörðuninni, ekki þvinga hana fram,“ segir þjóðfélagsfræðingurinn Arthur Shostak, að loknum tíu ára rannsóknum á þessu máli. Vissulega eru slíkar óskir ekki ósanngjarnar.

Eftirköstin

Áður en ákvörðun er tekin þarf að hafa hugfast að konan, ólíkt manninum, verður fyrir líkamlegu áfalli þegar skyndilega er bundinn endi á meðgönguna. Hvernig lýsir það sér?

Jafnvel þegar fóstri er eytt mjög snemma á meðgöngutímanum er algengt að konur finni fyrir þreytu og máttleysi. Krampi, ógleði og blæðingar eru líka algengar. Þegar fóstri er eytt seint á meðgöngutímanum geta einkennin varað upp undir viku eða jafnvel lengur meðan hormónastarfsemi líkamans er aftur að komast í jafnvægi. Brjóstin eru oft aum viðkomu og þunglyndi getur einnig sótt á konuna. Fóstureyðing getur verið sársaukafull reynsla, eins og konan ein veit, og ákvörðun um að láta eyða fóstri er sjaldan auðveld.

Öllu alvarlegri eru þó þau áhrif sem fóstureyðing getur haft á huga og tilfinningalíf konunnar. Hin líkamlegu eftirköst koma yfirleitt strax, og konan er undir þau búin, en hin huglægu og tilfinningalegu sár koma seinna fram og eru lengur að gróa — ef þau gera það nokkurn tíma. „Af og til þarf ég í starfi mínu að annast sjúklinga, sem hafa látið eyða fóstri, og ég veit að oft eru þeir haldnir miklum kvíða og áhyggjum mörgum árum eftir aðgerðina,“ segir einn af fréttariturum The Times í Lundúnum. Hve umfangsmikill er þessi vandi?

„Svo virðist sem þetta leynda vandamál sé stærra í sniðum en áður var haldið,“ segir The Sunday Times. Áhrif þunglyndis og truflunar á geðheilsu eru oft slík að „helmingur ógiftra kvenna, sem lætur eyða fóstri af félagslegum ástæðum, þarf síðar að leita hjálpar sálfræðings.“ Athuganir við Kings College-sjúkrahúsið í Lundúnum staðfesta það. Að sögn The Times leiða þær í ljós að „djúp sorg getur sótt á hjón sem ákveða að láta eyða fóstri,“ og að „erfitt getur verið að sigrast á henni.“

Japanir nota óvenjulega aðferð til að takast á við þetta mannlega vandamál. Farið er með litlar styttur úr plasti, gifsi eða steini, sem eiga að tákna barnsfóstur sem eytt hefur verið, í musteri. Þar eru þau færð Jizo til umsjár, en í Búddatrúnni er hann verndari barnanna. Þegar foreldrarnir síðan biðja guðdóminn fyrirgefningar geta þeir að einhverju leyti gefið sorgar-, sektar- og smánartilfinningu sinni útrás. En Japanir eru ekki þeir einu sem þurfa þess með. Lestu eftirfarandi frásagnir:

‚Ég fór að skammast mín‘

Þegar Elaine var 22 ára hafði hún látið eyða fóstri þrívegis. Hún segir svo frá: „Mér var sagt að það væri hvorki rangt né glæpsamlegt að láta eyða fóstri eftir aðeins sex vikna meðgöngu, því að barnið væri enn ómyndað. Það væri rangt aðeins ef það væri þriggja mánaða eða eldra. Eftir það, þegar ég heyrði fólk tala illa um ógiftar mæður, gladdist ég yfir að hafa látið eyða fóstri. Tveim árum síðar lét ég eyða fóstri tvívegis og varð sífellt ánægðari með að ég skyldi hafa fundið leið til að komast hjá að fæða börn í þennan heim.“

Skömmu eftir þetta hóf Elaine ljósmóðurnám. „Það var mjög ánægjulegt,“ segir hún, „að sjá barn fæðast og finna til þeirrar gleði sem slík fæðing veitir læknum, ljósmæðrum og foreldrum. En áður en langt um leið fór ég að skammast mín fyrir að hafa bundið enda á líf þriggja, saklausra einstaklinga, og ég þurfti að berjast gegn þeirri kvíðakennd og taugaóstyrk sem sótti á mig. Ég var sífellt að rifja upp fortíðina og hugsa um hve gömul börnin mín myndu nú vera, hvort þau hefðu verið drengir eða stúlkur og hvernig þau hefðu litið út. Þetta er hræðilegt ástand.“

Janet, sem nú er 39 ára og móðir, lýsir tilfinningum sínum að lokinni fóstureyðingu: „Eina leiðin til að halda út var sú að heilaþvo sjálfa mig og telja mér trú um að þetta hefði aldrei gerst. Ég taldi mér trú um það í mörg ár að ég hefði ekki getað gert þetta, og að þetta væri bara skelfileg martröð.“

Karen, sem er 19 ára, segir: „Ég gerði mitt besta til að láta eins og ekkert væri, en ég grét þegar ég sá ungbarn eða vanfæra konu. Ég var skelfilega niðurdregin. Síðan fóru brjóstin að framleiða mjólk eins og til að minna mig á þetta. Ég fékk slíkar martraðir að ég vaknaði grátandi við það að mér fannst ég heyra barnsgrát. Þetta gerði mig mjög beiska.“

Það er mikill misskilningur að líta á fóstureyðingu sem einfalda læknisaðgerð sem hægt sé að gera í þægindaskyni. Þegar skrefið er stigið verður ekki snúið við. Vandamál augnabliksins leysist kannski en eftirköstin geta verið víðtæk og langvinn eins og við höfum séð. En eru viðhorfin önnur ef læknir hvetur til fóstureyðingar?

„Þú ættir að láta eyða fóstrinu“

Þannig hljóðaði læknisráðið sem Sue fékk frá lækninum sínum. Ástæðan var sú að Sue átti tvö ung börn fyrir og annað þeirra fékk rauðu hundana um svipað leyti og hún uppgötvaði að hún var barnshafandi. „Það var óhjákvæmilegt að ég smitaðist líka, því ég hafði aldrei fengið rauðu hundana,“ segir hún. Eins og við var að búast veiktist hún skömmu síðar.

Reynslan hefur sýnt að fái kona rauðu hundana snemma á meðgöngutímanum getur barnið orðið vanskapað eða vanheilt. Það var þess vegna sem læknirinn hvatti hana til að láta eyða fóstri. „Hann sagði mé berum orðum að barnið yrði vanskapað og að það yrði mér illbærilegt. Á læknastofunni heimtaði hann að ég undirritaði yfirlýsingu, þess efnis að ég tæki á mig alla ábyrgð og hann væri laus mála, ef ég færi ekki að ráðum hans.“ Sue undirritaði. „Til að vera sanngjörn verð ég að segja honum til varnar að hann hafði verulegar áhyggjur af mér, einkum af því að ég er flogaveik,“ bætir hún við.

Þótt eiginmaður hennar hefði eðlilega þungar áhyggjur líka lét hann henni eftir að taka ákvörðun, og hún kaus að fæða barn sitt. Í fyllingu tímans fæddi hún dóttur. Barnið var rannsakað þegar í stað en reyndist fullkomlega heilbrigt, ef undan er skilið að það var heldur blóðlítið. Það kom læknum hins vegar á óvart að finnast skyldi mótefni í blóði barnsins sem móðirin ekki hafði, en það gaf til kynna að rauðu hundarnir hefðu einnig örugglega ráðist á barnið.

Ef barnið er vanskapað

Jafnvel þótt vel hafi farið í þessu tilfelli er það eigi að síður staðreynd að mörg börn fæðast vansköpuð og þarfnast sérstakrar umönnunar. Það er auðvelt að segja að það sé mannúðlegt að koma í veg fyrir að bækluð börn komi í heiminn, en hver getur dæmt um lífsgæði annars einstaklings? Er ekki að finna misjafnlega hreyfihamlað fólk í sérhverju samfélagi sem nýtur þess að vera til í þeim mæli sem það getur, og leggur sitt af mörkum til að gleðja aðra?a

Sue leit málið frá þessum sjónarhóli en hún fékk líka styrk annars staðar frá — frá trú sinni. Þegar læknirinn sagði henni fyrst að barnið hennar yrði vanskapað sagði hún honum að jafnvel þótt svo væri, vissi hún að hún gæti reitt sig á hjálp Guðs til að ráða við vandann. Auk þess hefði hún engan rétt til að ræna fatlað barn hinni „stórkostlegu von um lækningu allra líkamlegra meina í nýrri skipan Guðs“ undir stjórn Guðsríkis. (Opinberunarbókin 21:1-4) Slík trú hefur mikil laun í för með sér.

Ákvörðunin

„Á ég að ala barnið eða láta eyða því?“ Hver verður ákvörðunin þegar á hólminn kemur?

Sue hugsaði sem svo: „Barnið mitt bað ekki um að fá að verða til. Hvaða rétt hafði ég til að slökkva líf þess áður en það hafði tækifæri til að sjá lífið?“

Spurning hennar er einföld. Hvernig myndir þú svara henni?

[Neðanmáls]

a Í enskri útgáfu Vaknið! þann 8. febrúar 1986 var fjallað um umönnum barns með Downs-syndróm (mongólisma).

[Rammagrein á blaðsíðu 9]

Hollusta við svarinn eið?

Genfaryfirlýsingin var samþykkt á allsherjarþingi Alþjóðafélags lækna í Genf í september árið 1948. Það er byggt á hinum forna Hippókratesareiði. Hér fer á eftir glefsa úr þessum eiði:

„Nú, er ég segist í lög lækna, festi ég svofellt heit: Ég skuldbind mig hátíðlega til að helga líf mitt þjónustu við mannkynið. . . . Ég heiti því að stunda lækningar af samviskusemi og gæta læknisvirðingar minnar í hvívetna. . . . Ég heiti því að virða mannslíf öllu framar, allt frá getnaði þess, enda láta ekki kúgast til að beita læknisþekkingu minni gegn hugsjónum mannúðar og mannhelgi.“

Hvaða skilning leggja læknar í slíkan eið? Hér fara á eftir tvær andstæðar skoðanir. Hverja myndir þú aðhyllast?

I. M. læknir

„Ég get aldrei litið svo á vefina, sem ég hef fjarlægt við fóstureyðingaraðgerð, að mig hrylli ekki við. Þeir líta kannski út eins og hlaup, en þeir eru samt sem áður mannslíf sem ég er að þurrka út.“

V. A. læknir

„Það er aldrei rangt að eyða fóstri. Svo lengi sem einstaklingurinn er algerlega háður móður sinni er hann ekki persóna.“

[Rammagrein á blaðsíðu 11]

Aðferðir til að eyða fóstri

Sú hætta, sem móðirin stofnar sér í þegar hún lætur eyða fóstri, er í beinu hlutfalli við aldur fóstursins. Þessa hættu má ekki vanmeta.

Þegar eytt er innan við tólf vikna gömlu fóstri er það venjulega sogað út með sogdælu. Það er yfirleitt gert á læknastofu og tekur skamma stund. Sé fóstrið frá 12 til 24 vikna er það yfirleitt limað í sundur áður en það er dregið út úr leginu, eða þá að fósturlát er framkallað. Vanalega fylgir aðgerðinni stutt lega á sjúkrahúsi. Sé fóstrið orðið eldra en 24 vikna er legskurður oft eina leiðin.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Svo er læknavísindunum að þakka að nú er hægt að halda lífinu í börnum sem fæðast löngu fyrir tímann.

[Rétthafi]

Ljósmynd: Justitz/Zefa/H. Armstrong Roberts

[Mynd á blaðsíðu 10]

Fæstir gefa tilfinningum barnsföðurins mikinn gaum.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Tilfinningaleg og huglæg eftirköst fóstureyðingar geta verið mjög alvarleg.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila