Barist við vægðarlausan óvin
„ÞETTA var erfiðasta raun lífs míns,“ sagði Elísabet. „Það er dásamlegt að vera aftur á réttum kili. Mér finnst ég hafa fengið tækifæri til nýs og betra lífs. Nú get ég fundið rósailminn!“ Þessi 42 ára kona hafði sigrast á óvini sem sagður er valda meiri þjáningum en nokkur annar geðrænn kvilli — þunglyndi.
Alexander var ekki jafnfarsæll. Hann var 33 ára þegar hann varð mjög þunglyndur, missti matarlystina og vildi helst vera einn. „Honum fannst eins og heimurinn væri búinn að vera og að ekkert væri þess virði að lifa fyrir það framar,“ segir Ester, kona hans. „Honum fannst hann einskis virði.“ Alexander var sannfærður um að hann myndi aldrei líta glaðan dag framar og svipti sig lífi.
Elísabet og Alexander voru í hópi þeirra 100 milljón einstaklinga sem talið er að verði ár hvert fórnarlömb þunglyndis sem kallar á læknismeðferð. Fjórði hver Bandaríkjamaður og fimmti hver Kanadamaður þjást af alvarlegu þunglyndi einhvern tíma á ævinni. Þunglyndi er einnig sagt vera algengt í Afríku og vaxandi vandamál víða í Evrópu. Því eru líkur á að þú eigir vin eða ættingja sem annaðhvort er eða hefur verið fórnarlamb þessa óvinar.
Eiginkona Alexanders gerði allt sem hún gat til að hjálpa manni sínum. Hún aðvarar: „Taktu það alvarlega þegar einhver fer að tala um að hann sé niðurdreginn og finnist hann einskis virði.“ Alvarlegt þunglyndi er miklu meira en stundlegur dapurleiki eða þungt skap. Það er óvinur sem getur lamað, limlest og drepið. Því er mikilvægt að geta borið kennsl á alvarlegt þunglyndi — það getur skipt sköpum um líf eða dauða.
„Plága í heilanum“
Við verðum öll fyrir tjóni, missi og vonbrigðum sem veldur okkur sársauka. Hryggð og depurð eru eðlileg, mannleg viðbrögð. Menn ‚loka sig inni‘ tilfinningalega, sleikja sár sín og byrja svo smám saman að horfast í augu við veruleikann og breyttar aðstæður. Þeir vonast til að morgundagurinn verði betri en dagurinn í dag og taka fljótlega aftur gleði sína. Öðru máli gegnir um þá sem þjást af alvarlegu þunglyndi.
„Í átta mánuði gat hvorki innkaupaferð né nokkuð annað létt lund mína,“ sagði Elísabet. Carol, sem einnig hefur þjást af þunglyndi, bætir við: „Þetta var eins og plága í heilanum, eins og hræðilegt óveðursský sem hékk yfir mér. Þótt ég hefði fengið milljónir í hendur hefði það ekki rekið burt þessar hræðilegu tilfinningar.“ Maður einn sagði að ‚mönnum liði eins og þeir hefðu sett upp reyklituð gleraugu — allt er dimmt og óaðlaðandi. Þar að auki stækka gleraugun þannig að sérhvert vandamál virðist yfirþyrmandi.‘
Þunglyndi spannar stórt svið tilfinninga allt frá hryggð og dapurleika til vonleysiskenndar og sjálfsmorðshugleiðinga. (Sjá rammann á bls. 4.) Þegar ganga skal úr skugga um hvort um sé að ræða alvarlegt þunglyndi, eða aðeins tímabundinn dapurleika, þarf að skoða meðal annars fjölda einkennanna, afl þeirra og hversu lengi þau standa.
Greining er ekki alltaf auðveld
Mjög erfitt getur verið að greina þunglyndi af þeim sökum að sjúklingurinn getur líka sýnt ýmis líkamleg sjúkdómseinkenni. „Mig verkjaði í fótleggina, og stundum um allan líkamann. Ég fór til fjölda lækna,“ segir Elísabet. „Ég var sannfærð um að þeim yfirsæist einhver líkamlegur sjúkdómur og að ég væri dauðans matur.“ Um helmingur þeirra, sem leita læknis og þjást af þunglyndi, kvartar undan líkamlegum en ekki tilfinningalegum einkennum, rétt eins og Elísabet.
„Oftast nefna menn höfuðverk, svefnleysi, langvarandi lystarleysi, hægðatregðu eða sífellda þreytu,“ segir dr. Samuel Guze, forstöðumaður geðlækningadeildar Washington University í St. Louis í Bandaríkjunum, „en þeir minnast ekki orði á depurð, vonleysi eða kjarkleysi. . . . Sumir þunglyndissjúklingar virðast ekki gera sér grein fyrir þunglyndi sínu.“ Stöðugir verkir, þyngdartap eða þyngdaraukning og skert kynhvöt eru líka dæmigerð einkenni.
Dr. E. B. L. Ovuka við Umzimkulu-sjúkrahúsið í Transkei í Suður-Afríku skýrir frá því að Afríkubúar, sem þjást af þunglyndi, minnist sjaldan á sektarkennd eða það að þeim finnist þeir einskis virði, heldur kvarti þeir um ofstarf, verki og tilhneigingu til að draga sig út úr raunveruleikanum. Skýrsla, gefin út árið 1983 af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, bendir á að yfirgnæfandi meirihluti þunglyndissjúklinga, sem rannsakaðir hafa verið í Sviss, Íran, Kanada og Japan, sýndu allir sömu megineinkenni: dapurleika, kvíða, þrekleysi og þá tilfinningu að þeir væru einskis virði.
Sumir reyna að fela þunglyndi sitt með neyslu áfengis og fíkniefna, eða þá með lauslæti. En „jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til.“ (Orðskviðirnir 14:13) Það á sérstaklega við um börn og unglinga. „Það er hægt að sjá á fullorðnum ef þeir eru þunglyndir, en það sést ekki á þunglyndu barni,“ segir dr. Donald McKnew við bandarísku geðheilbrigðisstofnunina í viðtali við Vaknið! „Þess vegna var þunglyndi meðal barna svo lengi óþekkt. Ef hins vegar er talað við börnin um þetta segja þau hug sinn allan.“
Á þessum áratug hafa orðið verulegar framfarir í skilningi manna og meðferð á þunglyndi. Læknavísindin hafa fengið nokkra innsýn í efnastarfsemi heilans. Ýmsar rannsóknir og próf hafa verið fundin upp til að bera kennsl á mismunandi tegundir þunglyndis. Baráttunni hefur verið fylgt eftir með þunglyndislyfjum og næringarefnum svo sem ákveðnum amínósýrum. Samtalsmeðferð yfir stutt tímabil hefur einnig verið notuð með góðum árangri. Að sögn vísindamanna við bandarísku geðheilbrigðisstofnunina er hægt með réttri meðferð að hjálpa á bilinu 80 til 90 af hundraði allra þunglyndissjúklinga.
En hverjar eru orsakir þessa lamandi sjúkleika?
[Tafla á blaðsíðu 4]
Ásýnd þunglyndis
Venjuleg geðlægð Alvarlegt þunglyndi
Hugarástand
Depurð, venjuleg hryggð Yfirþyrmandi vonleysi
Sjálfsmeðaumkun, kjarkleysi Telur sig einskis virði
Sjálfsásökun og sektarkennd Niðurdrepandi sektarkennd og
sjálfsásökun
Getur fundið til einhverrar gleði Ekkert gleður, er orðið
sama um allt
Hugsanir
Samviskubit eða eftirsjá Sjálfsmorðshugsanir
Erfitt að einbeita sér
Tímalengd
Stendur stutt (fáeina daga) Stendur lengi (hálfan mánuð eða lengur)
Líkamleg einkenni
Eðlileg starfsemi Stöðug þreyta; óskiljanlegir
verkir
Smávægileg óþægindi Breyttar matar- og svefnvenjur
(tímabundin) Eirðarlaus, gengur um gólf,
nýr hendurnar
Talar og hreyfir sig hægt