Trúarlegar ógöngur í Suður-Afríku
Eftir fréttaritara Vaknið! í Suður-Afríku
SUÐUR-AFRÍKUMENN eru framúrskarandi trúræknir. Kirkjusókn er mikil. Biblían er fáanleg á öllum helstu tungumálum Suður-Afríku og lesin á fjölmörgum heimilum. Þó er landið orðið vettvangur kynþáttadeilna og ofbeldis. Þér kann að vera spurn hvers vegna kirkjufélögunum hafi mistekist að hlynna að kristnum kærleika og einingu.
Ef litið er yfir sögu Suður-Afríku frá því um miðju síðustu öld kemur berlega í ljós að trúarbrögðin bera í rauninni verulega ábyrgð á þeim átökum sem nú eru þar í landi. Til að skilja hvers vegna skulum við skoða í stuttu máli hvernig trúarlegar aðstæður Suður-Afríku þróuðust.
Árið 1652 stofnuðu hollenskir mótmælendur fyrstu varanlegu nýlenduna á suðurodda Afríku. Afkomendur þeirra tala nú á dögum afríkaans, tungumál sem þróaðist af hollensku. Með tíð og tíma klofnaði hollenska kirkjan í fjölmargar siðbótarkirkjur en sú stærsta er nefnd hollenska siðbótarkirkjan (Nederduitse Gereformeerde Kerk). Yfir þriðjungur hvítra íbúa Suður-Afríku tilheyrir hollensku siðbótarkirkjunni.
Enskir landnemar streymdu einnig til Suður-Afríku. Margir voru anglíkanar sem síðar klofnuðu í hina svonefndu hákirkju og lágkirkju. Þá voru í þeirra hópi meþódistar, öldungakirkjumenn og safnaðarkirkjumenn. Með þýskum landnemum kom lúterska kirkjan. Suður-Afríka varð þannig eitt höfuðvígi mótmælendatrúarinnar og milljónir svartra manna snerust til fylgis við hana. Núna kalla 77 af hundraði Suður-Afríkumanna sig kristna og þar af eru innan við 10 af hundraði kaþólskir.
En suður-afrísk mótmælendatrú heldur áfram að klofna í smærri hópa. Fjölmargt hvítra manna hefur yfirgefið stóru kirkjudeildirnar og gengið til liðs við endurfæðingarhreyfingar. Á líkan hátt hefur fjölmargt svartra manna búið til sína eigin afrísku útgáfu svonefndrar kristinnar trúar. Tímaritið Leadership segir að það ‚kunni að vera allt að 4000 slíkar sjálfstæðar kirkjudeildir í Suður-Afríku einni.‘
Hinar hefðbundnu mótmælendakirkjur standa frammi fyrir öðrum vanda. Um leið og fækkar í hjörðinni fer fjárstuðningur þverrandi. Ekki bætir það úr skák að þeir sem eru áfram fylgispakir kirkju sinni eru mjög á öndverðum meiði varðandi afskipti kirkjunnar af róttækum deilumálum. Sumir krefjast þess að kirkjan styðji róttækar aðgerðir til að binda enda á aðskilnaðarstefnuna en aðrir heimta að kirkjan leggi blessun sína yfir hana. Á milli þessara tveggja öfga eru kirkjumeðlimir mjög ósammála um það í hvaða mæli kirkjan þeirra eigi að berjast fyrir jafnrétti og afnámi kynþáttaaðskilnaðar.
„Mér mislíkar það að láta segja mér að ég verði að fara og haldast í hendur við fólk sem ég þekki ekki og þykjast finna til bróðurkærleika til fólks sem er ekki minnar tegundar,“ sagði anglíkani um guðsþjónustu er halda átti fyrir ólíka kynþætti. Mörgum hvítum anglíkönum mislíkar einnig stórlega pólitísk afskipti hins svarta erkibiskups kirkjunnar, Desmonds Tutus.
Skýrsla gefin út af rannsóknaráði Suður-Afríku í mannvísindum tók þannig fram að kirkjufélögin „hafi oft sundrandi og skaðleg áhrif“ og varaði við þeirri „fráleitu stöðu að fylgjendur sömu trúarhefðar eigi eftir að bjóða hver öðrum birginn úr andstæðum herbúðum.“ Eins og við munum sjá hafa mótmælendakirkjurnar í Suður-Afríku átt verulegan þátt í að kveikja fjandskap milli kynþáttanna.