Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.10. bls. 24-26
  • Sönn kristni sameinar alla kynþætti!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sönn kristni sameinar alla kynþætti!
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Boðskapurinn um Guðsríki
  • Trúarlegar ógöngur í Suður-Afríku
    Vaknið! – 1988
  • Framsókn blökkumannaguðfræði
    Vaknið! – 1988
  • Þegar allir kynþættir búa saman í friði
    Vaknið! – 1994
  • Mótmælendatrúin og aðskilnaðarstefnan
    Vaknið! – 1988
Vaknið! – 1988
g88 8.10. bls. 24-26

Sönn kristni sameinar alla kynþætti!

ÁRIÐ 1982 var svartur Suður-Afríkumaður að nafni Mnguni að afplána fjórða fangelsisdóminn fyrir þátttöku í hryðjuverkastarfsemi. Yfirvöld höfðu veitt honum leyfi til að skrifa heim og biðja um að honum yrðu sendar einhverjar bækur. Þegar bækurnar komu fann hann á meðal þeirra eina sem hann hafði ekki beðið um. Hún hét Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs og var gefin út af vottum Jehóva.

Það sem Mnguni las hafði sterk áhrif á hann. „Ég hafði verið þeirrar trúar að hryðjuverkastarfsemi mín þjónaði guðlegum málstað. ‚Guð er með hinum kúguðu,‘ var eitt af slagorðum okkar. Ég var lúterstrúarmaður og kirkjan mín hafði ekki í eitt einasta skipti fordæmt verk mín né hvatt mig til að láta af þeim. Þess í stað réðst hún á stjórnvöld vegna aðgerða þeirra gegn mér. Kirkjusamtök hjálpuðu mér og félögum mínum meira að segja einu sinni að fá lögfræðing til að tala máli okkar.

‚Sannleiksbókin‘ gerði mér ljóst að verk mín brytu í bága við orð Guðs. Hún notaði Biblíuna til að sýna fram á að engin stjórnvöld eru til öðruvísi en að Guð leyfi það og að allir sannkristnir menn ættu að lúta yfirvöldum.“ (Matteus 5:44; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12; Rómverjabréfið 13:1-7) Mnguni hætti þátttöku sinni í hryðjuverkastarfsemi og tók að þjóna sem einn af vottum Jehóva eftir að honum var sleppt úr fangelsi.

Tugþúsundir Suður-Afríkumanna — svartir og hvítir — hafa tekið við hinni sönnu kristni sem er byggð á Biblíunni. Sönn kristni sameinar fólk af öllum kynþáttum, ólíkt mótmælendatrúnni sem hefur reynst vera sundrungarafl. Hvernig?

Boðskapurinn um Guðsríki

„Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ sagði Jesús Kristur. (Jóhannes 18:36) Ríki Guðs er kjarni sannkristinnar trúar. Það tengist engu af stjórnmálaöflum þessa heims því að það er ofurmannleg stjórn sem ríkir af himnum ofan. Að sögn Biblíunnar mun það bráðlega „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki,“ hin jarðnesku, pólitísku ríki. — Daníel 2:44; Lúkas 21:7-33.

Þetta ríki er ekki, eins og einn talsmaður blökkumannaguðfræði lét nýverið liggja að, draumórar einir. Að Guðsríki er raunverulegt sést af því að yfir 3.400.000 vottar Jehóva um allan heim — yfir 40.000 í Suður-Afríku — hafa lýst sig drottinholla þegna þess. Þeir sýna hollustu sína með því að framfylgja boði Jesú: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

Boðskapurinn um Guðsríki, sem vottar Jehóva boða, hefur höfðað til þúsunda Suður-Afríkumanna. Hann hefur hjálpað þeim að hefja sig upp yfir kynþátta- og stjórnmálaátök landsins og njóta nokkurs sem er einstakt í Suður-Afríku — einingar ólíkra kynþátta. Gert, sem áður tilheyrði hollensku siðbótarkirkjunni, komst að raun um það. Hann segir svo frá: „Meðal votta Jehóva er engan mismun að finna vegna kynþáttar eða tungumáls — þess vegna ríkir með þeim eining um allan heim. Það er stórkostlegt að vita að ‚Guð fer ekki í manngreinarálit heldur tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.‘“ — Postulasagan 10:34, 35.

Nýlega féllst Suður-Afríkustjórn á að slaka á öðrum aðskilnaðarlögum með því að opna sum íbúðahverfi fólki af öllum kynþáttum. Núgildandi lög kveða á um að fólk af ólíkum kynþáttum búi hvert í sínu hverfi og vottar Jehóva hlýða þeim. En lögin koma ekki í veg fyrir að þeir geti unnið saman og gert hver öðrum gott. Því leggja vottar af ólíkum kynþáttum tíma sinn og efni örlátlega í að byggja tilbeiðsluhús handa söfnuðum sínum en þau eru nefnd Ríkissalir.

Síðastliðin sex ár hafa þúsundir votta, svartir og hvítir, einnig boðið fram vinnu sína við byggingu stórrar, nýrrar prentsmiðju í útjaðri Krugersdorp í Suður-Afríku. Eftir að hafa neytt hádegisverðar með litríkum hópi sjálfboðaliða af ýmsum kynþáttum sagði framkvæmdastjóri fyrirtækis sem setti upp sérhæfðan búnað þar: „Það ætti að láta Sameinuðu þjóðirnar sjá hvernig farið er að þessu.“ Hundruðir votta nota nú þessar byggingar í tengslum við þýðingu og útgáfu biblíurita.

Vottar Jehóva í Suður-Afríku koma líka saman á stórmótum til tilbeiðslu. Það er einstakt að sjá Suður-Afríkumenn sem tala zúlú, xhósa, sóþó, afríkönsku og ensku eða önnur tungumál, streyma til hins eina, sameinaða skipulags — það er stórfengleg sönnun þess að kristnin sé fjarri því að vera útdauð í Suður-Afríku! (Jóhannes 13:35; 17:23) Það er eitt af sönnunargögnunum fyrir því að við lifum þá tíma sem Biblían kallar ‚hina síðustu daga.‘ — Jesaja 2:2-4.

Við tilheyrum einstakri kynslóð sem mun bráðlega fá að sjá enda bundinn á alla baráttu og átök. Hvað mun fylgja í kjölfarið? Jarðnesk paradís þar sem réttlátir menn af öllum þjóðernum munu vera þegnar einnar stjórnar — Guðsríkis. — Sálmur 37:10, 11; Opinberunarbókin 7:9, 14.

[Myndir á blaðsíðu 25]

Í Suður-Afríku koma vottar Jehóva af öllum kynþáttum saman á fjölmennum mótum.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Eining kynþáttanna meðal votta Jehóva í Suður-Afríku gerir boðskapinn um Guðsríki aðlaðandi fyrir marga.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila