Mótmælendatrúin og aðskilnaðarstefnan
Í GREIN í South African Digest sagði frá því að hollenska siðbótarkirkjan hefði lýst „hús, guðsþjónustur og félagsaðild öllum opna, óháð kynþætti og litarhætti.“
Um áratuga skeið hefur hollenska siðbótarkirkjan verið fylgjandi algerum aðskilnaði kynþáttanna. Hvað kom til að þessi stefnubreyting var samþykkt á þingi kirkjuleiðtoga í október árið 1986?
Kannski kemur það mörgum á óvart að heyra að á síðustu öld tilheyrðu hvítir, svartir þrælar og fólk af blönduðu evrópsku og afrísku ætterni allir einni og sömu hollensku siðbótarkirkjunni. Árið 1857 lét kirkjuþing hins vegar undan vaxandi kynþáttafjandskap og sagði að halda mætti guðsþjónustur fyrir fólk af blönduðum kynþáttum í aðskildum kirkjubyggingum. Þingið játaði að Biblían hvetti ekki til slíkrar ákvörðunar en hún var sögð tekin „vegna veikleika sumra.“ Þetta leiddi til þess að árið 1881 var stofnsett sérstök deild innan kirkjunnar handa fólki af blönduðum kynþáttum og var hún nefnd Nederduitse Gereformeerde Sendingkerk, trúboðsdeild hollensku siðbótarkirkjunnar.
Þessir kirkjuleiðtogar gerðu sér litla grein fyrir hverju þeir höfðu hleypt af stað. Innan skamms voru einnig stofnsettir sérsöfnuðir fyrir svarta og Indverja. Aðeins hvítum var heimill aðgangur að mörgum kirkjubyggingum. Þar sem áður hafði verið skoðaður sem „veikleiki“ varð brátt að stefnumáli sem fylgt var fast eftir. Svörtum var stundum vísað frá jarðarför hvítra vinnuveitenda sinna. Svörtum kirkjumeðlimum gramdist slík auðmýking stórlega.
‚Aðskilnaðarstefnan er stefnumál kirkjunnar‘
Árið 1937 fór sambandsráð hollensku siðbótarkirknanna þess á leit við stjórnvöld að þau settu lög er bönnuðu hvítum að stofna til hjúskapar við fólk af blönduðum kynþætti. Stjórnvöld synjuðu. Árið 1939 endurtók sambandsráðið beiðni sína og fór þess jafnframt á leit að hvítum yrðu afmörkuð sérstök íbúðarsvæði, skólar og háskólar. Allmargar sendinefndir presta gengu á fund stjórnvalda vegna þessa máls. Árið 1942 sagði sambandsráð trúboðsdeilda hollensku siðbótarkirknanna í bréfi til stjórnvalda: „Kirkjan vill sjá þessari reglu um aðskilnað kynþáttanna fylgt stranglega eftir í framtíðinni.“
Í kosningum árið 1948 komst þjóðarflokkur hvítra manna til valda og hét því að vinna að löggjöf um aðskilnað kynþáttanna. Ný aðskilnaðarlög voru sett skömmu síðar. Eftir kosningarnar sagði Die Kerkbode, opinbert tímarit hollensku siðbótarkirkjunnar, með stolti: „Sem kirkja höfum við . . . alltaf stefnt markvisst að aðskilnaði þessara tveggja hópa landsmanna. Að því leyti má með réttu kalla aðskilnaðarstefnuna stefnumál kirkjunnar.“
Biblíukenning?
Fram að þeim tíma hafði kirkjan aðallega höfðað til hefðar er hún sóttist eftir aðskilnaði kynþáttanna. Árið 1948 viðurkenndi kirkjuþingið í Transvaal jafnvel að það hefði ekki „vísvitandi haldið því fram að vera bundið af meginreglum Biblíunnar.“ Nýju viðhorfi jókst þó fljótlega fylgi — því að setja aðskilnaðarstefnuna fram sem kenningu Biblíunnar.
Árið 1974 gaf almennt kirkjuþing hollnesku siðbótarkirkjunnar út skýrslu er bar yfirskriftina Ras, Volk en Nasie en Volkereverhoudinge in die lig van die Skrif (Mannleg samskipti og suður-afrískur vettvangur í ljósi Ritningarinnar). „Í [henni] birtist klassísk skýring á aðskilnaðarstefnunni,“ segir dr. Johann Kinghorn, ritstjóri bókarinnar Die NG Kerk en Apartheid (Hollenska siðbótarkirkjan og aðskilnaðarstefnan). Skýrslan fjallaði í löngu máli um frásöguna af sundrun mannkyns í Babel. Síðan sagði: „Hægt er að réttlæta út af Biblíunni stjórnmálakerfi byggt á . . . aðskilinni mótun ýmissa íbúahópa.“ Skýrslan lét einnig nokkur orð falla um bæn Jesú þess efnis að fylgjendur hans yrðu „fullkomlega eitt.“ (Jóhannes 17:23) Skýrslan hélt því fram að slík eining „þyrfti ekki að birtast innan einnar stofnunar.“
‚Trúnaðarbrestur‘
Mótmælendastefnan í Suður-Afríku hefur sætt mikilli gagnrýni. Árið 1982 kom Heimsbandalag siðbótarkirkna saman í Ottawa í Kanada og lýsti aðskilnaðarguðfræðina „villutrú.“ Hollensku siðbótarkirkjunni í Suður-Afríku var vikið úr bandalaginu. Enn fremur hefur Suður-Afríkustjórn sjálf beitt kirkjurnar þrýstingi með því að fella úr gildi sum lög aðskilnaðarstefnunnar, þeirra á meðal þau er bönnuðu svonefnd blönduð hjónabönd.
Hver hafa viðbrögð kirknanna orðið? Sumir af prestum hollensku siðbótarkirkjunnar hafa einnig gagnrýnt aðskilnaðarstefnuna opinskátt. Í bókinni Apartheid Is a Heresy (Aðskilnaðarstefnan er villutrú) segir einn af guðfræðingum kirkjunnar, prófessor David Bosch: „Afrísku siðbótarkirkjurnar þurfa einungis að líta til uppruna síns til að komast að raun um að það sem þær láta sér mjög annt um núna er ekkert annað en villutrú.“
En hvaða áhrif hefur slíkt undanhald haft á kirkjumeðlimi? Guðfræðingurinn Bernard Combrink, prófessor við hollensku siðbótarkirkjuna, segir: „Sumir hika ekki við að tala um trúnaðarbrest innan kirkjunnar í ljósi þess að ákveðnu viðhorfi eða stefnumáli hefur um langt árabil verið haldið fram sem biblíulegu, og núna er ‚skyndilega‘ farið að halda því fram að önnur sjónarmið séu í samræmi við Ritninguna.“
‚Trúnaðarbresturinn‘ innan hollensku siðbótarkirkjunnar náði svo sannarlega hámarki í október árið 1986 þegar almennt kirkjuþing samþykkti yfirlýsingu um aðskilnaðarstefnuna sem sagði meðal annars: „Sú sannfæring hefur gerst sterkari að ekki sé hægt að álíta þvingaðan aðskilnað kynþátta og aðgreiningu þjóðarhópa fyrirmæli Biblíunnar. Viðurkenna ber að tilraunin til að réttlæta slík fyrirmæli út frá Biblíunni hafi verið röng og beri að vísa henni á bug.“
Viðbrögð hvítra manna við þessari kúvendingu í afstöðu til aðskilnaðarguðfræðinnar hafa verið misjöfn. Mörgum finnst sem kirkjan hafi ekki gengið nógu langt þar eð hún er ekki fús til að sameinast siðbótarkirkjum svartra manna sem ein heild. Öðrum finnst á hinn bóginn að kirkjan hafi gengið of langt og neita henni þar af leiðandi um fjárstuðning. Þann 27. júní 1987 komu 2000 andófsmenn innan hollensku siðbótarkirkjunnar saman til fundar í Pretoríu. Með atkvæðum meirihluta var samþykkt að stofna nýja kirkju ætlaða hvítum mönnum einum og var hún nefnd Afrikaanse Protestante Kerk (Afríkanska mótmælendakirkjan).
Meðan mótmælendatrú af hollenskum uppruna tók forystuna í að gera aðskilnaðarstefnuna að veruleika hafa enskumælandi kirkjur í Suður-Afríku opinberlega fordæmt þessa umdeildu stefnu. Þó viðurkenna tveir hvítir prestar, annar hjá meþódista- og hinn hjá safnaðarkirkjunni, að lífið í enskumælandi kirkjum ‚endurspegli enn kynþáttasundrung og mismunun er sé stundum jafnstefnuföst og áköf og í afrískumælandi siðbótarkirkjum.‘ — Apartheid Is a Heresy.
Hver hafa verið viðbrögð svartra kirkjumeðlima? Á meðan hvítir guðfræðingar hafa deilt hart um aðskilnaðarstefnuna hafa kunnir svartir guðfræðingar verið að móta ýmis sérviðhorf.
[Rammi á blaðsíðu 22]
Kaþólskir eru líka sundraðir
Í september 1986 samþykkti fundur kaþólskra presta í Suður-Afríku yfirlýsingu þar sem hvatt var til að bundinn yrði endi á aðskilnaðarstefnuna. Dagblaðið The Cape Times segir: „Rómversk-kaþólskir prestar um land allt hafa formlega veitt þingi kaþólskra biskupa í Suður-Afríku stuðning sinn í þeirri afstöðu að Suður-Afríka skuli beitt efnahagsþvingunum.“
Þegar slík viðhorf voru viðruð fyrr á árinu við messur í Jóhannesarborg gekk hins vegar fjölmargt kaþólskra manna út úr kirkjunni. Þegar maður einn gekk út með fjölskyldu sinni hrópaði hann mótmæli til prestsins við lófatak flestra í söfnuðinum. Það er táknrænt að fjölmargt kaþólskra manna í Suður-Afríku skuli hafa stofnað samtök er beita sér gegn stjórnmálaafskiptum kaþólskra presta.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Kirkjuleiðtogar hafa borið aðskilnaðarstefnuna fram sem biblíukenningu.