Frá lesendum
Aðskilnaðarstefnan
Ef samtökum ykkar þykir jafnvænt um fólk og þið látið í veðri vaka, hvers vegna fordæmið þið ekki aðskilnaðarstefnuna berum orðum? (Október-desember 1988) Það er skylda sérhvers kristins manns, sem segir opinskátt að hann hafi Guð í hjarta sér, að fordæma aðskilnaðarstefnuna. Ég legg til að samtök ykkar fordæmi aðskilnaðarstefnuna og alla aðra kúgun í heiminum, opinskátt og fyrir opnum tjöldum!
S.C., Englandi
Flestir lesenda okkar skildu réttilega að við höfum andstyggð á kynþáttamisrétti, en við létum hana í ljós með þeirri reisn sem hæfir tímaritinu „Vaknið!“ — Útg.
Tíminn
Sem framkvæmdastjóri hef ég lengi haft áhuga á tímastjórnun. Greininni ykkar, „Tíminn — ert þú húsbóndi hans eða þræll?“ (Apríl-júní 1988), tókst að koma til skila á fjórum blaðsíðum betri, hagnýtari og auðskildari ráðum en ég hef nokkurn tíma fengið á námskeiðum eða úr kennslubókum.
W.K., Vestur-Þýskalandi
Hjálp handa fötluðum
Ég var mjög ánægður með greinina ykkar (Janúar-mars 1989). Það þarf ekki alltaf að hjálpa fötluðum manni til þess að hann sé hamingjusamur. Það þurfti að taka af mér hægri handlegginn. Það var fylgst með sérhverri hreyfingu minni til að hjálpa mér við matarborðið. Mér var þjónað, brauðið skorið fyrir mig, ávextirnir afhýddir og osturinn meira að segja skorinn. Að sjálfsögðu var það með góðum huga gert, en innst inni var ég hálfsár út í þá sem báru hag minn fyrir brjósti. Að síðustu hætti ég meira að segja að þakka fyrir mig. Þótt undarlegt kunni að virðast finnst mér ágætt að gera allt upp á eigin spýtur þegar ég er einn. Ég þakka fyrir ábendingar um hjálpartæki; ég ímyndaði mér aldrei að slíkt væri til. Þau eru einföld en mjög gagnleg.
C.C., Frakklandi
Eyðni
Ég skrifa þetta vegna greinar ykkar um eyðni og þó sér í lagi vegna bréfs þar sem sagt var að „vottar Jehóva virtust þeir einu sem ættu ekki á hættu að fá eyðni, vegna þess að þeir neyta ekki fíkniefna, eru hvorki kynvilltir né með hneigð til beggja kynja, sýna tryggð í hjónabandi og hafna blóðgjöfum.“ Eyðni er sjúkdómur sem ógnar öllum, jafnvel vottum Jehvóa. Mér gremjast stórlega þær dylgjur að aðeins þeir séu lausir við eyðni. Hættið að láta í veðri vaka að þetta sé guðleg refsing; annars verðið þið líka að viðurkenna að krabbamein sé guðleg refsing, en það er það ekki.
R.C., Bandaríkjunum.
Lesandi okkar kann að hafa í huga greinarkorn í „Horft á heiminn“ (júlí-september 1988). Þar var vitnað í orð sérfræðings í smitsjúkdómum sem birtust í brasilíska tímaritinu „ISTOÉ.“ Aðrir heimildarmenn í læknisfræði hafa látið svipuð orð falla, en þeir gera sér grein fyrir því að meginreglurnar, sem nefndar voru, draga úr áhættunni. Að sjálfsögðu hefur R.C. rétt fyrir sér í því að jafnvel vottum Jehóva stafi hætta af eyðni en það má venjulega rekja til hegðunar þeirra áður en þeir gerðust vottar, eða þess að maki þeirra fylgir ekki boðum Biblíunnar. Við komum ekki auga á hliðstæðuna við krabbamein sem orsakast yfirleitt ekki af broti á meginreglum Biblíunnar. — Útg.