Leyndardómurinn vex
STUNDUM er dauðinn mjög nálægur okkur — til dæmis þegar við stöndum við dánarbeð manns. Eigi að síður vekur tilhugsunin um dauðann með okkur ótta eða jafnvel skelfingu. Það er því engin furða að menn skuli hafa fleiri spurningar en svör í hvert sinn sem einhver deyr. Lífið er stutt og eins og Shakespeare sagði: ‚Dauðinn mun fara með sigur af hólmi.‘
Hvað er þá líkamsdauðinn? Það er fyrsta spurningin sem við þurfum að svara.
Erfitt er að sætta sig við dauðann
Samkvæmt Encyclopædia Britannica er dauði einfaldlega skilgreindur sem „vöntun á lífi.“ Þótt maðurinn geti sætt sig við að fiskar, landdýr og fuglar deyi gegnir öðru máli þegar maður deyr — þá skynjar hann dauðann sem óvin alveg eins og Biblían segir.a
Af öllum sköpunarverum jarðarinnar er maðurinn einn fær um að ígrunda sinn eigin dauða. Hann er líka eina lífvera jarðarinnar sem grefur látna. Eins og Encyclopædia Britannica greinir frá stafa trúarsiðir tengdir greftrun látinna af „eðlislægri neitun eða vangetu mannsins til að sætta sig við dauðann sem endanleg lok mannslífsins. Þrátt fyrir hin hræðilegu merki um rotnun líkamans eftir dauðann hefur sú trú verið lífseig að einhver hluti einstaklingsins lifi líkamsdauðann.“
Af því leiðir að aldagamlar venjur og alls kyns hjátrú og dulúð hefur sett mark sitt á þá siði sem eru tengdir dauða og greftrun.
Siðvenjur og trúarhugmyndir
Margar fornar grafir geyma ekki aðeins bein hins látna heldur einnig merki þess að matur og drykkur hafi verið lagður í gröf hans í þeirri trú að hann hefði þörf fyrir slíkt eftir dauðann. Á egypskum líkkistum úr tré voru máluð landakort og augu til að hinn látni gæti ratað réttan veg. Verkfæri og persónulegir munir, svo sem skartgripir, voru einnig lagðir í grafir látinna í þeirri trú að þeir hefðu not fyrir þá í lífinu eftir dauðann.
Beinagrindur hafa fundist liggjandi á hliðinni samankrepptar, ekki ólíkt fósturstellingu. Sumir vísindamenn hafa túlkað þetta sem merki um trú á endurfæðingu. Grikkir og Rómverjar álitu að hinir dánu þyrftu að láta ferja sig yfir fljótið Styx, stærsta fljót undirheima. Þá þjónustu veitti ferjumaðurinn Karon sem var illur andi. Til að greiða ferjugjaldið var lagður peningur í munn hins látna og er þeim sið enn viðhaldið víða um heim.
„Ljóst er að öll helstu trúarbrögð hafa einhverjar kennisetningar um það að deyja, um það hvað dauðinn er og um lífið eftir dauðann,“ segir í fræðiritinu A Dictionary of Religious Education. Það er auðvitað rétt — en hvers vegna? Vegna þess að maðurinn getur illa sætt sig við tilhugsunina um að vitundarlíf hans taki enda. „Enginn trúir á eigin dauða,“ staðhæfði sálkönnuðurinn Sigmund Freud og „undirvitund okkar allra er sannfærð um eigin ódauðleika.“
Slík hugsun hefur auðvitað leitt til margs kyns trúarkenninga og hugmynda um dauðann og lífið eftir dauðann. Við skulum skoða nokkrar af þeim helstu.
Hreinsunareldur og helvíti
Ef dauðir eru lifandi hljóta þeir að vera einhvers staðar — en hvar? Mönnum hefur þótt þeirri spurningu vandsvarað því að þeir sem deyja eru hvorki alslæmir né algóðir. Meðfædd réttlætiskennd mannsins hefur frá alda öðli komið honum til að skipta hinum látnu í tvo hópa, góða og illa.
Uppsláttarritið The Jewish Encyclopedia lýsir sjónarmiðum Gyðinga svo: „Á hinsta dómsdegi verður sálum manna skipt í þrjá flokka — hinir réttlátu skulu þegar í stað innritaðir til eilífs lífs; hinir óguðlegu til Gehenna en þeir sem hafa dyggðir og syndir í jafnvægi skulu fara niður til Gehenna og svífa svo upp og niður þar til þeir stíga upp hreinsaðir.“ Margir munu kannast við hið síðastnefnda sem lýsingu á hreinsunareldinum.
Athyglisvert er að New Catholic Encyclopedia skuli einfaldlega segja í opinberu mati sínu á kenningunni um hreinsunareld: „Þegar öllu er á botninn hvolft er hin [rómversk-] kaþólska kenning um hreinsunareld byggð á erfikenningu en ekki Heilagri ritningu.“ Það kemur ekki á óvart því að orðið er hvergi að finna í Biblíunni og reyndar ekki hugmyndina heldur. En hvað um Gehenna, áfangastað hinna óguðlegu að sögn The Jewish Encyclopdia?
Gehenna er hin gríska útgáfa hebreska orðsins geh hinnom sem merkir Hinnomsdalur. Í þessum dal, sem liggur suðvestur af Jerúsalem, var börnum fórnað guðinum Mólok til forna. The Jewish Encyclopedia segir að ‚dalurinn hafi af þessum orsökum verið dæmdur bölvaður og „Gehenna“ tók því fljótlega á sig merkinguna „helvíti.“‘
„Mörg trúarbrögð skilja helvíti sem bústað illra anda þar sem óguðlegum mönnum er refsað eftir dauðann,“ segir The World Book Encyclopedia. Sum af kirkjufélögum kristna heimsins og ýmis önnur trúarbrögð kenna þessa kenningu enn af krafti. Margir hafa af þeim sökum alist upp í ótta við að lenda í helvíti.
„Þegar ég var drengur,“ skrifaði enski skáldsagnahöfundurinn Jerome K. Jerome árið 1926, „trúði flest trúrækið fólk að til væri bókstaflegt helvíti. Orð fá tæplega lýst þeirri kvöl sem þetta hafði í för með sér fyrir hinn hugmyndaríka barnshuga. Þetta kom mér til að hata Guð, og síðar, þegar vaxandi greind og vitneskja kom mér til að hafna hugmyndinni sem fáránlegri, til að fyrirlíta það trúfélag sem hafði kennt hana.“
Í rammanum á næstu síðu með yfirskriftinni „Munurinn á helvíti og Gehenna“ er ýmsar fleiri upplýsingar að fá um þá kenningu. En margir eru þeirrar trúar að allir fari til himna. Sumir nefna það algleymi eða nirvana.
Himinninn og nirvana
„Himinninn er staður blessunar og óendanlegar hamingju í návist Guðs og heilagra engla hans og dýrlinga,“ segir í bókinni The Catholic Religion — A Manual of Instruction for Members of the Anglican Church. Áfram er haldið: „Himinninn er líka staður eilífra endurfunda allra ástvina sem við höfum átt hið neðra en hafa dáið í náð, og þar verðum við fullkomlega góð og heilög að eilífu.“
Nirvana eða algleymi er á hinn bóginn ástand „fullkomins friðar og blessunar“ sem að skilningi Búddhatrúarmanna er aðeins hægt að ná eftir að lokið er „kvalafullri, stöðugri hringrás dauða og endurfæðingar.“ En hvort sem menn trúa á himneska alsælu eða nirvana er boðið upp á von um einhvers konar lausn frá þjáningum þessa lífs og líf í heimi þar sem allt er gott og fagurt.
Hjálpa þessar ósamhljóða kenningar okkur að fá svar við þeirri spurningu hvað verði um okkur þegar við deyjum? Eða gera þær leyndardóminn enn leyndardómsfyllri? Hvernig getum við gengið úr skugga um að það sem við kjósum að trúa sé satt og rétt? Eru trúarbrögðin að kenna okkur staðreyndir eða hugaróra?
Örlög okkar eftir dauðann halda áfram að vera leyndardómur og ráðgáta — nema því aðeins að við getum svarað þeirri grundvallarspurningu sem ein geymir lykil ráðgátunnar: Hvað er sálin? Við lítum næst á það.
[Neðanmáls]
a Sjá fyrra bréf Páls til Korintumanna 15. kafla, 26. vers.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Djúpfrysting og ódauðleiki
Um alllangt skeið hefur tíðkast að fólk láti djúpfrysta sig eftir dauðann og geyma líkið við afarlágt hitastig. Yfirleitt er þá líkið geymt í heilu lagi í keri sem fyllt er fljótandi köfnunarefni við −232° C. Þó er hægt að velja um að vera aðeins „taugasjúklingur“ en með því er átt við að einungis höfuðið sé geymt. „Ég trúi ekki á líf eftir dauðann í trúarlegum skilningi,“ segir framkvæmdastjóri bresks fyrirtækis sem auglýsir djúpfrystingu af þessu tagi, „en ég nýt þess að lifa og mér finnst slæmt að hugsa mér að vitundarlífið hætti.“ Hugmyndin að baki djúpfrystingu er sú að einhvern tíma í framtíðinni muni vísindin verða fær um að lífga látna og jafnvel að mynda nýja líkama fyrir hin afskornu höfuð. Lundúnablaðið The Sunday Times segir þetta vera eina leið til að „ná ódauðleika.“
[Rammi á blaðsíðu 7]
Munurinn á helvíti og Gehenna
Gehenna var nafnið á sorphaugi fyrir utan borgarmúra Jerúsalem. Jesús notaði þetta orð sem tákn eilífrar tortímingar. (Matteus 10:28) Hvað er þá helvíti eða helja (þýtt úr hebreska orðinu „séol“ og gríska orðinu „hades“)? Ef það er staður kvala og píningar myndi tæpast nokkur vilja fara þangað. Ættfaðirinn Job bað þó Guð um að geyma sig þar. (Jobsbók 14:13) Þegar Jónas var í kviði stórfisksins, þar sem hann bað Guð um að frelsa sig, var hann svo gott sem kominn í helju eða helvíti Biblíunnar. (Jónas 2:1, 2) Helja Biblíunnar er sameiginleg gröf mannkynsins þar sem dauðir hvíla og bíða þess að Guð reisi þá upp frá dauðum. — Jóhannes 5:28, 29.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Augu voru máluð á forna, egypska líkkistu í þeirri trú að með þeim gæti ‚sál hins látna gægst út.‘
[Rétthafi]
Birt með leyfi Breska þjóðminjasafnsins í Lundúnum.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Hinnonsdalur suðvestur af Jerúsalem eins og hann lítur út núna.