Er baráttan við aukakílóin vonlaus?
SIGURINN ER EKKI EINS AUÐVELDUR OG MARGIR GRANNVAXNIR HALDA!
BARÁTTAN við aukakílóin er háð á mörgum vígstöðvum. Sumir fasta og losa sig við þau í flýti. Sumir fara í vökvakúr og hrista þau af sér á þokkalegum hraða. Sumir hlaupa þau af sér; aðrir ganga þau af sér þótt hægar fari. Sumir telja ofan í sig hitaeiningarnar. Aðrir grípa til enn róttækari aðgerða og láta binda saman á sér kjálkana með vír þegar viljann brestur til að neita sér um mat. Sumir láta stytta í sér meltingarveginn með skurðaðgerð, minnka magann eða soga burt fitu úr fituvefjum. Úr því að leiðirnar eru svona margar hlýtur baráttan við aukakílóin að vera svo gott sem unnin.
En svo er því miður ekki! Nýsigraðar fitufrumur koma stormandi til baka. Kílóin sem hurfu koma aftur og taka stundum með sér liðsauka. Bardaginn harðnar og oft fylgir hrapallegur ósigur í kjölfar tímabundins sigurs. Bardaginn dregst á langinn, kjarkinn tekur að bila og uppgjöf virðist óumflýjanleg. En gefstu ekki upp. Leiðin er að vísu löng og torfarin en sigurinn er framundan fyrir harðjaxlana sem gefast ekki upp. Vertu því einbeittur og mundu að sigurinn er því sætari sem baráttan er harðari.
Um leið og þú hefur baráttuna við aukakílóin þarftu að styrkja hugann til að viðhalda sjálfsmynd þinni og sjálfsvirðingu. Þú þarft kannski að þola gagnrýni og aðfinnslur í þjóðfélagi sem er með það á heilanum að allir eigi að vera tággrannir. Þú þarft að hafa viljastyrk til að afþakka boð hugsunarlausra gestgjafa sem reyna að fá þig til að borða það sem þú ættir ekki að snerta. Þú verður að sætta þig við fordóma grimmra gagnrýnenda sem stimpla þig mathák.a Hinir fyrrnefndu reyna að sigra þig með góðvild sinni; hinir síðarnefndu fordæma þig eftir ytra útliti.
Þú verður að láta alhæfingar hinna óupplýstu sem vind um eyru þjóta: „Þú værir ekki of feitur ef þú kynnir þér magamál!“ Það hljómar ósköp einfalt af vörum þeirra en veruleikinn er miklu flóknari. Að vísu er það rétt að þú þyngist ekki ef þú innbyrðir ekki fleiri hitaeiningar en þú brennir. Oft brennir líkaminn þó ekki öllum þeim hitaeiningum sem hann fær. Af ýmsum ólíkum orsökum eru margar þeirra geymdar sem fita í fitufrumum líkamans. Baráttan við aukakílóin getur því stundum verið einmanaleg nema til komi stuðningur vina sem gera sér grein fyrir við hvílíkt ofurefli þú átt að etja.
En áður en þú steypir þér út í þessa erfiðu baráttu skaltu vega og meta eina spurningu: Þarftu að fara í megrun? Í sumum löndum er það nánast trúaratriði að vera grannur. Sumir grenna sig svo að við liggur að þeir séu vannærðir eða fara jafnvel út í öfgar svo sem lystarstol eða sjúklega mikla matarlyst. Vísindamenn telja líkamsþyngd ekki einhlítan mælikvarða á það hvort maður sé of feitur eða ekki, heldur hitt hve stór hundraðshluti líkamans sé fita. Þeir telja um offitu að ræða þegar fita er orðin 20-25 af hundraði líkamsþunga hjá körlum og 25-30 af hundraði hjá konum.
Það er því ekki einhlítur mælikvarði sem lesa má af hæðar- og þyngdartöflum. Vísindamaður segir: „Þyngdartöflur geta þess ekki að almennt líkamsástand og holdafar jafnþungra og jafnhárra einstaklinga getur verið mjög ólíkt. Fitusnauðir vefir og vöðvar eru þyngri miðað við rúmmál en fita, þannig að líkamsþyngdin ein sér er alls ekki góður mælikvarði á heilsufar eða líkamsástand.“ Töflur sem taka tillit til aldurs, kynferðis og byggingarlags, og tilgreina efri og neðri þyngdarmörk, eru töluvert áreiðanlegri mælikvarði þótt ekki sé hann fullkominn. Slíka töflu er að finna á bls. 16.
Margir halda að fitufrumur líkamans séu mestu letiblóð og liggi bara iðjulausar hingað og þangað um líkamann og taki þar pláss — allt of mikið pláss! Í raun réttri eru fituvefirnir meira en aðeins geymslustaðir fyrir þríglýseríð (fituefni). Um 95 af hundraði fituvefjanna er lífvana fita en 5 af hundraði skiptast í bindivef, blóð og æðar, auk frumna sem vinna að efnaskiptum líkamans. Þessar frumur geta verið býsna gráðugar og hamstrað næringarefni úr blóðinu, sem fer um háræðar fituvefjarins, og breytt þeim í fitu. Vissir hormónar ýmist stuðla að því að binda fitu eða hleypa út í blóðið sem fitusýrum til að mæta orkuþörf líkamans. Fitufrumurnar eru sannarlega engin letidýr heldur vinna yfirvinnu hjá sumum, þeim til mikils angurs!
Einu sinni var talið að fitufrumum líkamans fjölgaði ekki eftir að þær væru orðnar til heldur stækkuðu þær einungis. Nýrri rannsóknir hafa sýnt að svo er ekki. Vísindarit segir: „Geymslurými fituvefjanna er fyrst aukið með því að bæta fitu eða þríglýseríðum í fitufrumurnar og síðar með því að mynda nýjar fitufrumur þegar allar tiltækar fitufrumur hafa fyllst.“ Nálega tómar fitufrumur eru agnarsmáar en geta tífaldað þvermál sitt er þær fyllast fitu, en það svarar til þúsundfaldrar rúmmálsaukningar.
Fita vill safnast fyrir á vissum stöðum á líkamanum. Hjá karlmönnum er það mittið. Hjá konum eru það mjaðmir og læri. Enda þótt fólk grennist hverfur fitan síðast af þessum svæðum. Vísindamenn hafa uppgötvað að á yfirborði fitufrumnanna er að finna smáar sameindir sem eru nefndar alfa- og beta-nemar. Alfa-nemarnir örva fitumyndun; beta-nemarnir stuðla að fitusundrun. Hjá konum er mikið af alfa-nemum um mjaðmir og læri en hjá körlum um mitti. Kona losnaði til dæmis við 15 af hundraði líkamsfitunnar án þess að nokkuð hyrfi af mjöðmum og lærum. Karlmaður léttist stórlega en ístran sat eftir.
Sú leið að telja ofan í sig hitaeiningar er ekki jafneinföld lausn á offituvandanum og margir halda. Hitaeiningar eru nefnilega ekki allar það sem þær eru séðar. Sá sem neytir 100 hitaeininga í mynd kolvetna geymir kannski 77 sem fitu en brennir 23. Ef hann neytir 100 hitaeininga í mynd smjörs eru 97 geymdar sem fita en einungis þrem brennt. Ástæðan er sú að efnafræðileg gerð fitunnar í smjöri er svo lík líkamsfitunni að það er harla auðvelt fyrir líkamann að setja hana beint í geymslu. Það er því ekki nóg einungis að telja hitaeiningarnar; það þarf líka að taka tillit til þess hvaðan þær koma. Fiturík fæða er meira fitandi og minna nærandi en kolvetnarík fæða miðað við hverja hitaeiningu. Gerð var tilraun þar sem karlmenn voru látnir háma í sig kolvetnaríka fæðu í sjö mánuði og þyngdust við það um 13,5 kílógrömm, en menn, sem úðuðu í sig fituríkri fæðu, bættu við sig 13,5 kílógrömmum á þrem mánuðum.
Megrunarkúrar, þar sem einvörðungu er nærst á fljótandi fæðu, hafa oft alvarlegar aukaverkanir. Á áttunda áratugnum var til dæmis lögð mikil áhersla á vökvakúra með prótínum í fljótandi formi, og við árslok 1977 höfðu um það bil 60 dauðsföll verið rakin til þeirra í Bandaríkjunum. Talið var að rekja mætti mörg þessara dauðsfalla til hjartabilunar. Þeir vökvakúrar, sem nú eru mest notaðir, hafa verið bættir með ýmsum hætti þannig að bæði eru í þeim prótín, kolvetni, fitur, vítamín og steinefni. Eftir sem áður hafa slíkir hraðvirkir megrunarkúrar sína ókosti.
Þegar skyndilega er fækkað mjög þeim hitaeiningum, sem líkaminn fær, hægir oft um leið á efnaskiptum líkamans. Oft gerist það innan sólarhrings eftir að megrunarkúrinn byrjar, og á tveim vikum getur hægt á þeim sem nemur 20 af hundraði. Læknir, sem spurður var um orkusnauðan vökvakúr, sagði: „Þegar hitaeiningunum fækkar stórlega hægir verulega á efnaskiptunum og maðurinn er skapstyggur og máttlítill. Þar að auki má rekja allt að 70 af hundraði þyngdartapsins til vöðva en ekki fitu.“ Fólk fer í megrun til að losna við fitu en ekki vöðva. Vöðvarnir eru þeir vefir líkamans sem brenna mestri orku. Við það að missa vöðvavef dregur úr grunnefnaskiptahraða líkamans, en það er sá efnaskiptahraði sem þarf til að viðhalda grunnstarfi líkamans svo sem öndun og frumumyndun. Til þess er varið um 60 til 75 af hundraði þeirra orku sem líkaminn notar.
Þessi breyting á efnaskiptahraða líkamans er orsökin fyrir því að margir hætta að léttast eftir nokkurra vikna strangan megrunarkúr. Kona, sem hafði haldið þyngdinni í skefjum með því að gæta að mataræði sínu frá því að hún var 16 ára, bætti við sig um 11 kílógrömmum eftir að hafa fætt fyrsta barnið en losnaði fljótt við þau aftur. Þegar hún fæddi annað barnið bætti hún við sig liðlega 22 kílógrömmum og þau gat hún ekki losnað við aftur. Hún segir: „Einu sinni fór ég á megrunarhæli þar sem ég fékk aðeins 500 hitaeiningar á dag. Ég léttist um 4,5 kíló fyrsta mánuðinn, tæpt kíló þann næsta, en alls ekkert næstu tvo mánuði þar á eftir þótt ég héldi kúrinn dyggilega. Þegar hitaeiningunum var fjölgað upp í 800 á dag bætti ég jafnt og þétt við mig 900 grömmum á viku, uns ég hafði þyngst aftur um þau rúmlega 5 kílógrömm sem ég hafði losað mig við með miklum erfiðismunum. Það var átakanlegt.“
Auk þess að hægja á efnaskiptunum getur ensímið lípóprótín lípasi, sem stýrir fitumyndun, aukið starf sitt eftir snöggan megrunarkúr. Af þessum tveim ástæðum bæta sumir aftur við sig því sem þeir losnuðu við, er þeir byrja að borða aftur með venjulegum hætti. Flestir bæta reyndar við sig aftur þeim kílóum sem þeir losnuðu við — 95 af hundraði þeirra sem voru mjög feitir og 66 af hundraði allra sem fara í megrunarkúr. Þau kíló, sem bætast við, eru hins vegar aðallega fita, ekki vöðvavefir sem tapast hafa, en það jafngildir hægari efnaskiptum og ýtir undir aukna fitumyndun.
Vísindamaður veitti athygli að þeir sem höfðu lést með því að fara í megrunarkúr og síðan bætt við sig þyngd á nýjan leik, áttu erfiðara með að losna við þá viðbót á ný með því að fara aftur í megrunarkúr. Hann tók að velta fyrir sér hvort megrunarkúrar gætu hindrað menn í að létta sig síðar meir. Tilraunir voru gerðar með feitar rottur. Í fyrsta megrunarkúrnum tók það þær 21 dag að losna við aukaþyngdina og 45 daga að vinna hana upp á ný eftir að megrunarkúrnum lauk. Í öðrum megrunarkúrnum tók það 46 daga að losna við aukaþyngdina en aðeins 14 daga að ná henni upp á ný — tvöfalt lengur að losna við hana en þrefalt skemur að vinna hana upp aftur!
Gilda sömu reglur um menn? Í hitaeiningasnauðum megrunarkúr misstu 111 einstaklingar að meðaltali 1,4 kílógrömm á viku, en aðeins 950 grömm á viku á sama megrunarkúr öðru sinni. Tilraunir gerðar með tvo aðra hópa eftir það staðfestu þessa niðurstöðu.
Margir sérfræðingar telja offitu arfgengan sjúkdóm og segja líkamann hafa ákveðið þyngdarmark sem geti valdið því að hann hafi tilhneigingu til að fitna. Ekki eru þó allir vísindamenn á eitt sáttir um orsakir offitu. Blaðið Annals of the New York Academy of Sciences segir að offita, hver sem upprunaleg orsök hennar sé, geti breytt efnaskiptum líkamans: „Þegar offita er orðin að veruleika getur hún orðið að eðliseinkenni vegna efnaskiptabreytinga sem offitan sjálf veldur.“
Áðurnefnt tímarit hefur einnig sínar efasemdir um þyngdarmarkskenninguna: „Þetta tölublað Annals hefur fátt fram að færa sem styður þessar kenningar.“ Kirtlastarfseminni er oft kennt um offitu, einkanlega starfsemi skjaldkirtils sem stýrir efnaskiptum líkamans. Sumir benda hins vegar á að ofát geti raskað kirtlastarfseminni. Dr. Riggle frá Texas segir um þetta: „Skjaldkirtillinn og heiladingullinn stjórna efnaskiptunum. Við verðum hins vegar að hafa hugfast að hjá fólki með slæmar næringarvenjur fá þessir kirtlar ekki þau næringarefni sem þeir þurfa til hormónaframleiðslu. Óskynsamlegt mataræði getur þannig raskað starfsemi kirtlanna.“
Margir sérfræðingar eru þó sammála um að offita stafi ósköp einfaldlega af ofáti: „Hjá flestum, sem eru of feitir, stafa aukakílóin og fituvefurinn líklega af hægfara og oft lúmsku ferli: Ofneyslu orkuríkrar fæðu um of langan tíma umfram það sem brennt er eða notað til hreyfingar.“ (Annals of the New York Academy of Sciences, 1987, bls. 343) Það er umhugsunarvert hvernig fólk stofnar heilsu sinni í voða með því:
„Offita er lífshættuleg fyrir margra hluta sakir. Hún getur dregið úr starfshæfni bæði hjarta og lungna, raskað hormónajafnvægi og haft í för með sér tilfinningaleg vandamál. Of hár blóðþrýstingur, sykursýki og há blóðfita er algengari hjá þeim sem eru of þungir en þeim sem eru af eðlilegri þyngd. Það kemur því ekki á óvart að offita getur aukið hættuna á sjúkdómum og dauða, t.d. af völdum of hás blóðþrýstings, hjartaslags, heilablóðfalls, vægrar sykursýki, vissra tegunda krabbameins og sjúkdóma í gallblöðru. Til langs tíma litið er offita sem slík einnig talin geta valdið hjartasjúkdómum af völdum fituhrörnunar.“ — Journal of the American Medical Association, 4. nóvember 1988, bls. 2547.
Þetta hljómar heldur ógnvekjandi. Ljóst má vera að baráttan við aukakílóin er barátta sem heyja þarf til sigurs. Hvað getur hjálpað fólki að vinna þann sigur?
[Neðanmáls]
a Fjallað er um biblíuleg viðhorf til matgræðgi í enski útgáfu Varðturnsins þann 1. maí 1986, bls. 31.
[Innskot á blaðsíðu 14]
Fitufrumurnar eru engin letidýr heldur vinna yfirvinnu hjá of feitu fólki.
[Innskot á blaðsíðu 14]
Geta megrunarkúrar hindrað fólk í að léttast síðar meir?
[Innskot á blaðsíðu 15]
Áhættan samfara offitu er mikil.
[Tafla á blaðsíðu 16]
HÆÐAR- OG ÞYNGDARTAFLA
Hæð (í cm) Þyngd (í kg)
Grann- Í meðal- Þrek-
vaxnir lagi vaxnir
KARLAR
158 58-61 60-64 63-68
160 59-62 60-65 64-69
162 60-62 61-66 64-70
164 60-63 62-67 65-72
166 61-64 62-68 66-73
168 62-65 63-69 67-75
170 63-66 64-70 68-76
172 63-67 65-71 69-78
174 64-68 67-72 70-79
176 65-69 68-73 71-80
178 65-70 69-74 72-82
180 66-71 70-75 73-83
182 67-72 71-77 74-85
184 68-73 72-78 75-86
186 69-75 73-79 77-88
188 70-76 74-81 78-89
190 71-78 76-82 80-91
192 73-79 77-84 81-93
KONUR
148 46-51 50-55 54-60
150 47-51 50-56 54-61
152 47-52 51-57 55-62
154 48-53 52-58 56-63
156 49-54 53-59 57-64
158 49-55 54-60 58-65
160 50-56 55-61 59-67
162 51-57 56-62 61-68
164 52-58 57-63 62-70
166 53-59 58-65 63-71
168 54-60 59-66 64-72
170 56-62 60-67 65-74
172 57-63 61-68 66-75
174 58-64 62-69 67-76
176 59-65 64-70 68-78
178 60-66 65-71 69-79
180 61-67 66-72 70-80
182 62-68 67-73 71-81
[Rétthafi]
Taflan er byggð á upplýsingum frá sambandi tryggingafræðinga og félagi tryggingalækna í Bandaríkjunum.