Heilsa og umhverfi
Eftir fréttaritara Vaknið! í Nígeríu
Árlega deyja 49 milljónir manna í heiminum. Nálega 75 af hundraði þeirra deyja um aldur fram, og yfirleitt má rekja það til heilsuspillandi umhverfis og lífernis, að því er fram kemur í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Lítum á nokkur dæmi:
◼ Krabbamein drepur fimm milljónir manna á ári. Að sögn WHO má að stórum hluta „rekja það beint til stóraukinna sígarettureykinga á síðastliðnum 30 árum.“
◼ Niðurgangssjúkdómar, sem leggja að velli meira en þrjár milljónir barna á hverju ári, stafa oft af mengaðri fæðu og vatni og ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu.
◼ Berklar, sem kosta þrjár milljónir manna lífið ár hvert, lifa góðu lífi í fátækt, offjölgun og þrengslum, einkum þar sem hreinlætisaðstaða er bágborin.
◼ Öndunarfærasýkingar, einkum lungnabólga, leggja árlega í valinn þrjár og hálfa milljón barna yngri en fimm ára. Mörg búa í borgum þar sem loftmengun er mikil.
Auk þessa mikla mannfellis hrjá sjúkdómar, sem stafa af ónógu eða menguðu vatni og ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu, um tvo og hálfan milljarð manna á ári — næstum helming jarðarbúa. WHO setur súrt regn, þynningu ósonlagsins og hækkandi hitastig um heim allan einnig í samband við hrakandi heilsufar margra. Á heildina litið, segir í skýrslu WHO, búa yfir tveir milljarðar manna í umhverfi sem er annaðhvort hættulegt lífi eða heilsu.
Dr. Hiroshi Nakajima, framkvæmdastjóri WHO, segir í viðvörunartón: „Ef við grípum ekki í taumana þegar í stað verður kreppuástandið á jörðinni óþolandi og umhverfið hættir að geta framfleytt okkur.“
Biblían lofar að sá tími komi er „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) En það verður ekki viðleitni mannanna heldur Guðsríki sem mun uppræta sjúkdóma og orsakir þeirra. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
[Myndir á blaðsíðu 18]
Godo-Foto