Umhverfið — áhrif þess á heilsu þína
Í NÝLEGU viðtali við Útvarp Sameinuðu þjóðanna sagði dr. Walter Reed hjá World Resources Institute að áhrif manna á vistkerfi jarðar væru orðin slík að það hefði „raskað hringrásum náttúrunnar allverulega.“ Að sögn dr. Reeds ógnar þessi umhverfisröskun heilsu manna um heim allan. Í grein um bókina World Resources 1998-99 í tímaritinu Our Planet, sem Sameinuðu þjóðirnar gefa út, er að finna lista yfir sumt af því sem ógnar heilsu manna. Þar var meðal annars greint frá eftirfarandi:
□ Loftmengun innan- og utanhúss hefur verið tengd við öndunarfærasýkingar sem valda dauða nærri fjögurra milljóna barna á ári.
□ Skortur á hreinu vatni og bágborin hreinlætisaðstaða stuðlar að útbreiðslu niðurgangssjúkdóma sem leggja þrjár milljónir barna að velli á hverju ári. Kólera, sem löngu var búið að útrýma í Rómönsku Ameríku, skaut aftur upp kollinum þar og lagði 11.000 manns í valinn árið 1997.
Daglega deyja meira en 30.000 börn á fátækustu svæðum heims úr umhverfistengdum sjúkdómum. Reyndu að sjá þetta fyrir þér — 30.000 börn hvern einasta dag ársins, nóg til að fylla 75 júmbóþotur!
En það er ekki aðeins í þróunarlöndum sem heilsu manna stafar ógn af umhverfinu. Tímaritið Our Planet segir að „rösklega 100 milljónir manna í Evrópu og Norður-Ameríku búi enn við heilsuspillandi andrúmsloft“ sem hefur stuðlað að gífurlegri aukningu asmatilfella. Aukin ferðalög og milliríkjaverslun hafa síðan átt þátt í því að um 30 nýir smitsjúkdómar hafa skotið upp kollinum í iðnríkjum heims. Og fram kemur í tímaritinu að sjúkdómar, sem áður var búið að ná tökum á, „hafa snúið aftur margefldir.“
Hið sorglega er að flestum þessara umhverfistengdu sjúkdóma mætti afstýra með núverandi tækni og fremur litlum tilkostnaði. Hægt væri til dæmis að bæta heilsu manna verulega með því að sjá öllum fyrir hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Hvað myndi það kosta að láta þann draum rætast? Útvarp Sameinuðu þjóðanna segir að samkvæmt skýrslunni Human Development Report 1998, sem Sameinuðu þjóðirnar gefa út, myndi það kosta jafnvirði 825 milljarða króna að sjá öllum fyrir hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu — sem er lægri upphæð en Evrópubúar eyða á einu ári til rjómaískaupa!
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 15]
Ljósmynd: Casas, Godo-Foto