Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.1. bls. 12-13
  • „Það er ekki mér að kenna“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Það er ekki mér að kenna“
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Engin nýlunda
  • Ráða genin örlögum okkar?
    Vaknið! – 1997
  • Þekktu sjálfan þig
    Vaknið! – 1991
  • Stjórnaðu lífi þínu núna!
    Vaknið! – 1997
  • Efnisyfirlit
    Vaknið! – 2020
Sjá meira
Vaknið! – 1997
g97 8.1. bls. 12-13

„Það er ekki mér að kenna“

HVE oft heyrum við sagt: ‚Ég biðst afsökunar. Þetta var mér að kenna. Ég ber alla ábyrgð á þessu!‘? Slíkur heiðarleiki er orðinn sjaldgæfur. Og jafnvel þegar hinn brotlegi viðurkennir sök sína reynir hann oft allt hvað hann getur að kenna öðrum um eða benda á einhverjar mildandi aðstæður sem hann segist engu hafa ráðið um.

Sumir segja jafnvel að það sé genunum að kenna! En er það trúlegt? Bókin Exploding the Gene Myth véfengir að genarannsóknir hafi að öllu leyti verið gagnlegar og haft rétt markmið. Ástralski blaðamaðurinn Bill Deane kemst að þessari niðurstöðu í ritdómi um ofangreinda bók: „Félagslegir nauðhyggjumenn virðast nýverið hafa komist á þá skoðun að þeir hafi fundið næstum óhrekjandi rök fyrir þeirri heimspeki að enginn skuli gerður ábyrgur fyrir athöfnum sínum: ‚Herra dómari, honum var algerlega ósjálfrátt þegar hann skar hana á háls — þetta er genunum að kenna.‘“

Engin nýlunda

Þessi kynslóð er ört að breytast í það sem rithöfundur einn kallaði „ekki ég“ kynslóðina og sú tilhneiging virðist vera að stigmagnast.En sagan sýnir að menn hafa allt frá öndverðu reynt að skella skuldinni á aðra og afsaka sig: „Þetta er alls ekki mér að kenna.“ Viðbrögð Adams og Evu eftir fyrstu syndina, þegar þau átu forboðna ávöxtinn, eru sígilt dæmi um það að skella skuldinni á aðra. Frásaga 1. Mósebókar greinir frá samræðunum sem áttu sér stað. Guð talar fyrstur: „‚Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?‘ Þá svaraði maðurinn: ‚Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.‘ Þá sagði [Jehóva] Guð við konuna: ‚Hvað hefir þú gjört?‘ Og konan svaraði: ‚Höggormurinn tældi mig, svo að ég át.‘“ — 1. Mósebók 3:11-13.

Upp frá því hafa menn verið að finna upp alls konar trúarhugmyndir og leitað að nýstárlegum afsökunum til að firra sig ábyrgð á verkum sínum. Hin ævagamla forlagatrú er eftirtektarvert dæmi. Búddhatrúarkona, sem trúði einlæglega á karma, sagði: „Mér fannst engin skynsemi í því að þurfa að þjást vegna einhvers sem ég fæddist með en vissi ekkert um. Ég varð að viðurkenna það sem örlög mín.“ Forlagatrúin, sem Jóhann Kalvín veitti brautargengi með fyrirhugunarkenningu sinni, er líka útbreidd í kristna heiminum. Oft segja prestar sorgmæddum ættingjum látinna að eitthvert slys hafi verið vilji Guðs. Og í góðri trú kenna sumir kristnir menn Satan um allt sem miður fer í lífi þeirra.

Og nú er farið að viðurkenna lagalega og þjóðfélagslega að menn séu ekki ábyrgir gerða sinna. Við lifum á tímum vaxandi réttinda og dvínandi einstaklingsábyrgðar.

Atferlisrannsóknir hafa dregið fram svokölluð vísindaleg rök sem sumir telja að lögheimili hegðun allt frá siðleysi til morða. Þetta endurspeglar ákefð þjóðfélagsins að skella skuldinni á allt eða alla nema einstaklinginn.

Við þurfum að fá svör við spurningum sem þessum: Hvað hafa vísindarannsóknir eiginlega sýnt fram á? Stjórnast atferli manna einvörðungu af genunum? Eða stýra bæði innri og ytri öfl hátterni okkar? Hvað sýna gögnin eiginlega?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila