Ráða genin örlögum okkar?
„EINU sinni héldum við að forlögin væru skráð í stjörnurnar. Núna vitum við að þau eru að miklu leyti skráð í genin.“ Þessi orð eru höfð eftir James Watson í inngangsorðum bókarinnar Exploding the Gene Myth eftir Ruth Hubbard og Elijah Wald. En strax eftir orð Watsons er vitnað í R. C. Lewontin, Steven Rose og Leon J. Kamin: „Við getum ekki ímyndað okkur að nokkurt mikilvægt, félagslegt atferli sé innbyggt í genin með þeim hætti að þjóðfélagsaðstæður geti ekki mótað það.“
Á hlífðarkápu bókarinnar er birtur úrdráttur úr hluta af efni hennar sem hefst með spurningunni: „Stjórna genin mannlegu atferli?“ Með öðrum orðum, stjórnast atferli manna einvörðungu af þeim genum sem miðla arfgengum, líffræðilegum einkennum og eiginleikum lífverunnar? Ætti ákveðið siðlaust atferli að teljast boðlegt á þeirri forsendu að það sé erfðafræðilegt? Ætti að taka á glæpamönnum sem fórnarlömbum genanna og að þeir geti lýst yfir takmarkaðri ábyrgð sökum erfðafræðilegra hneigða?
Það leikur ekki á tveim tungum að vísindamenn hafa uppgötvað margt gagnlegt á þessari öld. Þar á meðal má nefna uppgötvun hinnar stórkostlegu kjarnsýru (DNA), svokallaðra vinnuteikninga að erfðafræðilegri gerð mannsins. Þær upplýsingar, sem erfðalykillinn geymir, hafa vakið áhuga jafnt lærðra sem leikra. Hvaða vitneskju hafa erfðafræðirannsóknir eiginlega skilað okkur? Hvernig eru uppgötvanirnar notaðar til að styðja fyrirhugunarkenningu nútímans?
Hvað um ótryggð og kynvillu?
Að sögn greinar, sem birtist í dagblaðinu The Australian, er því haldið fram í niðurstöðum sumra erfðafræðirannsókna að „ótryggð sé sennilega innbyggð í genin. . . . Ótrú hjörtu okkar virðast eiga að vera þannig.“ Hugsaðu þér bara hvílíkan skaða þetta viðhorf getur valdið hjónabandi og fjölskyldulífi. Þarna er fundin smuga fyrir hvern þann sem vill skjóta sér bak við takmarkaða ábyrgð á lauslæti sínu!
Tímaritið Newsweek birti grein um kynvillu undir fyrirsögninni „Meðfætt eða áunnið.“ Greinin sagði: „Vísindi og geðlæknisfræði eru að baksa við að ráða fram úr nýjum rannsóknum sem benda til að samkynhneigð geti stafað af erfðum, ekki uppeldi. . . . Meðal samkynhneigðra er þeim vísbendingum fagnað að samkynhneigðin eigi upptök sín í litningunum.“
Í greininni er síðan haft eftir dr. Richard Pillard: „Ef kynhneigð okkar stjórnast af genunum eru skilaboðin þessi: ‚Þetta er ekki villa og það er ekki þér að kenna.‘“ Frederick Whitam, sem fæst við rannsóknir á samkynhneigð, tekur undir þau rök að menn séu lausir allra mála og segir: „Fólk hefur tilhneigingu til að varpa öndinni léttara þegar því er sagt að samkynhneigð sé líffræðileg. Það léttir sektarkenndinni af fjölskyldum og samkynhneigðum. Það merkir líka að þjóðfélagið þarf ekki að gera sér áhyggjur til dæmis af samkynhneigðum kennurum.“
Stundum koma fjölmiðlar fram með svokölluð rök fyrir því að kynvilluhneigð stjórnist af genunum, og klæða þau í búning óyggjandi staðreynda en ekki ósannfærandi möguleika.
Tímaritið New Statesman & Society slær nokkuð á orðagjálfrið: „Lesandinn er með glýju í augunum og yfirsést kannski hve mikið vantar á beinharðar staðreyndir — eða reyndar hve algerlega tilhæfulaus og vísindalega óskammfeilin sú staðhæfing er að lauslæti sé ‚greypt í gen karlsins og stimplað á rafrásaspjald heilans.‘“ Í bók sinni Cracking the Code nefna David Suzuki og Joseph Levine áhyggjur sínar af núverandi genarannsóknum: „Þótt leiða megi rök að því að genin hafi áhrif á hegðun í almennum skilningi er allt annað mál að sýna fram á að ákveðið gen — eða genapar eða jafnvel tugir gena — stjórni ákveðnum viðbrögðum dýrs við umhverfi sínu. Vel má spyrja á þessu stigi hvort nokkur hafi sameindafræðilega séð, staðsett og breytt nokkrum einasta kjarnsýruþræði sem hefur fyrirsjáanleg áhrif á ákveðið atferli.“
Gen sem stjórna drykkjusýki og afbrotahneigð
Margir erfðarannsóknamenn hafa um árabil heillast af rannsóknum á drykkjusýki. Sumir halda því fram að rannsóknir hafi sýnt að rekja megi drykkjusýki til ákveðinna gena eða vöntunar á þeim. Til dæmis greindi tímaritið The New England Journal of Medicine frá því árið 1988 að „á síðastliðnum áratug hafa þrjár sjálfstæðar rannsóknir sýnt fram á með óyggjandi hætti að drykkjusýki geti erfst.“
En sumir sérfræðingar á sviði fíknirannsókna draga nú í efa að líffræðilegir þættir hafi umtalsverð áhrif á drykkjusýki. Í frétt í dagblaðinu The Boston Globe hinn 9. apríl 1996 sagði: „Það er ekkert drykkjusýkigen í sjónmáli og sumir vísindamenn viðurkenna að sennilega finni þeir í mesta lagi erfðafræðilega veikan blett sem valdi því að sumir geti drukkið of mikið án þess að verða kenndir — einkenni sem getur valdið drykkjusýkihneigð.“
Dagblaðið The New York Times greindi frá ráðstefnu við University of Maryland í Bandaríkjunum sem nefnd var: „Þýðing og gildi afbrotahneigðar og erfðafræðirannsókna.“ Sú hugmynd að til sé gen sem stuðlar að afbrotahneigð er aðlaðandi í einfaldleika sínum. Margir virðast óðfúsir að ljá hugmyndinni stuðning. Blaðamaður, sem skrifar um vísindi í The New York Times Magazine, segir að vonskan kunni að vera „greypt í litningavafningana sem foreldrarnir gefa okkur við getnað.“ Í grein í dagblaðinu The New York Times var sagt að hinar stöðugu umræður um glæpagen veki þá tilfinningu með mönnum að glæpir eigi sér „sameiginlegan uppruna — afbrigðileika í heilanum.“
Jerome Kagan, sálfræðingur við Harvard-háskóla, spáir því að einhvern tíma verði hægt með genarannsóknum að finna út hvaða börn hneigist til ofbeldis. Sumir telja að hugsanlega megi hafa hemil á afbrotum með líffræðilegri stýringu í stað félagslegra umbóta.
Skýrslur og fréttir af þessum vangaveltum manna um að genin stjórni atferli eru oft á óljósu og óskýru máli. Bókin Exploding the Gene Myth segir frá rannsókn Lincolns Eaves, atferliserfðafræðings sem sagðist hafa fundið erfðafræðilega orsök fyrir þunglyndi. Eftir að hafa rannsakað konur, sem hneigðust til þunglyndis, gaf Eaves í skyn „að þunglyndisviðhorf og -hegðun [kvennanna] kunni að hafa aukið líkurnar á slíkum tilviljanakenndum erfiðleikum.“ Og hverjir voru þessir ‚tilviljanakenndu erfiðleikar‘? Konunum, sem rannsakaðar voru, hafði verið „nauðgað, þær höfðu orðið fyrir líkamsárásum eða verið reknar úr vinnu.“ Var það þá þunglyndi sem olli þessum áföllum? „Hvers konar rökfærsla er þetta eiginlega?“ segir áfram í bókinni. „Konunum hafði verið nauðgað, ráðist á þær eða þær verið reknar úr vinnu, og þær voru þunglyndar. Því meira áfalli sem þær höfðu orðið fyrir, þeim mun langvinnara var þunglyndið. . . . Það hefði verið þess virði að leita erfðafræðilegra tengsla ef hann [Eaves] hefði komist að raun um að þunglyndið væri óháð allri lífsreynslu.“
Sama rit segir að slíkar sögur séu „dæmigerðar fyrir flestar skýrslur og greinar um [atferlis-] erfðafræði nú á tímum, bæði í fjölmiðlum og vísindatímaritum. Þær eru blanda af athyglisverðum staðreyndum, óstuddum ágiskunum og ótrúlegum ýkjum um mikilvægi genanna í lífi okkar. Það er áberandi hve óljós þessi skrif eru að stórum hluta.“ Og áfram er haldið: „Það er mikill munur á því að tengja genin við ástand sem fylgir erfðalögmáli Mendels og að nota tilgátur um erfðafræðilegar ‚tilhneigingar‘ til að skýra flókið ástand á borð við krabbamein eða háan blóðþrýsting. Vísindamenn hrapa aftur að ályktunum þegar þeir gefa í skyn að erfðafræðirannsóknir geti varpað ljósi á mannlegt atferli.“
En þegar allt þetta er skoðað er enn ósvarað spurningum sem oft er spurt: Hvers vegna sjáum við stundum breytt atferlismynstur í lífi okkar? Og hvaða stjórn höfum við á slíkum aðstæðum? Hvernig náum við tökum á lífi okkar og varðveitum þessi tök? Í greininni á eftir verður reynt að svara þessum spurningum.
[Rammi á blaðsíðu 15]
Genalækningar — hafa vonirnar ræst?
Hvað um genalækningar — að sprauta leiðréttingargenum í sjúklinga til að lækna þá af meðfæddum, erfðafræðilegum sjúkdómum? Vísindamenn gerðu sér miklar vonir fyrir fáeinum árum. „Er tími genalækninga runninn upp?“ spyr blaðið The Economist hinn 16. desember 1995 og bætir við: „Svo mætti ætla ef miðað er við opinberar yfirlýsingar sérfræðinga og mikla umfjöllun í fjölmiðlum. En hópur virtra, amerískra sérfræðinga er á öðru máli. Harold Varmus, forstöðumaður Bandarísku heilbrigðisstofnunarinnar (NIH) bað fjórtán mikils metna vísindamenn að fara yfir stöðuna. Eftir sjö mánaða umhugsun sögðu þeir í skýrslu sem birt var í síðustu viku að genalækningar lofi vissulega góðu, en að ‚gert hafi verið allt of mikið úr‘ árangrinum fram til þessa.“ Gerðar voru prófanir á 597 sjúklingum með adenósín-amínófrákljúfsskort (ADA) eða einhvern af um tylft annarra sjúkdóma sem taldir voru vel fallnir til meðferðar með genagjöf. „Að sögn hópsins hefur ekki einn einasti sjúklingur fengið greinilega bót meina sinna með því að taka þátt í slíkri prófun,“ segir The Economist.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Hvað sem sumir segja um erfðafræðilegar hneigðir getur fólk ákveðið hvernig það hegðar sér.