Bjargföst von í skugga Tsjernobyl
Eftir fréttaritara Vaknið! í Úkraínu
HINN 26. apríl 1986 átti sér stað versta kjarnorkuslys sögunnar í Tsjernobyl í Úkraínu. Síðar sama ár sagði Mikhaíl Gorbatsjov, þáverandi forseti Sovétríkjanna, að harmleikurinn minnti óþyrmilega á það að „mannkynið réði enn ekki við þau ógnaröfl sem það hefði leyst úr læðingi.“
Þýska mánaðarritið Psychologie Heute sagði í febrúar 1987 um þýðingu Tsjernobylslyssins: „Slysið í kjarnakljúfnum í Tsjernobyl . . . var vendipunktur í sögu nútímasiðmenningar. Og það var stórslys sem á eftir að hafa veruleg áhrif á okkur um aldir.“ Dagblaðið The New York Times sagði að „jafnmikið af langgeislavirku efni [hefði sloppið] út í andrúmsloftið, jarðveginn og vatnið og samanlagt af völdum allra kjarnorkutilrauna og -sprenginga fram til þessa.“
Þýska dagblaðið Hannoversche Allgemeine spáði að „á næstu 50 árum deyi um 60.000 manns alls staðar í heiminum úr krabbameini vegna slyssins í sovéska kjarnakljúfnum . . . Um 5000 til viðbótar hljóti alvarlegar erfðaskemmdir og allt að 1000 verði heilsuveilir frá fæðingu.“
Tsjernobylslysið hefur varpað dimmum skugga ótta, kvíða og óvissu á líf hundruð þúsunda manna. Sumir hafa þó öðlast bjargfasta von þrátt fyrir svartnættið. Rudnik-fjölskyldan, þau Viktor, Anna og dæturnar Jelena og Anja, eru dæmi um það. Í apríl 1986 átti Rudnik-fjölskyldan heima í Pripet, innan við þrjá kílómetra frá kjarnakljúfnum í Tsjernobyl.
Slysið
Þennan örlagaríka laugardagsmorgun unnu slökkviliðsmenn þrekvirki við bilaða kjarnakljúfinn og komu í veg fyrir að afleiðingarnar yrðu enn verri. Innan fárra klukkustunda voru slökkviliðsmennirnir helteknir geislaveiki og margir dóu síðar. Grígori Medvedev, aðstoðaryfirverkfræðingur við Tsjernobyl á áttunda áratugnum, segir í bók sinni Burned Souls: „Geislaskýið barst yfir lítið furuskógræktarsvæði milli kjarnakljúfsins og bæjarins og þakti skóginn geislavirkri ösku.“ Mörg tonn af geislavirkum efnum eru sögð hafa sloppið út í andrúmsloftið!
Þótt furðulegt sé virtist lífið í hinni 40.000 manna Pripet-borg ganga sinn vanagang þennan laugardag. Börn léku sér á götum úti og fólk bjó sig undir 1. maí hátíðahöldin. Engin tilkynning var gefin út um slysið og engin viðvörun um hættu. Anna Rudnik var úti að ganga með þriggja ára dóttur sinni, Jelenu, þegar hún hitti stjúpa sinn. Hann hafði frétt af slysinu. Hann hafði áhyggjur af geislunarhættu og ók þeim í flýti heim til sín um 15 kílómetra veg.
Geislaskýið steig upp til himins og barst hundruð kílómetra leið yfir Úkraínu, Hvíta Rússland og Pólland, og einnig yfir Þýskaland, Austurríki og Sviss. Á mánudeginum urðu vísindamenn í Svíþjóð og Danmörku áhyggjufullir þegar þeir mældu mikla geislavirkni í andrúmsloftinu.
Afleiðingarnar
Um 600.000 sovéskir hermenn, slökkviliðsmenn, byggingarsérfræðingar og aðrir voru sendir til Tsjernobyl. Þeir fengu viðurnefnið „tortímendurnir“ og komu í veg fyrir enn verri hörmungar í Evrópu með því að loka kjarnkljúfinn í tíu hæða hárri og tveggja metra þykkri kistu úr steinsteypu og stáli.
Brottflutningur fólks úr nágrannabyggðarlögum hófst innan fárra daga. „Við urðum að yfirgefa heimili okkar og skilja allt eftir — föt, peninga, skjöl, mat — allt sem við áttum,“ útskýrir Viktor. „Við vorum mjög áhyggjufull þar sem Anna var ófrísk öðru sinni.“
Um 135.000 manns þurftu að flytjast brott — allir bæir og þorp innan 30 kílómetra frá kjarnakljúfnum voru yfirgefin. Rudnik-fjölskyldan flutti til ættingja. En ættingjarnir urðu smeykir um að geislavirkni bærist frá Rudnik-fjölskyldunni yfir á sig. „Þeir fóru að ókyrrast,“ segir Anna, „og að lokum báðu þeir okkur um að fara.“ Aðrir flóttamenn urðu fyrir svipaðri reynslu. Í september 1986 settist Rudnik-fjölskyldan loks að í Kaluga, um 170 kílómetra suðvestur af Moskvu.
„Þá fyrst skildum við að ekki yrði aftur snúið,“ segir Anna. „Við misstum ástkært æskuheimili okkar þar sem við höfðum fæðst og alist upp. Þetta var yndislegt svæði, þakið blómum og engjum og með vatnaliljum í læknum. Skógurinn var fullur af berjum og ætisveppum.“
Náttúrufegurð Úkraínu spilltist og hlutverki landsins sem kornforðabúr Sovétríkjanna var stefnt í voða. Mestöll haustuppskeran hafði mengast. Í Skandínavíu var 70 af hundraði hreindýrakjöts dæmt óhæft til manneldis vegna þess að dýrin höfðu haft geislavirkar skófir og fléttur til beitar. Og sums staðar í Þýskalandi var grænmeti látið rotna á ökrum vegna ótta við geislamengun.
Áhrif geislamengunar á heilsuna
Opinberar tölur, sem birtust fimm árum eftir slysið, segja að 576.000 manns hafi orðið fyrir geislun. Krabbamein og aðrir sjúkdómar eru tíðari í þessum hópi en öðrum, sérstaklega meðal ungs fólks. Hinn 2. desember 1995 greindi tímaritið New Scientist frá því að einn fremsti skjaldkirtlasérfræðingur Evrópu teldi að „allt að 40 af hundraði barna, sem urðu fyrir mestu geisluninni frá Tsjernobyl fyrir eins árs aldur, gætu fengið skjaldkirtilskrabbamein á fullorðinsaldri.“
Þar eð Anna hafði orðið fyrir geislun á meðgöngunni gengu læknar hart eftir því að hún léti eyða fóstrinu. Þegar Viktor og Anna neituðu urðu þau að undirrita yfirlýsingu þar sem þau lofuðu að annast barnið jafnvel ef það fæddist vanskapað. Anja er ekki vansköpuð en er nærsýn, með öndunarfærasjúkdóma og hjartveik. Heilsufari hinna í Rudnik-fjölskyldunni hefur líka hrakað eftir slysið. Viktor og Jelena eiga bæði við hjartakvilla að stríða og Anna er ein margra sem skráð er öryrki eftir Tsjernobylslysið.
Meðal þeirra sem urði fyrir mestri geislun voru mennirnir sem innsigluðu skemmda kjarnakljúfinn. Þúsundir manna, sem unnu við hreinsunarstarfið, eru sagðir hafa látist fyrir aldur fram. Margir sem eftir lifa eiga við geðvefræna kvilla og taugasjúkdóma að stríða. Þunglyndi er útbreitt og sjálfsmorð tíð.
Angela er í hópi þeirra, sem lifðu af, en fékk alvarlega heilsukvilla. Þegar slysið varð bjó hún í Kíev, höfuðborg Úkraínu, um 80 kílómetra frá Tsjernobyl. En eftir slysið vann hún um tíma við að koma vistum til verkamanna við kjarnakljúfinn. Svetlana, sem býr í Irpin nálægt Kíev, lifði líka af en fékk krabbamein og þurfti að gangast undir skurðaðgerð.
Horft um öxl
Í apríl 1996, tíu árum eftir slysið mikla, viðurkenndi Mikhaíl Gorbatsjov: „Við vorum alls ekki viðbúnir slíku ástandi.“ Og Jeltsín, forseti Rússlands, sagði um svipað leyti: „Aldrei fyrr í sögunni hafa menn upplifað svo stórfellda ógæfu, með svo alvarlegum og þrálátum afleiðingum.“
Þýska tímaritið Spektrum der Wissenschaft líkti eftirköstum Tsjernobylsslysins við hugsanlegar afleiðingar miðlungsstórrar kjarnorkustyrjaldar. Sumir áætla að um 30.000 manns hafi látist eftir þetta hörmulega slys.
Í fréttaskeyti á síðasta ári var sagt að 29 kílómetra breitt belti umhverfis kjarnorkuverið yrði enn óhæft til búsetu þegar tíu ár væru liðin frá slysinu. En „647 einbeittir íbúar hafa læðst inn á svæðið, mútað sér leið þangað eða gengið inn á það fyrir opnum tjöldum,“ sagði fréttin. „Alls enginn býr í innan við 10 kílómetra fjarlægð frá verinu. Þessir nokkur hundruð einstaklingar hafa sest að á 20 kílómetra breiðu belti þar fyrir utan.“
Traust þrátt fyrir útbreiddan ótta
Lífið hefur leikið þúsundir manna, sem bjuggu í grennd við Tsjernobyl, hart og gerir enn. Ein könnun leiðir í ljós að 80 af hundraði brottfluttra eru vansælir í nýjum heimkynnum sínum. Þeir eru daprir og sorgmæddir, þreyttir, órólegir, uppstökkir og einmana. Tsjernobyl var ekki bara kjarnorkuslys — það var hrikaleg þjóðfélagsleg og sálfræðileg kreppa. Ekki er að furða að margir skuli tímasetja atburði fyrir eða eftir Tsjernobyl.
Ólíkt mörgum öðrum spjarar Rudnik-fjölskyldan sig ótrúlega vel. Hún byrjaði að kynna sér Biblíuna hjá vottum Jehóva og öðlaðist fyrir vikið sterka trú á fyrirheitin í orði Guðs um nýjan, réttlátan heim. (Jesaja 65:17-25; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4) Árið 1995 létu Viktor og Anna skírast niðurdýfingarskírn til tákns um vígslu sína til Guðs. Síðar lét dóttir þeirra Jelena einnig skírast.
Viktor segir: „Með námi í Biblíunni kynntumst við skapara okkar, Jehóva Guði, og tilgangi hans með manninn á jörðinni. Við erum ekki lengur niðurdregin eða þunglynd af því að við vitum að þegar Guðsríki kemur þá verða slík hörmuleg slys aldrei aftur. Við hlökkum til þess tíma þegar sveitin umhverfis ástkært heimili okkar í grennd við Tsjernobyl nær sér á ný eftir eyðilegginguna og verður hluti af stórfenglegri paradís.“
Angela og Svetlana treysta líka loforðum Guðs um nýjan, réttlátan heim, og eru líka bjartsýnar þrátt fyrir veikindi sín af völdum geislamengunarinnar. „Án þekkingar á skaparanum og tilgangi hans yrði lífið erfitt,“ segir Angela. „En náið samband við Jehóva heldur mér uppi. Það er löngun mín að halda áfram að þjóna honum í fullu starfi sem prédikari orðsins.“ Svetlana bætir við: „Kristnir bræður mínir og systur eru mér mikil hjálp.“
Biblíunám hefur kennt þeim að slys, sem verða vegna ‚tíma og tilviljunar,‘ hafa áhrif á menn óháð því hvar þeir búa eða hverjir þeir eru. (Prédikarinn 9:11) En biblíunemendur hafa líka lært að burtséð frá því hve niðurdrepandi vandamálin eru, þá er ekkert það tjón og enginn sá missir sem Jehóva Guð getur ekki bætt og engin þau sár sem hann getur ekki grætt.
Hvernig getur þú líka byggt upp traust til fyrirheita Guðs og haft bjarta framtíðarvon? Ritari Orðskviðanna í Biblíunni svarar: „Til þess að traust þitt sé á [Jehóva], fræði ég þig í dag, já þig.“ (Orðskviðirnir 22:19) Já, þú þarft að afla þér þekkingar með reglulegu biblíunámi. Vottar Jehóva í þínu byggðarlagi eru meira en fúsir að liðsinna þér við það. Þeir bjóða þér ókeypis biblíunámskeið á stund og stað sem hentar þér.
[Innskot á blaðsíðu 14]
„Aldrei fyrr í sögunni hafa menn upplifað svo stórfellda ógæfu, með svo alvarlegum og þrálátum afleiðingum.“ Jeltsín Rússlandsforseti
[Innskot á blaðsíðu 15]
Tsjernobyl var ekki bara kjarnorkuslys — það var hrikaleg þjóðfélagsleg og sálfræðileg kreppa.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 12]
Tass/Sipa Press