Evran — Nýr gjaldmiðill í gamalli álfu
FRANSKI fjármálaráðherrann beit í hina nýslegna mynt og lýsti fagnandi yfir: „Hún er ósvikin. Hún er engin eftirlíking. Hún er sú fyrsta sem gerð er í Frakklandi og í Evrópu.“ Myntin var fyrsta evran sem slegin var í ríkismyntsláttu Frakka. Þetta var mánudaginn 11. maí 1998.
Hvað er evran? Hvaða áhrif hefur tilkoma hennar á húsmæður, verkamenn, ferðamenn og fyrirtæki um alla Evrópu? Verða einhver eftirköst í hagkerfi heimsins?
Hvernig varð hugmyndin til?
Þegar Evrópubandalagið breyttist í Evrópusambandið (ESB) hinn 1. nóvember 1993 með gildistöku Maastricht-sáttmálans var eitt af grundvallarmarkmiðunum að innleiða sameiginlega mynt fyrir aðildarríkin.a Evrópubúar hafa ekki haft sameiginlega mynt síðan á tímum Rómverja. Ákveðið var að nýja myntin skyldi heita evra. Það taka ekki öll ESB-ríkin þátt í þessu myntbandalagi. Aðeins 11 af ESB-ríkjunum 15 eru nú í aðstöðu til að taka evruna í notkun. Það eru Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Grikkland uppfyllti ekki hin efnahagslegu skilyrði fyrir aðild. Hin löndin þrjú — Bretland, Danmörk og Svíþjóð — hafa kosið að standa utan myntbandalagsins að sinni.
Evran verður innleidd stig af stigi. Hinn 4. janúar á þessu ári var byrjað að nota hana í rafrænum viðskiptum á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum. Evruseðlar og mynt verða innleidd á sex mánaða tímabili frá og með 1. janúar árið 2002, og eftir það heyra gjaldmiðlar þátttökuríkjanna sögunni til. Talið er að evran leysi af hólmi 12 milljarða peningaseðla og 70 milljarða mynta, alls um 300.000 tonn að þyngd. Vonast er til að hin ESB-ríkin verði einnig í aðstöðu til að ganga í myntbandalagið þegar fram í sækir.
„Við stöndum á tímamótum í samrunaþróun Evrópu,“ sagði fjármálaráðherra Austurríkis um evruskiptin. En afstaða Evrópubúa til evrunnar skiptist í tvö horn — 47 prósent telja að sameiginleg mynt geri Evrópu að öflugu viðskiptaveldi en 40 prósent að hún lami hagkerfi álfunnar. Sumir hafa jafnvel ýjað að því að hún geti leitt til styrjaldar! Mitt á milli eru svo efasemdamennirnir sem sjá kosti sameiginlegrar Evrópumyntar en draga í efa að hún verði til varanlegs góðs.
Sumir álíta hana blessun . . .
Framkvæmdastjórn ESB, sem er æðsta valdastofnun Evrópusambandsins, hefur lýst yfir: „Með því að koma á sameiginlegri mynt er Evrópa að gefa þegnum sínum, börnum og samstarfslöndum . . . áþreifanlegt tákn um það sameiginlega hlutskipti sem hún sjálf hefur valið sér: að reisa samfélag grundvallað á friði og velmegun.“
Talsmenn evrunnar benda á marga hugsanlega kosti sameiginlegrar myntar. Þyngst vegur að kostnaði við gjaldeyrisskipti verður útrýmt. Gjarnan er vísað í dæmið um óþreytandi evrópskan ferðalang sem heimsækir öll ESB-löndin 14 utan síns eigin. Ef hann leggur upp með 1000 þýsk mörk og skiptir peningunum sínum í hverju landi á hann aðeins 500 mörk eftir þegar upp er staðið, eingöngu vegna gjaldeyriskostnaðar!
Kostnaður við gjaldeyrisskipti leggst ekki lengur á útflutnings- og innflutningsvörur. Og sameiginleg mynt eyðir líka óbeinum kostnaði af völdum gengissveiflna. Þegar gengi gjaldmiðils sígur verða innfluttar vörur dýrari í viðkomandi landi sem leiðir oft til verðbólgu. Evrópa ætti því að verða eftirsóttari fyrir erlenda fjárfesta þar sem sameiginleg mynt gerir að verkum að gengisáhætta verður engin.
Talsmenn evrunnar sjá líka fyrir sér verðlækkanir um alla Evrópu. Bæði viðskiptavinir og fyrirtæki geta nú auðveldlega gert verðsamanburð og þegar evruseðlar og mynt verða innleidd árið 2002 verður það enn auðveldara. Búist er við að verðmunur á sömu vöru í ýmsum hlutum Evrópu eigi eftir að minnka, neytandanum til góðs.
. . . aðrir álíta hana bölvun
Þá er röðin komin að gagnrýnendunum. Þeim finnst að með tilkomu evrunnar sé evrópska hagkerfið komið í spennitreyju sem eyðileggi sveigjanleika þess og tálmi hagvexti. Þeir spá því að sameiginleg mynt auki atvinnuleysi, ýti undir stórfelldar spákaupmennskuárásir á peningamörkuðum og valdi pólitískri spennu. Slíkrar spennu hefur þegar orðið vart. Nefna má til dæmis deilu Þjóðverja og Frakka um aðalbankastjóra Seðlabanka Evrópu sem hefur yfirumsjón og eftirlit með evrunni. Búast má við fleiri slíkum deilum þegar aðildarríki ESB reyna hvert að skara eld að sinni köku.
Í sumum ESB-löndum hefur atvinnuleysi aldrei verið meira. Margir kenna um þeim útgjaldaniðurskurði og skattahækkunum sem krafist er samkvæmt viðmiðunum myntbandalagsins. Víða í Evrópu er strangri aðhaldsstefnu í fjármálum mótmælt, meðal annars niðurskurði í heilbrigðisþjónustu, velferðar- og eftirlaunakerfi. Hve lengi getur strangt peningaaðhald eins og þetta varað? Freistast sum ríki til að losa ólina svolítið eftir að evran er orðin veruleiki? Myndi slök fjármálastjórn síðan valda glundroða í sameiginlegu myntkerfi Evrópu?
Aðrir benda á hin sterku tilfinningatengsl fólks við þjóðargjaldmiðil sinn. Gjaldmiðill er annað og meira en bara peningar. Í augum margra tengist hann sögu lands og þjóðar og er jafnmikilvægt þjóðtákn og fáninn. Gjaldmiðill þjóðar er það ‚mál‘ sem þegnarnir þéna á, telja, áætla, skipta og safna. Tölurnar á bankainnistæðum Þjóðverja munu til dæmis lækka um helming við umbreytinguna í evrur en hrapa niður í einn tvöþúsundasta hjá Ítölum þegar líran hverfur. Samkvæmt einni rannsókn verða evruskiptin „áfall“ fyrir marga Evrópubúa.
Ein stærð fyrir alla?
Sumir hagfræðingar í ESB og Bandaríkjunum leggja áherslu á að þótt töluverður pólitískur vilji sé fyrir sameiginlegri mynt eru hagkerfi Evrópu sundurleit, íbúarnir rótfastir í heimalandi sínu og menningin geysiólík. Það eru því minni líkur á að fólk í Evrópu, sem missir vinnuna, flytjist langar leiðir innan álfunnar í atvinnuleit en fólk í Bandaríkjunum. Sumir sérfræðingar telja þessa sundurleitni svipta evruríkin stuðpúðunum sem þarf til að búa við sameiginlegt hagkerfi og þar af leiðandi gjaldmiðil.
Í sameiginlegu myntkerfi glata einstakar ríkisstjórnir sveigjanleika sínum til að glíma við efnahagsvandamál, að sögn gagnrýnenda. Þeir segja að evran færi vald frá einstökum ríkjum til hins nýja Seðlabanka Evrópu í Frankfurt í Þýskalandi. Þetta þrýsti síðan á samræmingu skattareglna og annarra efnahagsstefna í allri álfunni. Gagnrýnendurnir halda því fram að framkvæmdar- og löggjafarvaldinu í Brussel og Strassborg vaxi fiskur um hrygg. Maastricht-sáttmálinn kallar á myndun pólitísks ríkjasambands sem fari um síðir með utanríkis- og varnarmál auk efnhags- og þjóðfélagsmála. Verða þessi umskipti hnökra- og vandkvæðalaus? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.
„Hreint happdrætti“
Bankar og stórverslanir eru þegar farin að búa sig undir evruskiptin með því að bjóða upp á bankareikninga í evrum og gefa upp vöruverð í evrum ásamt verði í innlendum gjaldmiðli. Stefnt er að því að umskiptin árið 2002 verði eins snurðulaus og hægt er. Vinsælt franskt tímarit hefur þegar dreift meira en 200.000 reiknivélum sem geta umreiknað franska franka í evrur og öfugt.
Verður evran einhvern tíma jafnvoldug og Bandaríkjadollar? Margir telja að þegar evran öðlist viðurkenningu muni Bandaríkin ekki ráða jafnmiklu í efnahagsmálum heimsins. Þeir spá því að evran verði gjaldeyrisvaraforðamynt heimsins ásamt dollarnum. „Það verður ný og hörð samkeppni,“ að sögn Jill Considine hjá Samtökum greiðslujöfnunarstöðva í New York.
Hver verður framtíð evrunnar? Þýski ritstjórinn Josef Joffe kallar myntbandalag Evrópu „risavaxið hlutkesti“ og „hreint happdrætti.“ Hann bætir við: „Ef það mistekst gæti það spillt obbanum af því sem áunnist hefur í Evrópu á síðastliðnum 50 árum.“ Franski fjármálaráðherrann endurómaði tilfinningar margra Evrópubúa þegar hann sagði: „Það ríkir mikil bjartsýni og mikill ótti.“
[Neðanmáls]
a Ítarlegri upplýsingar um Evrópubandalagið er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. febrúar 1979, bls. 4-8, og 22. desember 1991, bls. 20-4.
[Rammi á blaðsíðu 28]
Um evruna
● Ein evra jafngildir rösklega 78 íslenskum krónum.staðfært
● Seðlarnir verða sjö: 5, 10, 20, 50, 100, 200 og 500 evrur.
● Á annarri seðilhliðinni verður kort af Evrópu með nokkrum einkennandi brúm, og á hinni hliðinni gluggar eða hlið.
● Á peningaseðlum verður áletrunin „EURO“ með latneskum stöfum og „ΕΥΡΩ“ með grískum stöfum.
● Myntir verða átta: 1, 2, 5, 10, 20 og 50 sent og 1 og 2 evrur.
● Alþjóðlegt evrópskt tákn verður á annarri mynthliðinni og þjóðleg mynd á hinni.
[Kort á blaðsíðu 27]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
EVRÓPU- SAMBANDIÐ
Bretland
Danmörk
Svíþjóð
Grikkland
Núverandi aðildarríki myntbandalagsins
Írland
Portúgal
Spánn
Belgía
Frakkland
Holland
Þýskaland
Lúxemborg
Finnland
Austurríki
Ítalía
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 26]
Seðlar og mynt á bls. 26-28: © Myntstofnun Evrópu