Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.7. bls. 20-25
  • Útlegð í Síberíu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Útlegð í Síberíu
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Send í útlegð
  • Vinnan í útlegðinni
  • Andlegt líf okkar
  • Breyttar aðstæður
  • Andlegar framfarir mínar
  • Starfið eflist
  • Gríðarleg aukning vekur fögnuð
  • Ég þjónaði Guði þrátt fyrir erfiðleika
    Vaknið! – 2005
  • Að varðveita trú undir alræðisstjórn
    Vaknið! – 2000
  • Vottar Jehóva í Rússlandi — Sjónarmið Guðfræðings
    Vaknið! – 1998
  • Fræðandi og hvetjandi myndband
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.7. bls. 20-25

Útlegð í Síberíu

Frásaga Vasilíjs Kalíns

Sæir þú mann vera að lesa Biblíuna í rólegheitum þrátt fyrir dynjandi skothríð, myndir þú þá ekki vilja vita hvernig hann gæti verið svona rólegur? Faðir minn varð einmitt vitni að slíku fyrir rösklega 56 árum.

ÞAÐ var í júlí árið 1942 þegar síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi. Faðir minn var staddur á heimili roskinna hjóna þegar innrásarher Þjóðverja fór í gegnum þorpið Vilshanitsa í Úkraínu, þar sem hann bjó. Sprengjur sprungu allt um kring en maðurinn sat við eldavélina, hitaði maísgraut og las í Biblíunni.

Ég fæddist fimm árum síðar ekki langt frá hinni fögru borg Ívano-Frankívsk í Vestur-Úkraínu sem var þá í Sovétríkjunum. Faðir minn sagði mér seinna frá hörmungum stríðsáranna og þessum eftirminnilega samfundi við manninn sem var vottur Jehóva. Fólk var uppgefið og margir spurðu örvilnaðir: ‚Hvers vegna er óréttlætið svona mikið? Hvers vegna deyja þúsundir saklausra manna? Hvers vegna leyfir Guð þetta? Hvers vegna í ósköpunum?‘

Faðir minn ræddi lengi og opinskátt við gamla manninn um spurningar sem þessar. Maðurinn fletti upp einum ritningarstað af öðrum í Biblíunni og sýndi föður mínum svör við spurningum sem höfðu lengi vafist fyrir honum. Hann skýrði frá því að Guð ætlaði að binda enda á allar styrjaldir þegar tími hans rynni upp og að öll jörðin yrði að fagurri paradís. — Sálmur 46:10; Jesaja 2:4; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Faðir minn flýtti sér heim og sagði ákafur: „Þetta er ótrúlegt, eftir eitt samtal við votta Jehóva hafa augu mín opnast! Ég hef fundið sannleikann!“ Hann sagði að enda þótt hann hefði sótt kaþólsku kirkjuna reglulega hefðu prestarnir aldrei getað svarað spurningum sínum. Hann fór því að kynna sér Biblíuna og móðir mín líka. Einnig kenndu þau börnum sínum þremur — systur minni, sem var bara tveggja ára, og bræðrum mínum sem voru sjö og ellefu ára. Skömmu seinna stórskemmdist heimili þeirra í sprengingu, þannig að einungis eitt herbergi var íbúðarhæft.

Móðir mín var úr stórri fjölskyldu og átti sex systur og einn bróður. Faðir hennar var með efnaðri mönnum í byggðarlaginu og mat vald sitt og stöðu mikils. Í byrjun voru ættingjarnir því andsnúnir hinni nýju trú fjölskyldunnar. En þegar fram liðu stundir hættu allmargir þessara andstæðinga óbiblíulegum trúarsiðum, svo sem notkun helgimynda, og sameinuðust foreldrum mínum í sannri tilbeiðslu.

Prestarnir egndu fólk opinberlega gegn vottunum. Afleiðingarnar urðu þær að bæjarbúar brutu rúður og ógnuðu þeim. Þrátt fyrir þetta héldu foreldrar mínir áfram að nema Biblíuna. Því var það að þegar ég fæddist árið 1947 tilbað fjölskyldan Jehóva í anda og sannleika. — Jóhannes 4:24.

Send í útlegð

Í huga mér eru greyptar minningar frá því snemma morguns þann 8. apríl árið 1951, enda þótt ég hafi ekki verið nema fjögurra ára. Hermenn með hunda komu heim til okkar. Þeir lögðu fram útlegðarskipun og hófu húsleit. Á tröppunum stóðu hermenn með vélbyssur og hunda. Menn í hermannabúningum sátu við borðið okkar og biðu á meðan við flýttum okkur að ferðbúast á þeim tveimur klukkustundum sem okkur voru ætlaðar. Ég skildi ekki hvað gekk á og grét.

Foreldrum mínum var skipað að undirrita yfirlýsingu þess efnis að þau væru ekki lengur vottar Jehóva og hefðu ekkert með þá að gera framar. Ef þau skrifuðu undir mættu þau búa áfram á heimili sínu og í heimalandi sínu. En faðir minn tilkynnti ákveðið: „Ég er þess fullviss að Guð okkar, Jehóva, verður með okkur hvert sem þið sendið okkur.“

„Hugsið um fjölskylduna og börnin ykkar,“ sárbændi liðsforinginn. „Það stendur ekki til að fara með ykkur á einhvern sumardvalarstað. Þið verðið send lengst norður, þangað sem er eilífur snjór og ísbirnir ganga um göturnar.“

Í þá daga fannst öllum orðið „Síbería“ ógnvekjandi og dularfullt. Samt var trúin og hinn djúpi kærleikur til Jehóva yfirsterkari óttanum við hið óþekkta. Eigum okkar var hlaðið á vagn og það var farið með okkur til borgarinnar og við vorum sett í vöruflutningalest ásamt 20 til 30 öðrum fjölskyldum. Þannig hófst ferðalag okkar til öræfa Síberíu, langt inn í barrskógabeltið sem tekur við af freðmýrunum.

Á járnbrautarstöðvum á leiðinni mættum við öðrum lestum sem voru að flytja fólk í útlegð. Við sáum skiltin sem héngu á lestarvögnunum: „Vottar Jehóva um borð.“ Þetta var vitnisburður í sjálfu sér því að margir fengu á þennan hátt að vita að þúsundir votta og fjölskyldur þeirra voru sendar til ýmissa staða í Norður- og Austur-Síberíu.

Smölun og útlegð votta Jehóva í aprílmánuði árið 1951 er rækilega skjalfest. Sagnfræðingurinn Walter Kolarz skrifaði um það í bók sinni Religion in the Soviet Union: „Þetta voru ekki endalok ‚vottanna‘ í Rússlandi heldur upphafið að nýjum kafla í trúboðsstarfi þeirra. Þeir reyndu jafnvel að útbreiða trú sína þegar þeir stoppuðu á brautarstöðvum á leið í útlegð. Það besta sem Sovétstjórnin gat gert til að útbreiða trú þeirra var að senda þá í útlegð. ‚Vottarnir‘ voru fluttir úr einangruninni í þorpunum út í stærri heim, þótt það væri hinn hræðilegi heimur fanga- og þrælkunarbúða.“

Fjölskylda mín var lánsöm því að okkur var leyft að taka mat með — hveiti, maís og baunir. Afa mínum var meira að segja leyft að slátra svíni og það tryggði okkur og öðrum vottum næringu. Á leiðinni mátti heyra innilegan söng óma frá lestarvögnunum. Jehóva veitti okkur styrk til að vera þolgóð. — Orðskviðirnir 18:10.

Við ferðuðumst þvert yfir Rússland í tæpar þrjár vikur og komum að lokum til hinnar köldu, einmanalegu og fjarlægu Síberíu. Það var farið með okkur til Toreja-stöðvarinnar á Tsjúnsk-svæðinu í Írkútsk-héraði. Þaðan var síðan farið með okkur enn lengra inn í barrskógabeltið til lítils þorps sem í skilríkjunum var skilgreint sem „eilífðar dvalarstaður“ okkar. Eigur fimmtán fjölskyldna komust auðveldlega fyrir á sleða sem dráttarvél dró yfir vorleðjuna. Um tuttugu fjölskyldum var komið fyrir í skálum sem ekki voru annað en langir gangar án milliveggja. Yfirvöld höfðu fyrirfram varað þorpsbúa við því að vottar Jehóva væru skelfilegt fólk. Fólkið óttaðist okkur til að byrja með og gerði engar tilraunir til að kynnast okkur.

Vinnan í útlegðinni

Vottar Jehóva unnu að skógarhöggi við afar erfiðar aðstæður. Allt var gert í höndum — trjábolirnir sagaðir, klofnir, hlaðið á hestvagna og síðan á lestarvagna. Heilu skýin af bitmýi, sem ógerningur var að skýla sér fyrir, gerðu aðstæður enn verri. Faðir minn þjáðist hræðilega. Hann var bólginn frá hvirfli til ilja. Hann bað innilega til Jehóva um hjálp til að halda þetta út. En þrátt fyrir alla þessa erfiðleika sýndu langflestir vottar Jehóva óbifanlega trú.

Skömmu síðar var farið með okkur til borgarinnar Írkútsk þar sem fjölskylda mín bjó í fyrrverandi fangabúðum og vann í múrsteinaverksmiðju. Múrsteinum var staflað beint úr heitum ofnunum með handafli. Stöðugt var krafist aukins vinnuframlags, svo að börnin þurftu meira að segja að hjálpa foreldrum sínum til að standa í skilum. Okkur kom í hug þrælavinna Ísraelsmanna í Egyptalandi til forna. — 2. Mósebók 5:9-16.

Það kom brátt í ljós að vottarnir voru vinnusamir og heiðarlegir en ekki „óvinir fólksins“ eins og sagt var. Menn veittu því eftirtekt að enginn vottur móðgaði yfirvöld eða streittist gegn ákvörðunum ráðamanna. Margir fóru jafnvel að kunna vel við trú þeirra.

Andlegt líf okkar

Mörgum vottum tókst að fela Varðturnsblöð og jafnvel biblíur — áður en þeir voru sendir í útlegð, á leiðinni eða í útlegðinni — enda þótt aftur og aftur hafi verið leitað á þeim. Seinna var þetta afritað í höndum eða á annan hátt. Kristnar samkomur voru haldnar reglulega í skálunum. Þegar yfirmaður búðanna kom inn og stóð hópinn að því að syngja skipaði hann okkur að hætta. Við gerðum það. En þegar hann fór í næsta skála fórum við aftur að syngja. Við vorum óstöðvandi.

Boðunarstarf okkar stöðvaðist heldur aldrei. Vottarnir töluðu við alla alls staðar. Foreldrar mínir og eldri bræður sögðu mér oft frá því hvernig þeim hafði tekist að segja öðrum frá sannindum Biblíunnar. Þannig tókst smátt og smátt að sannfæra einlægt fólk. Guðsríki var því boðað í Írkútsk og nágrenni snemma á sjötta áratugnum.

Í byrjun voru vottarnir álitnir pólitískir óvinir, en seinna var opinberlega viðurkennt að skipulag okkar væri eingöngu trúarlegs eðlis. Engu að síður reyndu yfirvöld að stöðva starfsemi okkar. Við komum því saman til biblíunáms í smáhópum, tvær til þrjár fjölskyldur í einu, til að það kæmist síður upp. Snemma morguns í febrúar árið 1952 var gerð nákvæm húsleit. Í kjölfar hennar voru tíu vottar handteknir og við hin vorum send á mismunandi staði. Fjölskylda mín var flutt til Ískra, 100 manna þorps um 30 kílómetra frá borginni Írkútsk.

Breyttar aðstæður

Bæjarstjórnin sýndi okkur óvænta velvild. Íbúarnir voru hógværir og vingjarnlegir — nokkrir komu jafnvel út til að ljá okkur hjálparhönd. Við vorum þriðja fjölskyldan sem var komið fyrir í einu litlu 17 fermetra herbergi. Steinolíulampar voru einu ljósgjafarnir.

Næsta morgun fóru fram kosningar. Foreldrar mínir sögðust þegar hafa kosið Guðsríki en auðvitað skildi fólkið það ekki. Þess vegna var þeim fullorðnu í fjölskyldunni haldið í varðhaldi allan daginn. Eftir á spurðu nokkrir um trú þeirra og þetta reyndist afbragðstækifæri fyrir fjölskylduna til að segja frá Guðsríki einu von mannkynsins.

Þau fjögur ár, sem við bjuggum í þorpinu Ískra, voru engir aðrir vottar nálægt sem við gátum haft samband við. Við þurftum að fá sérstakt leyfi frá yfirmanni búðanna til að yfirgefa þorpið og hann veitti það sjaldan, enda var megintilgangurinn með útlegð okkar að einangra okkur frá öðru fólki. Samt sem áður reyndu vottarnir alltaf að hafa samband hver við annan til að miðla allri nýrri andlegri fæðu sem þeim hafði tekist að afla sér.

Eftir lát Stalíns árið 1953, var dómur allra sakfelldra votta mildaður úr 25 árum í 10 ár. Þeir sem voru í Síberíu þurftu ekki lengur að fá sérstaka heimild til að fara á milli staða. Yfirvöld hófu skömmu seinna húsleitir og handtóku votta ef þeir fundu biblíur eða biblíutengd rit í fórum þeirra. Sérstakar búðir voru settar upp fyrir vottana og þangað var farið með um 400 bræður og 200 systur af svæðinu umhverfis Írkútsk.

Vottar Jehóva út um allan heim fréttu af ofsóknunum á hendur okkur í Sovétríkjunum. Á 199 umdæmismótum, sem haldin voru í öllum heimshlutum frá miðju ári 1956 og fram í febrúarmánuð 1957, var samþykkt bænaskjal okkur til handa. Alls samþykktu 462.936 mótsgestir bænaskjalið sem var stílað á Nikolaj A. Búlganín, þáverandi forsætisráðherra Sovétríkjanna. Bænaskjalið fór meðal annars fram á að við yrðum látin laus og „veitt leyfi til að fá tímaritið Varðturninn og gefa það út á rússnesku, úkraínsku og öðrum þeim tungumálum sem okkur fyndist þörf á, auk annarra biblíutengdra rita sem vottar Jehóva nota út um heim allan.“

Þá hafði fjölskylda mín verið send til Khúdjakóvó, afskekkts þorps um það bil 20 kílómetra frá Írkútsk. Þar bjuggum við í sjö ár. Árið 1960 flutti Fjodor, bróðir minn, til Írkútsk. Ári síðar kvæntist eldri bróðir minn og systir mín flutti á brott. En árið 1962 var Fjodor handtekinn og fangelsaður fyrir prédikunarstarf sitt.

Andlegar framfarir mínar

Við þurftum að leggja upp í um 20 kílómetra ferðalag, frá þorpinu okkar Khúdjakóva, annaðhvort fótgangandi eða á hjóli til að hitta aðra til biblíunáms. Þess vegna reyndum við að flytja til Írkútsk til að geta haft meira samband við aðra votta. En yfirmaður svæðisins, þar sem við bjuggum, var andvígur flutningnum og gerði allt sem hann gat til að hindra okkur. En er fram liðu stundir varð hann vinsamlegri í okkar garð og við gátum flust til þorpsins Pívovaríkha, um 10 kílómetra frá Írkútsk. Þar höfðu vottar Jehóva söfnuð og þá hófst nýtt líf fyrir mig. Í Pívovaríkha voru skipulagðir safnaðarbóknámshópar og vissir bræður höfðu umsjón með andlegri starfsemi okkar. Mikið var ég ánægður.

Þegar hér var komið sögu var sannleikur Biblíunnar orðinn mér mjög hjartfólginn og mig langaði til að láta skírast. Ósk mín rættist í ágúst árið 1965 þegar ég var skírður í lítilli á er nefnist Olkhe. Á þeim tíma létu margir nýir vottar skírast þar. Þeir sem sáu til héldu að við værum í lautarferð og værum að fá okkur sundsprett í ánni. Skömmu seinna var ég skipaður umsjónarmaður Guðveldisskólans, það var mitt fyrsta verkefni. Í nóvember árið 1965 fengum við síðan annað tilefni til að gleðjast því að Fjodor var leystur úr haldi.

Starfið eflist

Árið 1965 var öllum útlögum safnað saman og tilkynnt að þeim væri heimilt að flytja hvert sem þeir vildu. ‚Eilíf dvöl‘ okkar var þar með á enda. Ímyndaðu þér gleðina sem gagntók okkur! Enda þótt margir hafi þá farið til annarra landshluta, ákváðu aðrir að vera um kyrrt þar sem Jehóva hafði blessað og stutt andlegan vöxt okkar og starf. Margir þeirra hafa alið upp börn sín, barnabörn og barnabarnabörn í Síberíu sem var alls ekki svo skelfileg þegar allt kom til alls.

Árið 1967 kynntist ég stúlku sem hét María. Fjölskylda hennar hafði líka verið send í útlegð frá Úkraínu til Síberíu. Við höfðum bæði átt heima í þorpinu Vilshanitsa í Úkraínu í æsku. Við gengum í hjónaband árið 1968 og um síðir hlotnaðist okkur sú blessun að eignast soninn Jaroslav og síðar dótturina Oksana.

Við héldum áfram að nota útfarir og brúðkaup til að hittast í stórum hópum og njóta andlegs félagsskapar. Þá notuðum við líka tækifærið til að útskýra biblíusannindi fyrir ættingjum og vinum sem voru ekki vottar. Oft komu öryggisverðir á þessar athafnir. Við prédikuðum opinskátt með hjálp Biblíunnar um upprisuvonina eða um fjölskyldufyrirkomulag Jehóva og framtíðarblessanir í nýjum heimi hans.

Eitt sinn var ég að ljúka útfararræðu þegar bíll staðnæmdist hjá okkur, hurðunum var svipt upp og maður steig út og skipaði mér að fara inn í bílinn. Ég var ekki óttasleginn því að við vorum ekki glæpamenn, trúðum bara á Guð. En ég var með starfsskýrslur safnaðarins í vasanum. Það hefði verið hægt að handtaka mig af þeim sökum. Ég bað um leyfi til að afhenda konunni minni peninga áður en ég færi með þeim. Þannig gat ég rólega afhent henni peningaveskið ásamt safnaðarskýrslunum beint fyrir framan þá.

Frá árinu 1974 fórum við María að búa til biblíufræðslurit leynilega heima hjá okkur. Við gerðum þetta seint á kvöldin til þess að litli sonur okkar myndi ekki vita um það. En hann var svo forvitinn að hann þóttist sofa og gægðist svo til að sjá hvað við værum að gera. Seinna sagði hann: „Ég veit hver býr til blöðin um Guð.“ Við vorum svolítið hrædd, en báðum Jehóva alltaf um að vernda fjölskylduna í þessu mikilvæga starfi.

Með tímanum urðu yfirvöld vinveittari vottum Jehóva svo að við ráðgerðum að halda stóra samkomu í lista- og tómstundamiðstöðinni Mír í borginni Úsolje-Síbírskoje. Við fullvissuðum borgaryfirvöld um að samkomur okkar væru eingöngu haldnar til að nema Biblíuna og njóta kristins félagsskapar. Liðlega 700 manns komu saman í janúar árið 1990, troðfylltu salinn og vöktu mikla athygli almennings.

Eftir samkomuna spurði fréttamaður: „Hvenær gátuð þið kennt börnunum og unglingunum?“ Hann var eins og fleiri gestir undrandi yfir því hvað þau fylgdust vel með í fjóra klukkutíma á þessari fyrstu opinberu samkomu. Fljótlega birtist góð grein um votta Jehóva í dagblaðinu á staðnum. Blaðið sagði: „Það má læra ýmislegt af [vottum Jehóva].“

Gríðarleg aukning vekur fögnuð

Árið 1991 héldum við sjö mót í Sovétríkjunum sem 74.252 sóttu. Eftir að fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna fengu sjálfstæði fékk ég það verkefni frá hinu stjórnandi ráði votta Jehóva að fara til Moskvu. Þar var ég spurður að því hvort ég væri í aðstöðu til að auka starf mitt í þágu Guðsríkis. Þegar hér var komið sögu var Jaroslav kvæntur og átti sjálfur barn og Oksana var unglingur. Við María hófum þjónustu í fullu starfi í Moskvu árið 1993. Það sama ár var ég útnefndur sem samhæfari stjórnarmiðstöðvar votta Jehóva í Rússlandi.

Við María búum nú og störfum í nýju miðstöðinni skammt frá Sankti-Pétursborg. Mér er það mikill heiður að geta, ásamt öðrum trúföstum bræðrum, haft umsjón með boðberum Guðsríkis í Rússlandi sem fer stöðugt fjölgandi. Nú eru rösklega 260.000 vottar í þeim lýðveldum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og yfir 100.000 í Rússlandi einu.

Við María hugsum oft til ástkærra ættingja okkar og vina sem halda trúfastir áfram að þjóna Guðsríki í Síberíu, staðnum sem var orðinn heimili okkar og okkur var farið að þykja vænt um. Þar eru nú reglulega haldin stórmót og í Írkútsk og nágrenni starfa um 2000 vottar. Spádómurinn í Jesaja 60:22 hefur svo sannarlega ræst á þessum heimshluta: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð.“

[Mynd á blaðsíðu 20]

Með föður mínum, fjölskyldu og öðrum útlögum í Írkútsk árið 1959.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Börn í útlegð í Ískra.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Árið sem við gengum í hjónaband.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Við María núna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila