Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.7. bls. 16-19
  • Sínaífjall — gimsteinn í eyðimörkinni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sínaífjall — gimsteinn í eyðimörkinni
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fjallið kannað
  • Ras Safsafa-tindur klifinn
  • Inni í klaustrinu
  • Dapurleg brottför
  • Verðmætt biblíuhandrit endurheimt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Forn handrit hvernig eru þau aldursgreind?
    Vaknið! – 2008
  • Þeir gáfu Jehóva loforð
    Lærum af sögum Biblíunnar
Vaknið! – 1999
g99 8.7. bls. 16-19

Sínaífjall — gimsteinn í eyðimörkinni

ÉG GLEYMI aldrei hvernig mér leið þegar ég sá Sínaífjall í fyrsta sinn. Við höfðum þrætt heitan og rykugan Sínaískagann í Egyptalandi þegar leigubíllinn okkar ók allt í einu út á hina víðáttumiklu er-Raha-sléttu. Sínaífjall gnæfði tilkomumikið yfir sléttuna eins og gimsteinn í eyðimerkurumgjörð. Það var hrífandi að hugsa til þess að þetta væri líklega fjallið þar sem Móse hafði fengið lögmálið frá Guði!

Enda þótt enn sé deilt um nákvæma staðsetningu Sínaífjalls Biblíunnar hafa pílagrímar komið hingað um aldaraðir af því að þeir telja að þetta sé fjallið fræga. Allt síðan á 3. öld hafa meinlætamenn leitað hingað, staðráðnir í að stunda trúarlegar hugleiðingar í einangrun. Á sjöttu öld fyrirskipaði Jústiníanus 1. Býsanskeisari að vígalegt munkaklaustur skyldi reist til að vernda þessa meinlætamenn og tryggja yfirráð Rómverja á svæðinu. Klaustrið er kennt við Heilaga Katrínu og stendur við rætur Sínaífjalls. Hví ekki að slást í för með mér á ferð minni til Sínaífjalls?

Fjallið kannað

Þegar við höfum ekið yfir þurran dalinn hleypir leigubílstjórinn, sem er bedúíni, mér og félaga mínum út rétt fyrir neðan klaustrið. Trén meðfram klaustursveggjunum og gróðursæll garðurinn eru kærkomin sjón innan um bera klettahamrana. En við förum fram hjá af því að við ætlum fyrst að klífa suðurtindinn og tjalda þar yfir nótt. Tindurinn heitir Gebel Musa eða „Fjall Móse“ og er samkvæmt hefð talið vera hið sanna Sínaífjall.

Eftir tveggja klukkutíma klifur komum við í hið svokallaða Elíaskarð sem sker þriggja kílómetra langan hrygg Sínaífjalls. Samkvæmt arfsögnum heyrði Elía rödd Guðs í helli þar hjá. (1. Konungabók 19:8-13) Við köstum mæðinni undir 500 ára gömlum kýprusviði. Hér er einnig ævaforn brunnur og við bergjum fegnir á köldu og tæru brunnvatninu sem vingjarnlegur bedúíni býður okkur.

Við fylgjum hinni hefðbundnu ferðamannaslóð og erum 20 mínútur að rembast upp steinþrepin 750 á tindinn. Þar stendur lítil kirkja. Munkarnir staðhæfa að hún sé byggð nákvæmlega á þeim stað sem Móse fékk lögmálið. Við kirkjuna er klettagjóta sem þeir fullyrða að Móse hafi falið sig í þegar Guð fór fram hjá. (2. Mósebók 33:21-23) En sannleikurinn er sá að enginn veit nákvæmlega hvar þessir staðir eru. Útsýnið af tindinum er engu að síður stórkostlegt. Við mænum á röð eftir röð af rauðleitum granítfjöllum handan steinum stráðrar sléttunnar fyrir neðan. Í suðvestri rís Gebel Katherina eða Katrínarfjall sem er hæsti tindurinn á svæðinu, 2637 metrar á hæð.

Ras Safsafa-tindur klifinn

Næsta dag gefst okkur tækifæri til að klífa Ras Safsafa-tind sem er á sama þriggja kílómetra langa fjallshryggnum og Gebel Musa. Ras Safsafa er norðurtindurinn og ögn lægri en Gebel Musa. Hann gnæfir yfir er-Raha-sléttuna þar sem Ísraelsmenn hafa líklega haft tjaldbúðir sínar þegar Móse fór upp á fjallið til að taka við lögmálinu frá Jehóva.

Við göngum í átt að Ras Safsafa eftir skörðóttum fjallshryggnum, fram hjá yfirgefnum kapellum, görðum og lindum — minnismerki um þann tíma þegar meira en eitt hundrað munkar og einsetumenn höfðust hér við í hellum og grjótklefum. Nú er aðeins einn munkur eftir.

Við hittum þennan einsamla munk í garði sem er umluktur hárri gaddavírsgirðingu. Hann hleypir okkur inn fyrir og segir að hann hafi unnið þarna í garðinum í fimm ár en fari aðeins einu sinni í viku niður til klaustursins. Hann vísar okkur á leiðina til Ras Safsafa og við fikrum okkur upp á við uns við stöndum ofar tindunum umhverfis. Fyrir neðan blasir við hin víðáttumikla er-Raha-slétta. Frá þessum sjónarhóli er auðvelt að ímynda sér að þetta hafi verið sléttan þar sem búðir Ísraelsmanna stóðu þegar Móse fór upp á fjallið til að standa í návist Guðs. Ég sé fyrir mér þrjár milljónir Ísraelsmanna saman komnar „gegnt fjallinu“ á þessari víðfeðmu sléttu og Móse klifra niður aðliggjandi klettaskoru með töflurnar tvær í fanginu sem boðorðin tíu eru rituð á. — 2. Mósebók 19:2; 20:18; 32:15.

Fjallgangan hefur verið erfið en áreynslunnar virði og við röltum aftur til tjaldsins um leið og sólin gengur til viðar. Við bjarma af litlum eldi lesum við þá kafla í 2. Mósebók sem fjalla um dvöl Móse hér og tökum svo á okkur náðir. Síðla næsta morguns knýjum við dyra á Katrínarklaustri.

Inni í klaustrinu

Katrínarklaustur er talið eitt mikilvægasta minnismerki kristna heimsins. Það er mannað grískum rétttrúnaðarmunkum og er ekki einasta frægt vegna staðsetningu sinnar heldur einnig fyrir helgimyndir sínar og bókasafn. Lengst af var Katrínarklaustur svo einangrað að gestakomur voru fátíðar og kærkomnar. Munkarnir föðmuðu gjarnan gesti sína, kysstu þá innilega og þvoðu jafnvel fætur þeirra. Gestirnir gátu ráfað óhindrað um húsaþyrpingarnar innan 15 metra hárra klaustursmúra. ‚Staldrið við í viku, í mánuð, eins lengi og þið viljið,‘ var kurteislegt viðkvæði munkanna. En núna reynir mjög á gestrisni þeirra rösklega tólf munka sem eftir eru. Allt að 50.000 manns heimsækja klaustrið á ári hverju.

Vegna mannfjöldans eru heimsóknir takmarkaðar við þrjár klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar. Ferðamenn mega aðeins skoða lítinn hluta klaustursins — húsagarð þar sem Mósebrunnur er (arfsagnir herma að þar hafi Móse hitt konuefni sitt), Ummyndunarkirkjuna (elsta starfandi kirkja í heimi að því er sagt er) og bókabúð. Ferðamenn fá einnig að sjá Kapellu logandi runnans þar sem munkarnir segja að Móse hafi fyrst séð dýrð Guðs. Munkarnir líta á þetta sem helgasta stað jarðar og því eru gestir beðnir um að fara úr skóm eins og Guð bauð Móse að gera. — 2. Mósebók 3:5.

Það eru okkur vonbrigði að fá ekki að sjá hið fræga bókasafn klaustursins sem er aðalástæða heimsóknarinnar. Þegar við biðjum um undanþágu segir leiðsögumaðurinn að það sé ógerlegt þar eð loka eigi klaustrinu eftir fáeinar mínútur. En andartaki síðar, þegar við erum fjarri hinum gestunum, hvíslar hann: „Komið þessa leið!“ Við smeygjum okkur undir kaðla og göngum upp tröppur og fram hjá frönskum munki, sem virðist hissa að sjá okkur, og komum inn í eitt elsta og frægasta bókasafn heims. Í því eru meira en 4500 rit á grísku, arabísku, sýrlensku og egypsku. Einu sinni hýsti það hið ómetanlega biblíuhandrit, Codex Sinaiticus. — Sjá rammagrein á bls. 18.

Dapurleg brottför

Leiðsöguferðinni lýkur á heimsókn í beinahús utan veggja klaustursins. Þar er beinum munka og einsetumanna fyrri kynslóða staflað saman í stórum aðgreindum hrúgum af lærbeinum, handleggsbeinum, hauskúpum og svo framvegis. Hauskúpurnar ná næstum til lofts. Hvers vegna er þörf á svona hræðilegum stað? Grafreitur munkanna er mjög lítill. Þegar einhver deyr er því venja að fjarlægja beinin úr elstu gröfinni svo að hægt sé að jarðsetja hann. Sérhver munkur veit að einn góðan veðurdag lenda bein hans í beinahúsinu hjá beinum félaga sinna.

Ferðin endar því á frekar dapurlegum nótum en hefur þó sannarlega verið fyrirhafnarinnar virði. Við höfum notið þess að sjá klaustrið fræga og stórfenglegt útsýnið. En þegar við förum orkar sú tilhugsun sterkast á okkur að við höfum ef til vill gengið á sömu slóðum og Móse og Ísraelsþjóðin fyrir 3500 árum hér á Sínaífjalli — gimsteini eyðimerkurinnar. — Aðsent.

[Rammi á bls. 18]

Stórmerk uppgötvun

Á síðustu öld fann þýski biblíufræðingurinn Kon­stantin von Tischendorf grískt biblíuhandrit frá 4. öld í Katrínarklaustri, hið svokallaða Codex Sinaiticus. Það hefur að geyma stóran hluta Hebresku ritninganna samkvæmt grísku Sjötíumannaþýðingunni og Grísku ritningarnar í heild sinni. Handritið er eitt elsta heila safn Grísku ritninganna sem vitað er um.

Tischendorf vildi birta innihald þessa „óviðjafnanlega gimsteins“ eins og hann kallaði það. Að eigin sögn lagði hann til við munkana að handritið yrði gefið Rússlandskeisara sem væri verndari grísku rétttrúnaðarkirkjunnar og gæti beitt áhrifum sínum klaustrinu til góðs.

Á klaustursveggnum hangir þýðing á bréfi frá Tischendorf þar sem hann lofar að ‚skila handritinu óskemmdu og í góðu ásigkomulagi til hins Heilaga bræðralags Sínaífjalls um leið og farið er fram á það.‘ En Tischendorf áleit að munkarnir skildu ekki geysilega þýðingu handritsins eða nauðsyn þess að birta það. Því hefur ekki verið skilað aftur til Katrínarklausturs. Enda þótt munkarnir hafi að lokum þegið 7000 rúbl­ur frá rússnesku stjórninni eru þeir allt fram til þessa dags afar tortryggnir á tilraunir fræðimanna til að draga gersemar þeirra fram í dagsljósið. Codex Sinaiticus hafnaði um síðir í breska þjóðminjasafninu, British Museum, og er þar til sýnis nú.

Árið 1975 uppgötvuðust 47 kassar með helgimyndum og handritum undir norðurvegg Katrínarklausturs. Meðal þess sem fannst voru rösklega 12 týndar bókfellsarkir úr Codex Sinaiticus. Enn sem komið er hafa arkirnar verið óaðgengilegar öllum nema mjög þröngum hópi fræðimanna.

[Kort á blaðsíðu 17]

Sínaífjall

[Rétthafar]

NASA photo

Mountain High Maps® Rétthafi © 1997 Digital Wisdom, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 16, 17]

Er-Raha-slétta og Ras Safsafa.

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Gebel Musa og Katrínarklaustur.

[Rétthafar]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

Ljósmynd tekin með góðfúslegu leyfi British Museum

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila