Ungt fólk spyr . . .
Hvers vegna hef ég stöðugar áhyggjur af því að fitna?
„Innra með mér á sér stað taumlaus barátta. Að sumu leyti langar mig til að borða en að öðru leyti streitist ég á móti vegna þess að ég er svo hrædd um að fitna of mikið.“ — Jaimee.
HVAÐ óttast þú mest af öllu? Margar ungar stúlkur myndu hikstalaust svara: að fitna. Skoðanakönnun leiddi einmitt í ljós að ungar stúlkur nú á dögum eru hræddari við að fitna en við kjarnorkustríð, krabbamein eða foreldramissi.
Stundum byrjar óttinn við að fitna ótrúlega snemma. Dr. Catherine Steiner-Adair, fræðslustjóri, segir að margar stúlkur, sem eru ekki einu sinni komnar á unglingsárin, hittist til að taka þátt í „fitu-umræðum“ — og tjá sameiginlega fyrirlitningu á líkama sínum. Allt bendir til þess að þær láti ekki bara sitja við orðin tóm. Í skoðanakönnun, sem náði til 2379 stúlkna, kom í ljós að 40 af hundraði voru raunverulega að reyna að grennast. En stúlkurnar sem könnunin náði til voru ekki nema níu og tíu ára gamlar!
Með tímanum geta þessir krakkar fest í snöru vinsælla megrunarkúra. Og það sem verra er, það gæti farið fyrir sumum eins og fór fyrir Jennu, tvítugri stúlku. Hún er 160 cm á hæð en ekki nema 40 kg að þyngd. „Mig langar bara ekkert til að borða,“ segir Jenna. „Því kvíði ég mest að fari ég að borða, bæti ég á mig á einum mánuði öllu því sem tók mig þrjú ár að losna við.“
Ef til vill skilur þú hvernig Jennu líður. Kannski hefur þú líka viljað grenna þig til að líta sem best út. Vissulega er ekkert athugavert við að hugsa um útlitið. En það kostaði Jennu næstum lífið að vilja vera grönn. Hvernig þá?
Að svelta í hel
Jenna á við alvarlega átröskun að stríða sem nefnist lystarstol (anorexía). Sömuleiðis Jaimee sem vitnað var í hér að framan. Um tíma voru þessar stúlkur bókstaflega að svelta sig í hel og þær eru ekki einar á báti. Áætlað er að ein af hverjum hundrað stúlkum sé haldin lystarstoli. Það þýðir að milljónir ungra stúlkna verði fyrir því — hugsanlega einhver sem þú þekkir!a
Lystarstol getur þróast með mjög meinlausum hætti. Ung stúlka fer ef til vill í sakleysislegan megrunarkúr, kannski bara til að ná af sér örfáum kílóum. En þegar hún nær takmarki sínu er hún ekki ánægð. „Ég er enn of feit!“ tilkynnir hún um leið og hún horfir með vanþóknun í spegilinn. Og hún ákveður að losa sig við nokkur kíló í viðbót. Síðan aðeins fleiri. Og svo fáein til viðbótar. Af þessu hegðunarmynstri getur lystarstol sprottið.
Auðvitað eru ekki allar stúlkur, sem fara í megrun, haldnar lystarstoli. Sumar hafa réttmætar áhyggjur og það getur verið gagnlegt fyrir þær að losna við nokkur kíló. En margar stúlkur hafa brenglaða mynd af líkama sínum. Tímaritið FDA Consumer líkir brenglaðri líkamsímynd við það að horfa í spéspegil. „Maður sér sjálfan sig feitari en maður er,“ segir blaðið.
Stúlka, sem er haldin lystarstoli, er sjúklega hrædd um að fitna — jafnvel þótt hún sé tággrönn. Hún stundar ef til vill líkamsrækt af mikilli ástríðu til að fitna ekki og stígur á vigtina mörgum sinnum á dag til að ganga úr skugga um að sér fari ekki aftur. Þegar hún borðar fær hún sér einungis smáskammta eða borðar bara alls ekkert. „Ég fór í skólann á hverjum degi með nesti, sem mamma hafði útbúið fyrir mig, og henti því næstum daglega,“ segir Heather. „Ég var orðin svo vön að borða ekki neitt að ég gat það ekki þegar mig langaði til þess. Ég varð ekkert svöng.“
Í byrjun eru stúlkur, sem eru haldnar lystarstoli eins og Heather, í sjöunda himni yfir því að hafa grennst. En með tímanum fer næringarskorturinn að segja til sín. Þær verða syfjaðar og sljóar. Þetta kemur niður á lærdómnum. Sumar hætta að hafa tíðablæðingar.b Að lokum getur hjartslátturinn og blóðþrýstingurinn hrapað niður úr öllu valdi. En þessar stúlkur eru sér gersamlega ómeðvitaðar um nokkrar hættur. Eina hættan sem þær skynja er sú að bæta aftur á sig þeim kílóum sem þær hafa lagt af — jafnvel bara einu.
Lystarstol er hvorki eina átröskunin né sú algengasta. Lotugræðgi (búlimía) er plága sem herjar á næstum þrisvar sinnum fleiri stúlkur en lystarstol. Áráttuofát er líka til en það er nátengt lotugræðgi. Við skulum líta nánar á þessa kvilla.
Leynda plágan
„Vinkona mín viðkurkenndi nýlega að hún læddist í mat og borðaði hann í laumi. Síðan framkallar hún uppköst. Hún segist hafa gert þetta í tvö ár.“ Með þessum orðum lýsti unglingur, sem skrifaði dálkahöfundi tímarits, dæmigerðum einkennum átröskunar er nefnist lotugræðgi.
Sá sem er haldinn lotugræðgi fær eins konar matar-æði, neytir mikillar fæðu á stuttum tíma. Síðan reynir hann að losa líkamann við fæðuna sem hann var að borða, oft með því að framkalla uppköst.c Sumum kann að þykja það ógeðfellt að tæma magann með þessum hætti. En Nancy J. Kolodny, sem starfar á geðheilbrigðissviði, skrifar: „Því meira sem maður hámar í sig og losar sig svo við, þeim mun auðveldara verður það. Í stað viðbjóðsins og jafnvel óttans, sem maður hafði í byrjun, kemur áráttan að endurtaka hegðunarmynstur lotugræðginnar.“
Sagt hefur verið að lystarstol og lotugræðgi séu „sitt hvor hliðin á sömu myntinni.“ Enda þótt einkennin séu gerólík stafa báðir kvillarnir af mataráráttu.d Ólíkt lystarstoli er mjög auðvelt að fara leynt með lotugræðgi. Þegar öllu er á botninn hvolft koma átköstin í veg fyrir að sjúklingurinn grennist og þar sem hann losar sig við matinn fitnar hann ekki heldur. Þar af leiðandi er líklegt að þeir sem eru haldnir lotugræðgi séu hvorki horaðir né eigi við offituvanda að stríða. Kona, sem heitir Lindsey, segir: „Í níu ár hámaði ég í mig og kastaði svo upp, allt að fjórum til fimm sinnum á dag. . . . Enginn vissi að ég væri haldin lotugræðgi vegna þess að ég hélt henni tryggilega leyndri undir yfirborði velsældar, hamingju og kjörþyngdar.“
Hins vegar gegnir öðru máli um þá sem eru haldnir áráttuofáti. Þeir borða mikið á stuttum tíma alveg eins og þeir sem haldnir eru lotugræðgi. Bókin The New Teenage Body Book segir: „Þar sem ofátið fer fram án þess að losa líkamann við fæðuna, geta þeir sem haldnir eru áráttuofáti verið heldur þreknir eða akfeitir og allt þar á milli og jafnvel með offituvandamál.“
Hættulegt heilsunni
Þessi þrjú afbrigði átröskunar geta verið hættuleg heilsunni. Lystarstol getur valdið alvarlegri vannæringu og í mörgum tilfellum — sumir segja allt að 15 af hundraði — geti það verið lífshættulegt. Lotugræðgi er skaðleg heilsunni hvort sem henni fylgja uppköst eða ekki. Offita getur að lokum leitt til lífshættulegra hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og jafnvel sumra krabbameina. Það getur skaðað vélindað að framkalla uppköst og misnotkun hægða- og þvaglyfja getur í einstaka tilfellum valdið hjartastoppi.
Átröskunin hefur aðra hlið sem nauðsynlegt er að íhuga. Þeir sem haldnir eru lystarstoli, lotugræðgi eða áráttuofáti eru venjulega óhamingjusamir. Þeir hafa oft litla sjálfsvirðingu og eru þjakaðir af áhyggjum og þunglyndi oftar en aðrir. Þeir þarfnast augljóslega hjálpar. En hvernig er hægt að hjálpa þeim, sem eru haldnir átröskun, að losna við stöðugar áhyggjur af því að fitna? Fjallað verður um þessa spurningu seinna í þessum greinaflokki.
[Neðanmáls]
a Lystarstol hrjáir líka karlmenn. En þar sem mun fleiri stúlkur eru haldnar lystarstoli skírskotum við til sjúklinganna í kvenkyni.
b Kvenfólk er sjúkdómsgreint með lystarstol þegar þyngd þess er 15 af hundraði undir kjörþyngd og þegar það hefur ekki haft tíðablæðingar í þrjá mánuði eða lengur.
c Aðrar aðferðir til að losna við fæðuna eru meðal annars notkun hægðarlyfja eða þvagræsilyfja.
d Allmargir, sem eru haldnir átröskun, sveiflast á víxl milli lystarstols og lotugræðgi.
[Rammagrein á blaðsíðu 14]
Brengluð líkamsímynd
Flestar stúlkur, sem hafa áhyggjur af því að fitna, hafa enga ástæðu til þess. Könnun leiddi í ljós að 58 af hundraði stúlkna á aldrinum fimm til sautján ára álitu sig vera of feitar en aðeins sautján af hundraði voru það raunverulega. Önnur könnun sýndi fram á að 45 af hundraði kvenna, sem voru raunverulega undir kjörþyngd, héldu að þær væru of feitar. Kanadísk könnun leiddi í ljós að 70 af hundraði kvenna þar í landi hafa stöðugt áhyggjur af því að fitna og 40 af hundraði stunda víxlmegrun — léttast og þyngjast á víxl.
Brengluð líkamsímynd getur greinilega fengið sumar stúlkur til að hafa of miklar áhyggjur af því sem er ekkert vandamál. „Vinkona mín tekur inn stóra skammta af megrunartöflum og ég þekki líka nokkrar stelpur sem eru haldnar lystarstoli,“ segir Kristín sem er 16 ára. Hún bætir við: „Það er engan veginn hægt að segja að nein þeirra sé of feit.“
Það er ekki að ástæðulausu sem tímaritið FDA Consumer hvetur: „Í stað þess að fara í megrun vegna þess að ‚allir‘ eru í megrun eða vegna þess að þú ert ekki eins grönn og þig langar til að vera, þá skaltu fyrst kanna hjá lækni eða næringarfræðingi hvort þú sért of þung eða hafir of mikla líkamsfitu miðað við aldur og hæð.“
[Mynd á blaðsíðu 15]
Margir, sem hafa áhyggjur af því að vera of feitir, hafa enga ástæðu til þess.