11. námskafli
Samfelld úrvinnsla ræðunnar
1 Gott samhengi auðveldar áheyrendum að fylgjast með ræðu. Hins vegar glatarðu fljótt athygli áheyrenda ef samhengi vantar í ræðuna. Þú þarft því greinilega að gefa gaum að samfelldri úrvinnslu þegar þú undirbýrð ræðu. Þess vegna er „Samhengi með tengiorðum“ einn liður á ráðleggingakortinu.
2 Samhengi er hið sama og efnistengsl, samband og tenging hugmynda í eina rökheild. Oft má ná langleiðina með því að raða efninu í rökrétta röð. Rökrétt niðurröðun nægir þó oftast ekki til að tengja efnið nægilega vel saman. Til að ná fram samhengi þarf að brúa bilið milli efnisþáttanna. Orð eða orðasambönd eru notuð til að sýna tengsl nýrra hugmynda við það sem á undan er komið og brúa bil í tíma og rúmi eða milli ólíkra sjónarmiða. Þessu samhengi má ná með tengiorðum.
3 Inngangur, meginmál og niðurlag ræðunnar eru aðskildir og ólíkir ræðukaflar svo dæmi sé tekið, en þurfa samt að vera vel tengdir. Auk þess þurfa aðalatriði ræðunnar að vera tengd, sérstaklega ef efnisleg tengsl þeirra eru ekki mjög náin. Og stundum þarf aðeins að tengja saman setningar eða efnisgreinar með tengiorðum.
4 Tengiorð. Oft er hægt að byggja brú milli hugmynda með viðeigandi tengiorðum. Nefna má eftirfarandi tengiorð sem dæmi: Auk þess, til viðbótar, enn fremur, þar að auki, sömuleiðis, á svipaðan hátt, þess vegna, af þessum sökum, af því tilefni, þar af leiðandi, með hliðsjón af því sem komið er, þannig, því næst, eftir það, samt sem áður, á hinn bóginn, gagnstætt, þvert á móti, áður fyrr, hingað til, og svo framvegis. Þannig orð tengja vel saman setningar og efnisgreinar.
5 Oft kallar þessi þáttur ræðumennsku þó á meira en einfaldar samtengingar eða tengiorð. Þegar eitt orð eða orðasamband nægir ekki þarf tengingu sem leiðir áheyrendur alla leið yfir bilið á brúnina hinum megin. Þetta getur verið heil setning, málsgrein eða jafnvel tenging í lengra máli.
6 Ein leið til að brúa slíkt bil er að reyna að nota efnið á undan til að kynna það sem á eftir kemur. Við gerum það iðulega í kynningarorðum okkar hús úr húsi.
7 Auk þess að tengja samfelld efnisatriði þarf líka stundum að tengja saman fjarlægari efnisatriði. Til dæmis þarf niðurlag ræðunnar að tengjast inngangsorðunum. Kannski er hægt að nota líkingu eða hugmynd úr inngangsorðunum í niðurlaginu í hvatningarskyni eða til að sýna enn betur fram á tengsl líkingarinnar eða hugmyndarinnar við markmið ræðunnar. Að benda aftur á einhverja þætti líkingar eða hugmyndar með þessum hætti er eins konar samtenging og stuðlar að góðu samhengi.
8 Samhengi við hæfi áheyrenda. Það ræðst að nokkru leyti af áheyrendum hve ítarlegar tengingarnar þurfa að vera. Ekki er svo að skilja að sumir áheyrendur þurfi engar tengingar heldur þurfa þær að vera misítarlegar eftir því hve vel áheyrendur þekkja efnið. Tökum dæmi: Vottar Jehóva eiga auðvelt með að tengja saman ritningarstað um Guðsríki og ritningarstað sem fjallar um endalokatíma þessa núverandi illa heimskerfis. Fyrir mann, sem álítur að ríki Guðs sé hugarástand eða búi í hjartanu, eru tengslin ekki eins auðskilin og þess vegna þarf einhvers konar tengihugmynd til að sýna fram á hver tengslin séu. Starf okkar hús úr húsi kallar stöðugt á slíka aðlögun.
――――◆◆◆◆◆――――
9 „Rökvís, samfelld úrvinnsla“ er náskylt mál og er eitt af þjálfunarstigunum á ráðleggingakortinu. Hún er nauðsynleg til að ræðan sé sannfærandi.
10 Hvað er rökvísi? Í okkar tilviki má segja að rökvísi sé rétt hugsun eða heilbrigð skynsemi. Hún miðlar skilningi af því að hún skýrir innbyrðis samhengi efnisþáttanna. Með rökvísi og rökfestu er sýnt fram á hvers vegna efnisþættirnir eiga saman. Úrvinnslan er samfelld ef það er þannig stígandi í rökfærslunni að allir þættir ræðunnar sameinast í óslitna heild. Efnisröðunin getur verið eftir mikilvægi eða tíma eða þá að farið er frá vandamáli eða viðfangsefni til úrlausnar. Þetta eru aðeins fáein dæmi um rökvísa úrvinnslu.
11 Velja má um tvær meginaðferðir í rökfærslu. (1) Að koma sannleikanum á framfæri og benda síðan á staðreyndir til að sanna hann. (2) Að ráðast beint á ranga kenningu eða viðhorf með þeim afleiðingum að sannleikurinn stendur eftir. Þá er ekki annað eftir en að heimfæra nánar þau sannleiksatriði sem eru til umræðu.
12 Engir tveir ræðumenn rökræða nákvæmlega eins. Frásagnir guðspjallaritaranna fjögurra eru afbragðsdæmi um ólíka efnismeðferð. Fjórir af lærisveinum Jesú rituðu sjálfstæðar frásagnir af þjónustu hans. Þær eru ólíkar en allar rökréttar og rökfastar. Hver um sig vann úr efninu með ákveðið markmið í huga og tókst það vel.
13 Leiðbeinandinn þarf að koma auga á hvert markmið þitt er og leitast síðan við að meta eftir hugmyndasamhenginu hjá þér hvort þér tókst að ná því eða ekki. Þú getur hjálpað honum og áheyrendum með því að láta koma skýrt fram hvert sé markmið ræðunnar, einkum með því hvernig þú kynnir efnið og notar það síðan í niðurlagsorðunum.
14 Rökrétt efnisröðun. Þegar þú raðar niður efninu eða skipuleggur minnispunktana skaltu gæta þess að engin fullyrðing eða hugmynd komi fram án þess að búið sé að leggja grundvöll að henni. Spyrðu þig í sífellu: Hvað er eðlilegast að segja næst? Hvaða spurningu er rökrétt að bera fram á þessu stigi? Og þegar þú hefur fundið viðeigandi spurningu skaltu einfaldlega svara henni. Áheyrendur ættu alltaf að geta sagt: „Ég skil þetta miðað við það sem á undan er komið.“ Ef enginn grundvöllur er lagður má almennt telja að atriðið sé ekki í rökvísu samhengi. Eitthvað vantar.
15 Þegar þú raðar niður efninu skaltu skoða hvaða efnisþættir byggjast hver á öðrum. Þú ættir að reyna að koma auga á innbyrðis tengsl þeirra og raða þeim niður eftir því. Það má líkja þessu við það að byggja hús. Enginn byggingarmeistari reynir að reisa veggina fyrr en grunnurinn er lagður. Hann bíður ekki heldur með raflögnina uns veggirnir eru klæddir og málaðir. Þannig á líka að byggja upp ræðu. Hver einstakur þáttur á að stuðla að góðri og gagnorðri heild, hver á sínum stað og hver þáttur á að bæta við það sem á undan er komið og leggja grunninn að því sem á eftir kemur. Þú ættir alltaf að hafa ástæðu fyrir því hvernig þú raðar efninu í ræðunni.
16 Ekkert óviðkomandi efni. Allt sem þú notar þarf að tengjast ræðunni vel. Annars stingur það í stúf við hana og er henni óviðkomandi.
17 Þótt ákveðið efni virðist fljótt á litið ekki eiga heima í ræðunni úrskurðar leiðbeinandinn ekki gerræðislega að það sé henni óviðkomandi ef því er fléttað vel inn í hana. Vera má að þú hafir valið að taka þetta efni með í ræðuna í ákveðnum tilgangi, og ef það samræmist stefinu, fellur vel inn í ræðuna og er í rökréttu samhengi tekur leiðbeinandinn það til greina.
18 Hvernig geturðu gengið fljótt og auðveldlega úr skugga um hvaða efni á ekki heima í ræðunni? Þar koma efnisorðapunktar að góðum notum. Þeir auðvelda flokkun efnisins. Reyndu að nota spjöld eða eitthvað áþekkt þar sem skylt efni er flokkað saman á sama spjald. Síðan geturðu endurraðað spjöldunum eins og þú telur eðlilegt að flytja efnið. Þessi aðferð hjálpar þér bæði að ákveða hvernig best er að taka á efninu og eins að koma auga á hvaðeina sem er stefinu óviðkomandi. Það sem fellur ekki að samhenginu þarf að laga svo að það geri það, ef það er nauðsynlegur þáttur rökfærslunnar. Ef það er ekki nauðsynlegt er best að sleppa því.
19 Af þessu sést að stef ræðunnar, sem er valið með áheyrendur og markmið í huga, stjórnar því hve mikilvægt ákveðið efni sé. Undir vissum kringumstæðum getur ákveðið atriði verið mikilvægt til að ná fram markmiði ræðunnar þegar tekið er mið af bakgrunni áheyrenda, enda þótt það væri algerlega óþarft fyrir annan áheyrendahóp eða annað stef.
20 Í ljósi þessa má spyrja hversu ítarlega ætti að fara ofan í efni sem þér hefur verið úthlutað. Ekki má fórna rökvísu samhengi ræðunnar til þess eins að komast yfir hvert einasta atriði sem ræðuefnið getur fjallað um. Engu að síður er best að velja umgjörð sem gefur þér færi á að nýta eins mikið af efninu og raunhæft getur talist, því að nemendaræðurnar eru hluti af fræðsluefni skólans. Hins vegar má ekki sleppa því sem telja má nauðsynlegar meginhugmyndir við úrvinnslu stefsins.
21 Engum meginhugmyndum sleppt. Hvernig má sjá hvort ákveðin hugmynd er meginhugmynd eða ekki? Hún er nauðsynleg ef markmið ræðunnar næst ekki án hennar, einkum þegar þú ert að hugsa um rökvísa, samfellda úrvinnslu. Hvað fyndist þér til dæmis um það ef verktaki byggði fyrir þig tveggja hæða hús en sleppti stiganum? Rökfærsla og innra samhengi ræðunnar getur tæplega verið gott ef ýmsum nauðsynlegum atriðum er sleppt. Það vantar eitthvað í hana og sumir áheyrendur tapa áttum. En það gerist ekki þegar úrvinnsla er samfelld og rökvís.
[Spurningar]
1-3. Hve mikilvægt er samhengi í ræðu og hvernig er hægt að ná því?
4-7. Hvað eru tengiorð?
8. Hvaða áhrif hafa áheyrendur á nauðsyn tengiorða til samhengis?
9-13. Hvað er rökvís, samfelld úrvinnsla og hvaða tvær meginaðferðir má nota í rökfærslu?
14, 15. Hvers vegna er afar mikilvægt að raða efninu í rökrétta röð?
16-20. Hvernig er hægt að ganga úr skugga um að ekki sé tekið með annað efni en það sem kemur ræðunni við?
21. Af hverju er áríðandi að engar meginhugmyndir verði útundan?