Námskafli 26
Rökrétt úrvinnsla efnisins
ÁÐUR en hægt er að raða efni í rökrétt samhengi er nauðsynlegt að hafa ákveðið markmið. Er markmiðið einfaldlega að upplýsa aðra um eitthvert mál — trúaratriði, viðhorf, eiginleika, hegðun eða líferni? Viltu sanna eða afsanna ákveðna hugmynd? Ætlarðu að skapa jákvæða afstöðu til einhvers eða hvetja til dáða? Eigi efnið að hafa tilætluð áhrif þarftu að taka mið af því hvað áheyrendur vita um það nú þegar og hvaða afstöðu þeir hafa til þess, og gildir þá einu hvort þeir eru margir eða aðeins einn. Að því búnu skaltu raða efninu þannig að þú náir markmiði þínu.
Postulasagan 9:22 segir að Sál (Páll) hafi gert „Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.“ Hvernig sannaði hann þetta? Frásagan af starfi Páls í Antíokkíu og Þessaloníku ber með sér að hann hafi fyrst byggt á því að Gyðingar viðurkenndu Hebresku ritningarnar og töldu sig trúa því sem þær sögðu um Messías. Síðan valdi hann út úr þessum ritningum vissa kafla sem fjölluðu um ævi og þjónustu Messíasar. Hann vitnaði í þá og bar þá saman við atburði sem áttu sér stað í tengslum við þjónustu Jesú. Að síðustu dró hann þá augljósu ályktun að Jesús væri Kristur eða Messías. (Post. 13:16-41; 17:2, 3) Ef þú setur sannleika Biblíunnar rökrétt fram eins og Páll, getur hann líka verið sannfærandi fyrir aðra.
Að skipuleggja ræðuna. Hægt er að raða upp efni á marga rökrétta vegu, og það má blanda aðferðunum saman ef það hentar. Lítum á nokkra möguleika.
Raðað eftir viðfangsefni. Þessi niðurröðun byggist á því að skipta efninu niður í kafla sem hver um sig er skref í átt að markmiðinu sem þú ætlar að ná. Kaflaskiptingin getur miðast við aðalatriðin sem eru nauðsynleg til að skilja efnið. Þetta geta líka verið ákveðin rök sem sanna eitthvað eða afsanna. Þú getur síðan aukið einhverju við sem tengist efninu eða sleppt því eftir því sem hentar miðað við áheyrendur og markmið.
Tökum dæmi um niðurröðun eftir viðfangsefni. Stutt ræða um nafn Guðs gæti skipst í (1) hvers vegna það er mikilvægt að þekkja Guð með nafni, (2) hvað Guð heitir og (3) hvernig við getum heiðrað nafn hans.
Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur samið ýmis rit sem ætluð eru til kennslu í heimahúsum og það má læra margt af þeim um niðurröðun eftir efni. (Matt. 24:45) Þau skiptast að jafnaði í marga efnisflokka sem gefa nemendum yfirlit yfir helstu sannindi Biblíunnar. Í viðameiri ritunum er köflum skipt niður með millifyrirsögnum. Hver efnisflokkur býr nemandann undir framhaldið og er ákveðinn dráttur í heildarmynd.
Orsök og afleiðing. Önnur leið til að raða efni rökrétt er að tengja saman orsök og afleiðingu.
Þessi aðferð gæti verið heppileg ef þú ert að tala við hóp eða einstaklinga sem þurfa að hugleiða betur afleiðingar þess sem þeir eru að gera eða áforma. Sjöundi kafli Orðskviðanna er prýðisdæmi um þetta. Þar er lýst óreyndum, ungum manni sem er „vitstola“ (orsökin) og lendir í slagtogi við vændiskonu með hrikalegum eftirköstum (afleiðingin). — Orðskv. 7:7.
Í áhersluskyni gætirðu borið saman hinar slæmu afleiðingar af því að ganga ekki á vegum Jehóva og blessunina sem hlýst af því að hlýða á hann. Undir áhrifum anda Jehóva gerði Móse slíkan samanburð er hann ávarpaði Ísraelsmenn áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið. — 5. Mós. 28. kafli.
Stundum er betra að byrja á því að benda á eitthvert ástand (afleiðingin) og koma síðan með rök sem benda á ástæðuna (orsökin). Þetta er oft gert með því að ræða um vandamál og lausn.
Vandamál og lausn. Í boðunarstarfinu geturðu hvatt fólk til að hlusta með því að minnast á vandamál sem er ofarlega á baugi og benda síðan á að til sé góð lausn á því. Það skiptir ekki máli hvort það ert þú eða viðmælandinn sem bryddar upp á vandamálinu.
Vandamálin geta verið margs konar, til dæmis að fólk hrörnar og deyr, útbreiddir glæpir eða algengt óréttlæti. Slík vandamál eru augljós þannig að það þarf ekki að eyða mörgum orðum í að sýna fram á þau. Það er nóg að minnast örstutt á vandamálið og benda síðan á þá lausn sem Biblían segir frá.
Vandamálin geta einnig verið persónulegs eðlis, til dæmis þrautir einstæðs foreldris, depurð af völdum alvarlegra veikinda eða þrautir sem rekja má til harðneskju annarra manna. Þú þarft að hlusta vel á viðmælandann til að geta svarað sem best. Biblían veitir verðmætar upplýsingar um öll þessi vandamál en þú þarft að sýna góða dómgreind til að beita þeim rétt. Þú þarft að vera raunsær til að viðmælandinn hafi raunverulega gagn af því sem þú segir. Láttu koma skýrt fram hvort þú ert að ræða um varanlega lausn vandans, skammtímalausn eða ábendingar um hvernig hægt sé að takast á við erfiðleika sem verður ekki breytt í þessu heimskerfi. Þú þarft með öðrum orðum að gæta þess vel að hin biblíulegu rök, sem þú leggur fram, nægi til að styðja þær ályktanir sem þú dregur. Ef ekki gæti lausnin, sem þú bendir á, virkað allsendis órökrétt á viðmælanda þinn.
Tímaröð. Sumt efni er þess eðlis að það hentar vel að setja það fram í tímaröð. Önnur Mósebók lýsir plágunum tíu til dæmis í tímaröð. Í ellefta kafla Hebreabréfsins ræðir Páll líka í tímaröð um karla og konur sem báru af fyrir trú sína.
Þú getur auðveldað áheyrendum að skilja hvernig ákveðnar aðstæður sköpuðust með því að segja frá liðnum atburðum í tímaröð. Þetta gildir jafnt um nútímasögu og biblíutímann. Tímaröð getur verið ágæt leið til að benda á orsök og afleiðingu. Ef þú ætlar að útlista atburði sem Biblían segir munu eiga sér stað í framtíðinni eiga áheyrendur sennilega auðveldast með að fylgja atburðarásinni og muna hana ef þú setur hana fram í tímaröð.
Tímaröð útheimtir ekki endilega að það sé alltaf byrjað á byrjuninni. Stundum virkar betur að hefja frásöguna á einhverjum áhrifamiklum punkti í miðri atburðarásinni. Til dæmis mætti hefja reynslufrásögu á því að lýsa hvernig reyndi á trúfesti einhvers við Guð. Eftir að hafa vakið áhuga með því að nefna þennan þátt frásögunnar gætirðu rakið í tímaröð aðdraganda þess atburðar sem þú hófst máls á.
Ekkert óviðkomandi efni. Hvernig sem þú raðar efninu niður skaltu gæta þess að vera ekki með neitt óviðkomandi efni. Ræðustefið ætti að hafa nokkur áhrif á efnisvalið og þú ættir einnig að hafa hliðsjón af því hverjir eiga eftir að hlusta á þig. Eitt ákveðið atriði getur verið mjög þýðingarmikið fyrir vissan áheyrendahóp en algerlega óþarft fyrir annan. Þú verður líka að gæta þess að allt efnið, sem þú notar, séu skref í átt að markmiði þínu. Annars getur ræðan orðið áhrifalítil enda þótt efnið sé athyglisvert að öðru leyti.
Þú finnur eflaust mikið af áhugaverðu efni þegar þú leitar fanga í ræðuna. Hve mikið af því ættirðu að nota? Þú mátt ekki drekkja áheyrendum í upplýsingum; þá missir ræðan marks. Þeir muna miklu betur eftir fáeinum aðalhugmyndum, ef þú vinnur vel úr þeim, heldur en ógrynni hugmynda í stríðum straumum. Ekki svo að skilja að það megi aldrei skjóta inn athyglisverðum aukaatriðum, en þau mega ekki skyggja á meginmarkmið ræðunnar. Þú sérð til dæmis hvernig ýmsum aukaupplýsingum er skotið snyrtilega inn í frásögurnar í Markúsi 7:3, 4 og Jóhannesi 4:1-3, 7-9.
Þegar þú ferð frá einu atriði yfir í annað skaltu gæta þess að umskiptin séu ekki svo snögg að áheyrendur missi þráðinn. Þú gætir þurft að brúa bilið milli hugmynda til að þær vinni vel saman. Brúin getur verið ein setning eða heil málsgrein sem sýnir hvernig hugmyndirnar tengjast. Í mörgum tungumálum eru til einföld tengiorð og orðasambönd sem nota má til að brúa bilið milli nýrrar hugmyndar og þess sem á undan er farið.
Notaðu aðeins efni sem kemur viðfangsefninu við og raðaðu því rökrétt. Þannig auðveldarðu sjálfum þér að ná markmiði þínu.