13. námskafli
Merkingaráherslur og raddbrigði
1 Merkingaráherslur og raddbrigði gera mál okkar innihaldsríkt og litríkt. Án þeirra brenglast merkingin og áhugi áheyrenda dvínar. Áherslur eru yfirleitt auðveldari viðfangs af þessu tvennu þannig að við beinum athyglinni fyrst að þeim.
2 Hafðu hugfast hverju merkingaráherslur geta áorkað. Þær halda á loft orðum eða hugmyndum þannig að merkingin komist rétt til skila og túlka innbyrðis mikilvægi þeirra. Stundum þarf ekki að hugsa um annað en sterka eða veika áherslu en stundum þarf fínni blæbrigði.
3 Áhersla á aðalorð setningarinnar. Til að leggja áherslu á réttu orðin innan setningarinnar þarftu að átta þig á hvaða orð fela í sér aðalhugsunina og láta þau svo skera sig úr. Ef áhersla er lögð á annað en aðalorð setningarinnar verður merkingin óskýr eða brenglast.
4 Flestir eiga auðvelt með að gera sig skiljanlega í daglegu tali. Ef þú hefur ekki einhvern sérstakan ávana, til dæmis þann að leggja áherslu á forsetningar, á þessi þáttur góðrar ræðumennsku ekki að valda þér teljandi erfiðleikum. Áberandi veikleikar á þessu sviði stafa yfirleitt af einhverjum slíkum ávana. Leggðu þig vel fram ef þú átt við þennan vanda að glíma. Yfirleitt er ekki hægt að losna við slíkan ávana í einni eða tveim ræðum, þannig að leiðbeinandinn stöðvar þig ekki þar ef áherslurnar eru ekki svo slæmar að þær brengli merkinguna. En til þess að geta talað á sem áhrifaríkastan hátt skaltu halda áfram að vinna að þessum þætti góðrar ræðumennsku uns þú hefur náð fullum tökum á réttum áherslum.
5 Venjulega þarf að gefa meiri gaum að merkingaráherslum við undirbúning á upplestri en þegar talað er blaðalaust. Þetta gildir bæði um lestur ritningarstaða í ræðu og lestur greinanna í Varðturnsnámi safnaðarins. Ástæðan fyrir því að gefa þarf meiri gaum að merkingaráherslum í upplestri er sú að við erum yfirleitt að lesa texta sem er skrifaður af öðrum. Þess vegna þurfum við að kynna okkur hann vel, brjóta hugsunina til mergjar og endurtaka orðalagið uns okkur verður það tamt.
6 En hvernig eru áherslur látnar í ljós? Um ýmsar leiðir er að velja og þeim er oft blandað saman. Þar má nefna að hækka róminn, breyta tónhæð, tala hægt og yfirvegað, auka hraðann, gera málhvíld á undan eða eftir því sem sagt er (eða hvort tveggja), tala af meiri krafti eða tilfinningu og auk þess sýna tilburði og svipbrigði.
7 Í fyrstu skaltu einbeita þér að því að leggja næga áherslu á lykilorðin til að þau skeri sig úr. Þegar þú undirbýrð ræðuna er því gott að strika undir lykilorðin ef þú lest ræðuna upp. Ef ræðan er handritslaus skaltu fullmóta hugmyndirnar í huga þér. Hafðu lykilorðin á minnisblaði og leggðu síðan áherslu á þau.
8 Áhersla á aðalhugmyndir ræðunnar. Algengast er að þessi áhersluþáttur verði útundan en þá eru engir hátindar í ræðunni. Ekkert eitt sker sig úr. Þegar ræðunni er lokið er oft útilokað að muna eitt umfram annað. Jafnvel þótt unnið sé úr aðalatriðunum þannig að þau skeri sig úr geta ónógar áherslur í flutningi veikt þau svo að þau glatist.
9 Til að sigrast á þessum vanda þarftu fyrst að brjóta efnið til mergjar. Hvað er mikilvægast í ræðunni? Hvað er næstmikilvægast? Hvað myndirðu segja ef þú værir beðinn að lýsa kjarna ræðunnar í einni eða tveim setningum? Það er ein besta leiðin til að finna aðalatriðin. Þegar þau eru fundin skaltu merkja við þau á minnisblöðunum eða handritinu. Nú geturðu haft stíganda og hástig í ræðunni á þessum stöðum. Þetta eru hápunktar ræðunnar og sé ræðuefnið vel unnið og flutt með sterkum og breytilegum áherslum muna áheyrendur aðalatriðin. Og er það tilgangur ræðunnar.
――――◆◆◆◆◆――――
10 Einfaldar merkingaráherslur auðvelda áheyrendum að skilja það sem þú segir en raddbrigði með fjölbreyttum áherslum gera það ánægjulegt áheyrnar. Hefurðu fjölbreytt raddbrigði þegar þú talar í boðunarstarfinu og í ræðum sem þér er falið að flytja í söfnuðinum?
11 Raddbrigði eru breytingar á tónhæð, talhraða og raddstyrk. Þau gegna því hlutverki að halda athygli áheyrenda og tjá breytilegar tilfinningar þínar og hugmyndir. Til að þjóna þér best þurfa raddbrigðin að spanna allt það svið sem ræðuefnið býður upp á. Efst á raddbrigðakvarðanum gæti verið spenna, síðan ákafi og loks mikill áhugi. Á miðjum kvarðanum er hóflegur áhugi en neðst alvara og hátíðleiki.
12 Framsögn ætti aldrei að vera svo ýkt að hún verði tilgerðarleg. Mál okkar á að vera litríkt en laust við helgitón presta og móðursýkisofsa vakningarprédikara. Viðeigandi virðing og auðmýkt gagnvart fagnaðarerindinu um ríkið kemur í veg fyrir alla slíka ókristilega framkomu.
13 Breytilegur raddstyrkur. Breytilegur raddstyrkur er trúlega einföldustu raddbrigðin. Það er ein leiðin til að ná stíganda og leggja áherslu á aðalatriði ræðunnar. En það er ekki alltaf nóg að hækka róminn til að láta aðalatriðin skera sig úr. Það ber kannski meira á þeim ef þú hækkar róminn, en þú getur ónýtt það sem þú ætlar þér með því að gera það. Kannski kemst viðkomandi atriði betur til skila með hlýju og tilfinningu en með sterkri rödd. Lækkaðu þá róminn en vertu ákafari. Sama á við ef þú ert að túlka áhyggjur eða ótta.
14 Þó svo að breytilegur raddstyrkur sé hluti raddbrigða skal þess gætt að tala ekki svo lágt að sumir heyri ekki. Og röddin má ekki verða óþægilega sterk.
15 Breytilegur hraði. Fæstir nýir ræðumenn tala með breytilegum hraða á ræðupallinum. Við gerum það sífellt í daglegu tali því að orðin spretta ósjálfrátt af hugsun og þörf. En byrjandi í ræðumennsku leyfir sér yfirleitt ekki slíkt. Hann undirbýr orð og setningar um of þannig að orðin koma öll með sama hraða. Þess vegna er mikil hjálp að tala eftir minnisblöðum.
16 Þú ættir að flytja meginhluta ræðunnar á hóflegum hraða. Smáatriði, frásagnir, flestar líkingar og annað þess háttar gefur þér færi á að auka hraðann. Við mikilvæg rök, aðalatriði og hátinda í ræðunni er yfirleitt gott að hægja á sér. Í sumum tilvikum geturðu jafnvel talað mjög hægt og lagt áherslu á hvert orð. Þú getur jafnvel þagnað algerlega og gert málhvíld.
17 Nokkur orð til viðvörunar. Talaðu aldrei svo hratt að það komi niður á framsögninni. Það er ljómandi góð æfing að lesa upphátt eins hratt og þú getur án þess að hnjóta um orðin. Lestu sama efni aftur og aftur og auktu hraðann jafnt og þétt án þess að hrasa eða láta orðin renna saman. Lestu svo eins hægt og þú getur án þess þó að klippa orðin sundur. Talaðu svo rykkjótt, ýmist hægt eða hratt, uns röddin verður sveigjanleg og hlýðir þér í einu og öllu. Nú breytirðu hraðanum ósjálfrátt og í samræmi við merkingu þess sem þú ert að segja.
18 Breytileg tónhæð. Breytileg tónhæð, það er að segja töluverðar sveiflur í tónhæðinni, er líklega erfiðustu raddbrigðin. Auðvitað erum við sífellt að leggja áherslu á orð okkar með því að auka tónhæðina örlítið, yfirleitt samhliða auknum raddstyrk. Við hnykkjum á orðunum ef svo má segja.
19 En til að beita þessum raddbrigðum þarftu að breyta tónhæðinni meira. Prófaðu að lesa 1. Mósebók 18:3-8 og 19:6-9 upphátt. Þú tekur eftir að það þarf talsverðar sveiflur bæði í hraða og tónhæð í þessum versum. Ákafi og eldmóður er alltaf tjáður með hærri tón en sorg eða áhyggjur. Þegar þess konar tilfinningar koma fyrir í efninu þarftu að tjá þær eðlilega.
20 Takmarkað raddsvið er ein algengasta ástæðan fyrir veikleika á þessu sviði. Leggðu þig fram ef það er vandamál hjá þér. Reyndu að æfa þig líkt og stungið er upp á fyrr í þessum námskafla. En æfðu þig þá frekar í að breyta tónhæðinni en hraðanum.
21 Raddbrigði eftir efni eða tilfinningu. Eins og fram hefur komið í umfjöllun okkar um þennan eiginleika er ljóst að raddbrigði eiga ekki aðeins að vera til fjölbreytni. Framsögnin verður að samræmast því hugarástandi sem efnið túlkar. Hvenær áttu þá að byrja að hugsa um raddbrigði? Greinilega um leið og þú byrjar að undirbúa efnið til flutnings. Ef ræðan er aðeins rökfærslur eða áminningar býður hún eðlilega upp á takmarkaða fjölbreytni í flutningi. Grannskoðaðu því minnispunktana þegar þú ert búinn að semja ræðuna og fullvissaðu þig um að þú hafir þar allt það efni sem þarf fyrir litríkan og innihaldsríkan flutning.
22 En stundum getur þér fundist í miðri ræðu að þú þurfir að breyta hraðanum. Þér finnst ræðan langdregin. Hvað geturðu gert? Þá kemur sér vel að hafa einungis minnispunkta að ræðunni en hafa hana ekki orðrétta á blaði. Þá geturðu breytt eðli efnisins meðan á flutningi stendur. Hvernig? Ein leiðin er sú að hætta að tala og lesa í staðinn ritningarstað upp úr Biblíunni. Þú gætir líka breytt fullyrðingu í spurningu og gert svo málhvíld í áhersluskyni. Kannski gætirðu skotið inn líkingu og lagað hana að rökfærslu í minnispunktunum.
23 Það er auðvitað aðeins á færi reyndra ræðumanna að beita þess háttar tækni meðan á ræðu stendur. En þú getur notfært þér þessar tillögur þegar þú undirbýrð ræðuna.
24 Sagt er að raddbrigði séu krydd ræðunnar. Ef notuð eru rétt raddbrigði og í réttum mæli draga þau vel fram keim efnisins og eru áheyrendum yndisauki.
[Spurningar]
1, 2. Hvaða tilgangi þjóna merkingaráherslur í ræðuflutningi?
3-7. Hvernig er hægt að læra góðar merkingaráherslur?
8, 9. Af hverju er mikilvægt að leggja áherslu á aðalatriðin?
10-12. Hvað eru raddbrigði?
13, 14. Hvað er átt við með breytilegum raddstyrk?
15-17. Hvernig auðgar breytilegur hraði ræðuna?
18-20. Útskýrðu hvernig hægt er að temja sér breytilega tónhæð.
21-24. Hvers vegna verða raddbrigði að hæfa hugsun eða tilfinningu?