Námskafli 9
Raddbrigði
EINFALDAR merkingaráherslur auðvelda áheyrendum að skilja það sem þú segir en góð tilbrigði í raddstyrk, talhraða og tónhæð gera ræðuna mun ánægjulegri áheyrnar. Og það sem meira er, þau gefa áheyrendum til kynna hvað þér finnst um það sem þú ert að segja. Afstaða þín til efnisins getur haft áhrif á afstöðu þeirra til þess, hvort sem þú flytur mál þitt af ræðupallinum eða ert að tala við eina manneskju í boðunarstarfinu.
Mannsröddin er undraverkfæri og einstaklega fjölhæf. Sé henni rétt beitt getur hún lífgað ræðu, snortið hjartað, hreyft við tilfinningunum og hvatt til dáða. En það gerist ekki með því einu að merkja við á minnisblaðinu hvar á að hækka eða lækka róminn og hvar á að breyta hraða eða tónhæð. Slík raddbrigði myndu hljóma tilgerðarleg. Þau myndu ekki lífga og krydda flutninginn heldur vera óþægileg fyrir áheyrendur. Viðeigandi raddbrigði þurfa að spretta frá hjartanu.
Sé raddbrigðum vel beitt draga þau ekki óeðlilega athygli að ræðumanninum heldur auðvelda áheyrendum að átta sig á hugsuninni sem hann vill koma á framfæri.
Styrkleikabreyting. Breytilegur raddstyrkur er eitt form raddbrigða. En hugmyndin er ekki sú að hækka og lækka róminn á víxl, kerfisbundið og taktfast. Það myndi brengla merkingu þess sem þú ert að segja. Það væri fremur óþægilegt áheyrnar ef þú hækkaðir róminn of oft.
Raddstyrkurinn þarf að hæfa efninu. Sértu að lesa áríðandi fyrirskipun eins og í Opinberunarbókinni 14:6, 7 eða Opinberunarbókinni 18:4, eða orð sem túlka óbifanlega sannfæringu eins og í 2. Mósebók 14:13, 14, þarftu að hækka róminn í samræmi við það. Og sértu að lesa upp harða fordæmingu í Biblíunni, eins og til dæmis í Jeremía 25:27-38, þarftu að láta ákveðin orð skera sig úr heildinni með því að hækka róminn.
Hugsaðu jafnframt um hverju þú vilt áorka. Langar þig til að hvetja áheyrendur til dáða? Viltu láta aðalatriði ræðunnar standa upp úr? Þú getur náð þessu fram með því að hækka róminn hæfilega á viðeigandi stöðum. En þú gætir líka misst algerlega marks með því að hækka róminn ef efnið er þess eðlis að hlýja og tilfinning ætti betur við. Fjallað verður nánar um þetta í 11. námskafla.
Með því að lækka róminn er hægt að ná fram eftirvæntingu ef rétt er að farið. En yfirleitt þarf þá að auka kraftinn strax á eftir. Hægt er að ná fram kvíða- eða óttatilfinningu með því að lækka róminn en sýna jafnframt meiri ákafa. Og með því að lækka róminn er einnig hægt að gefa til kynna að það sem nú er sagt sé ekki jafnmikilvægt og það sem þú sagðir á undan eða segir næst. En þú mátt ekki tala með lágum rómi að jafnaði því að það getur gefið til kynna að þú sért óöruggur eða í vafa, eða hafir takmarkaðan áhuga á efninu. Ljóst er að beita þarf lága rómnum með vissri varúð.
Hraðabreyting. Orð kvikna sjálfkrafa af hugsun okkar þegar við tölum dags daglega. Við höfum tilhneigingu til að tala hratt þegar við erum spennt eða áköf. Þegar við viljum að aðrir muni nákvæmlega hvað við segjum tölum við hins vegar hægt og skýrt.
Þegar á ræðupallinn er komið eiga byrjendur hins vegar erfitt með að breyta hraðanum. Hvers vegna? Vegna þess að þeir einbeita sér um of að orðalaginu. Kannski skrifa þeir ræðuna orð fyrir orð eða leggja hana næstum orðrétt á minnið með þeim afleiðingum að þeir flytja hana með taktföstum hraða. Úr þessu má bæta með því að læra að flytja ræðu eftir uppkasti.
Þess ber þó að gæta að auka ekki hraðann svo skyndilega að það minni á kött sem tekur á rás þegar hann kemur auga á hund. Og talaðu aldrei svo hratt að það komi niður á framsögninni.
Með hraðabreytingum er ekki átt við það að auka hraðann og hægja á með jöfnu millibili. Það spillir fyrir flutningnum fremur en bætir hann. Hraðabreytingar þurfa að haldast í hendur við efnið, tilfinninguna sem þú vilt koma til skila og markmið þitt. Flyttu ræðuna með hóflegum hraða. Auktu hraðann til að ná fram spenningi, rétt eins og þú myndir gera í daglegu tali. Hraðaaukning er líka viðeigandi þegar þú nefnir eitthvert aukaatriði eða segir frá atburðum þar sem smáatriði skipta ekki öllu máli. Þetta eykur á fjölbreytnina og kemur í veg fyrir að ræðan virki alvarleg um of. Hins vegar er oftast heppilegt að hægja á þegar kemur að mikilvægum röksemdum, aðalatriðum og toppum í flutningnum.
Tónbreyting. Ímyndaðu þér manneskju leika á hljóðfæri í klukkustund en alltaf sömu nótuna — ýmist sterkt eða veikt og hratt eða hægt. Styrkurinn og hraðinn er breytilegur en tónninn alltaf sá sami. Þetta þætti ekki sérstök „tónlist.“ Við værum ekki heldur skemmtileg áheyrnar ef við töluðum alltaf með sömu tónhæð.
Í sumum tungumálum, til dæmis kínversku, gegna tónbreytingar þó öðru hlutverki. Þar er tónhæð merkingargreinandi þannig að merking orðs getur breyst með tónhæð. En slík tungumál bjóða einnig upp á ýmsar leiðir til blæ- og raddbrigða í mæltu máli. Hægt er að breikka raddsviðið en halda óbreyttum tónhlutföllum. Þannig má auka blæbrigðin með því að hækka hæstu tónana og lækka þá lægstu.
Í tungumálum, þar sem tónhæð er ekki merkingargreinandi, er engu að síður hægt að koma ýmsu til skila með því að breyta tónhæðinni. Til dæmis er viss áhersla fólgin í því að hækka tóninn og röddina lítillega í senn. Það má lýsa stærð eða fjarlægð með því að breyta tónhæðinni. Hægt er að gefa til kynna að verið sé að spyrja spurningar með því að hækka tóninn í enda málsgreinar. Í sumum tungumálum er hið sama gefið til kynna með því að lækka tóninn.
Hægt er að tjá spenning eða ákafa með því að hækka tóninn og hryggð eða áhyggjur með því að lækka hann. Þetta eru tilfinningar sem geta snortið hjörtu áheyrenda. Ef þú vilt koma þeim á framfæri er ekki nóg að segja orðin heldur þarftu að beita röddinni þannig að það heyrist að þér er þannig innanbrjósts.
Að leggja grundvöllinn. Hvenær byrjar maður að hugsa um raddbrigðin? Það gerist í rauninni samhliða því að velja efni í ræðuna. Ef ræðan er lítið annað en röksemdafærslur eða ekkert nema hvatning og fortölur er lítið svigrúm fyrir fjölbreytni í flutningnum. Þú ættir því að brjóta uppkastið til mergjar og fullvissa þig um að þú hafir allt sem þarf til að flytja líflega og fræðandi ræðu.
En setjum sem svo að þér finnist í miðri ræðu að hún sé langdregin. Hvað geturðu þá gert til að lífga upp á hana? Þú gætir breytt um flutningsform, til dæmis með því að opna Biblíuna, biðja áheyrendur að gera það líka og lesa upp ritningarstað í stað þess að halda áfram að tala. Þú gætir líka breytt fullyrðingu í spurningu og gert málhvíld til áhersluauka. Skjóttu inn einföldu dæmi eða líkingu. Reyndir ræðumenn gera þetta. En hvort sem þú ert reyndur eða ekki geturðu nýtt þér þessar hugmyndir við undirbúninginn.
Segja má að raddbrigði séu kryddið í ræðunni. Ef notuð eru rétt raddbrigði í hæfilegu magni draga þau vel fram keim og bragð efnisins og eru áheyrendum til yndisauka.