4. námskafli
Raddstyrkur og þagnir
1 Ef ekki heyrist vel til þín fer það sem þú segir fyrir ofan garð og neðan. Talir þú hins vegar of hátt getur það verið óþægilegt fyrir áheyrendur og dregið úr áhrifum þess góða efnis sem þú hefur undirbúið. Í sumum ríkissölum vill brenna við að þeir sem sitja aftast heyri ekki svör þeirra sem sitja fremst. Hæfilegur raddstyrkur skiptir því miklu máli. Fyrir kemur að sá sem stendur á ræðupallinum talar ekki nægilega hátt þannig að hann nær ekki til áheyrenda sinna. Í boðunarstarfinu hittum við einnig fólk sem heyrir illa og stundum þurfum við að yfirgnæfa hávaða, ýmist innan úr íbúðinni þar sem við knúðum dyra eða utan frá. Allt minnir þetta á að hæfilegur raddstyrkur skiptir miklu máli.
2 Nægur til að heyrast vel. Til að kanna hve raddstyrkur þarf að vera mikill er best að spyrja fyrst: Var hann nægur? Með öðrum orðum, heyrðist til þín í öftustu sætaröð án þess að það væri yfirgnæfandi fyrir þá sem sátu fremst? Nýr nemandi gæti látið sér nægja að hugsa um þetta, en lengra komnir nemendur ættu einnig að leitast við að ná valdi á leiðbeiningunum hér á eftir. Skólahirðirinn þarf að dæma um hve mikið þurfi að leiðbeina hverjum einstökum nemanda á þessu sviði.
3 Hæfilegur raddstyrkur miðað við aðstæður. Ræðumaður verður að hafa í huga að hann þarf að tala við breytilegar aðstæður. Það styrkir dómgreind hans, gerir hann sveigjanlegri og auðveldar honum að ná til áheyrenda sinna og halda athygli þeirra.
4 Aðstæður eru breytilegar eftir salarkynnum og áheyrendafjölda. Þú þarft að stjórna raddstyrknum til að ráða við ýmsar aðstæður. Það þarf meiri raddstyrk til að flytja ræðu í ríkissalnum en heima í stofu hjá áhugasömum manni. Og það þarf ekki að tala með eins sterkri röddu við lítinn hóp framarlega í salnum, til dæmis í samansöfnun fyrir boðunarstarfið, eins og fyrir fullum sal á þjónustusamkomu.
5 En jafnvel þessar aðstæður eru breytingum háðar. Skyndilegur hávaði getur orðið í salnum eða utan hans. Bifreið ekur hjá, flugvél flýgur yfir, hundgá heyrist í grenndinni, barn grætur eða einhver kemur seint á samkomu — allt þetta kallar á breytilegan raddstyrk. Ef þú tekur ekki mið af því og hækkar róminn þegar við á getur sumt farið fram hjá áheyrendum, kannski þýðingarmikið efni.
6 Margir söfnuðir hafa magnarakerfi. En ef ekki er rétt að farið og miklar sveiflur eru í raddstyrk getur nemandinn þurft tilsögn í því hvernig taka eigi mið af þessum aðstæðum.
7 Sumir eru með þannig rödd að þeir eiga erfitt með að ná góðum tökum á raddstyrknum. Ef það er vandamál hjá þér og rödd þín berst illa tekur skólahirðirinn mið af því þegar hann segir þér til. Hann gæti stungið upp á vissri raddþjálfun eða æfingum til að hjálpa þér að þroska og styrkja röddina. Raddgæðin sem slík eru hins vegar sjálfstætt þjálfunarmarkmið og verða ekki skoðuð sérstaklega í tengslum við raddstyrk.
8 Ekki er hægt að dæma um allar hugsanlegar aðstæður út frá einni ræðu. Tilsögnin ætti aðeins að taka mið af nýfluttri ræðu, ekki öllum hugsanlegum aðstæðum sem upp gætu komið. Ef ástæða er til gæti skólahirðirinn engu að síður varað nemandann við hugsanlegum erfiðleikum sem hann gæti lent í við ólíkar aðstæður, jafnvel þótt hann fái hrós fyrir ræðuna og „G“ á ráðleggingakortið.
9 Hvernig getur nemandi gengið úr skugga um að hann tali nægilega hátt? Viðbrögð áheyrenda eru einn besti mælikvarðinn. Reyndur ræðumaður fylgist vel með áheyrendum aftast í salnum þegar hann fer með inngangsorðin og sér af svip þeirra og látbragði hvort þeir heyra vel. Hann breytir svo raddstyrk eftir því. Þegar hann hefur áttað sig á hljómburði salarins er sá vandi leystur.
10 Önnur leið er að fylgjast með öðrum ræðumönnum á dagskránni. Heyrist vel í þeim? Hve hátt tala þeir? Líktu síðan eftir þeim.
11 Raddstyrkur hæfir efninu. Þessu má ekki rugla saman við raddbrigði. Sem stendur erum við eingöngu að hugsa um að laga raddstyrk að efninu sem verið er að flytja. Ef nemandi er til dæmis að lesa fordæmingarorð upp úr Ritningunni þarf hann augljóslega að lesa með öðrum raddstyrk en ef hann er að lesa upp ráðleggingar um kærleika meðal bræðra. Berðu Jesaja 36:11 saman við vers 12 og 13 og hugleiddu með hve ólíkum hætti þessu tvennu hlýtur að hafa verið komið á framfæri. Raddstyrkur verður að hæfa efninu en samt má aldrei ofgera.
12 Þegar þú ákveður raddstyrk skaltu hugleiða bæði efnið og markmið þín. Viljir þú breyta hugsunarhætti áheyrenda skaltu ekki fæla þá frá þér með því að tala of hátt. En viljir þú hins vegar hvetja þá til dáða máttu kannski tala með sterkari röddu. Ef efnið krefst styrkleika skaltu ekki veikja það með því að tala of lágt.
――――◆◆◆◆◆――――
13 Þagnir eða málhvíld á réttum stöðum eru næstum jafnmikilvægar í ræðuflutningi og hæfilegur raddstyrkur. Án þeirra getur merking orða þinna hæglega orðið óljós og aðalatriðin, sem áheyrendur eiga að muna, sitja ekki eftir til langframa. Þagnir veita þér sjálfstraust og jafnvægi og auðvelda þér að stjórna öndun og að halda ró þinni í erfiðum köflum í ræðunni. Þagnir sýna áheyrendum að þú hafir töglin og hagldirnar, að þú sért ekki óþarflega taugaóstyrkur, að þú takir tillit til þeirra og að þú hafir eitthvað fram að færa sem þú vilt að þeir heyri og muni.
14 Nýr ræðumaður ætti ekki að draga það að læra að beita þögnum. Fyrst þarftu að vera sannfærður um að það sem þú hefur að segja sé áríðandi og viljir að eftir því sé munað. Móðir, sem leiðréttir barn sitt, hefur stundum formála að orðum sínum til að ná athygli þess. Hún segir ekki orð til viðbótar fyrr en barnið fylgist vel með. Þá segir hún það sem henni býr í brjósti. Hún vill vera viss um að barnið hunsi ekki það sem hún segir heldur muni eftir því.
15 Sumir gera aldrei málhvíld, jafnvel í daglegu tali. Ef þú ert þannig ættirðu að vilja leggja rækt við þennan eiginleika til að ná betri árangri í boðunarstarfinu. Þar tölum við í formi samræðna. Það þarf rétta þagnbeitingu til að viðmælandi þinn grípi ekki fram í heldur hlusti og bíði. En það er jafnnauðsynlegt og jafngefandi að vera leikinn í að beita þögnum í samræðum og á ræðupallinum.
16 Það er erfitt að gera málhvíldir í fyrirlestri ef efnið er of mikið. Forðastu því að hafa of mikið efni. Ætlaðu þér tíma fyrir þagnir; þær eru ómissandi.
17 Þagnir við greinarmerki. Þagnir við greinarmerki eru einkum til skýrleika og til að afmarka skyldar hugmyndir, orðasambönd og greinar og gera skil milli setninga og málsgreina. Oft má afmarka slík skil með hrynjandi eða raddblæ, en þagnir eru líka áhrifaríkar. Þær eru eins konar munnleg greinarmerki. Og líkt og það er munur á kommu og punkti milli setninga og málsgreina, eins ættu þagnir að vera breytilegar eftir því sem við á.
18 Þögn á röngum stað getur gerbreytt merkingunni. Orð Jesú í Lúkasi 23:43 í íslensku biblíunni eru ágætis dæmi um það. Í gríska textanum eru engar kommur, og merking textans gerbreytist eftir því hvort gerð er málhvíld á undan orðunum „í dag“ eða eftir, eins og sannast af almennri rangtúlkun þessarar ritningargreinar.samið eftir sgD Réttar þagnir eru því ómissandi til að koma efninu rétt til skila.
19 Temdu þér að gefa gaum að öllum greinarmerkjum í lestri. Þannig geturðu lært að setja munnleg greinarmerki þegar þú flytur ræðu eftir minnispunktum. Komman er eina greinarmerkið sem stundum má líta fram hjá í lestri. Stundum er valfrjálst hvort gerð er þögn við kommu eða ekki. Hins vegar verður alltaf að virða semíkommur, punkta, gæsalappir og greinaskil.
20 Gott getur verið að merkja við í handriti eða biblíukafla þar sem þú ætlar að gera málhvíld í lestri. Gerðu stutt, lóðrétt strik milli orða þar sem þú vilt skjóta inn stuttri málhvíld (jafnvel aðeins smáhiki) en tvö strik eða „X“ fyrir lengri málhvíld.
21 Ef þér gengur hins vegar illa að koma sumum setningum á framfæri þegar þú æfir þig og gerir stöðugt málhvíld á röngum stöðum, þá gætirðu tengt saman með blýantsstrikum öll orð sem mynda orðasamband eða setningarlið. Þegar þú síðan lest skaltu hvorki hika né gera málhvíld fyrr en þú kemur að síðasta orðinu sem tengt er. Margir reyndir ræðumenn nota þessa aðferð.
22 Málhvíld við efnisskil. Þegar farið er úr einu aðalatriði í annað fá áheyrendur tækifæri til að hugsa sig um þegar þú gerir málhvíld. Auk þess kemur hún í veg fyrir misskilning. Hún gefur huganum ráðrúm til að aðlaga sig nýrri stefnu og fylgja úrvinnslu nýju hugmyndarinnar. Það er jafnmikilvægt fyrir ræðumann að gera málhvíld milli hugmynda og fyrir ökumann bifreiðar að hægja ferðina í beygju.
23 Í ræðu, sem flutt er eftir minnispunktum, þarf að útfæra ræðuefnið þannig í minnispunktunum að færi gefist á þögnum milli aðalatriða. Það þarf ekki að trufla samfellu eða samhengi ræðunnar en hugmyndirnar þurfa að vera nægilega vel útfærðar til að þú getir náð ákveðnum stíganda í umræðu eins atriðis, gert málhvíld og síðan snúið þér að nýju efni. Þú getur jafnvel merkt slíkan stíganda og umskipti inn á minnisblaðið til áminningar ef nauðsynlegt er.
24 Málhvíld milli aðalatriða er venjulega lengri en við greinarmerki. Þagnir mega þó ekki vera of langar því að þá verður ræðan langdregin, og auk þess verða þær líklega tilgerðarlegar.
25 Áhersluþagnir. Áhersluþögn er venjulega áhrifamikil. Hún vekur eftirvæntingu eða gefur áheyrendum tækifæri til umhugsunar.
26 Málhvíld á undan mikilvægu atriði vekur eftirvæntingu. Málhvíld á eftir veitir áheyrendum tækifæri til að meðtaka hugmyndina að fullu. Þetta eru tvær ólíkar aðferðir við þagnbeitingu og þú verður að ákveða hvor eigi við hverju sinni eða hvort þú notar báðar.
27 Áhersluþagnir ætti aðeins að nota til að leggja áherslu á mjög þýðingarmikið efni, annars glata þær gildi sínu.
28 Þagnir þegar aðstæður útheimta. Ræðumaður þarf oft að gera stutta málhvíld vegna truflana. Venjulega er best að hækka róminn og halda áfram ef hægt er og truflunin er minniháttar. En sé truflun meiri en svo að þú getir yfirgnæft hana verður þú að þagna um stund. Áheyrendur þínir kunna að meta slíka tillitssemi. Margir eru hvort eð er ekki að hlusta vegna þess að truflunin dregur til sín athygli þeirra. Beittu því þögnum á áhrifaríkan hátt þannig að áheyrendur þínir hafi fullt gagn af því góða efni sem þú vilt flytja þeim.
[Spurningar]
1, 2. Af hverju verðum við að tala nógu hátt?
3-10. Hvað hjálpar okkur að ákveða raddstyrk?
11, 12. Af hverju þarf raddstyrkur að hæfa efninu?
13-16. Útskýrðu gildi þagna.
17-21. Hvers vegna eru þagnir við greinarmerki mikilvægar?
22-24. Af hverju eru þagnir nauðsynlegar þegar breytt er um umræðuefni?
25-28. Hvernig má beita þögnum í áhersluskyni og til að bregðast við truflunum?