Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 5 bls. 97-bls. 100 gr. 4
  • Viðeigandi málhlé

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Viðeigandi málhlé
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Raddstyrkur og þagnir
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Nákvæmni í lestri
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Uppbyggjandi ráðleggingar
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Ritningarstaðir lesnir með réttum áherslum
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 5 bls. 97-bls. 100 gr. 4

Námskafli 5

Viðeigandi málhlé

Hvað þarftu að gera?

Gerðu málhlé á viðeigandi stöðum í flutningi og upplestri. Oft nægir örstutt hlé, jafnvel örlítið hik. Hléið er viðeigandi ef það þjónar ákveðnum tilgangi.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Viðeigandi málhlé eru mikilvæg til skilningsauka í mæltu máli. Þau eru einnig leið til að láta þýðingarmikil atriði skera sig úr.

MÁLHLÉ á réttum stöðum eru þýðingarmikil í mæltu máli, hvort heldur verið er að flytja ræðu eða tala við eina manneskju. Ef ekki eru gerð viðeigandi hlé getur mælt mál verið eins og óskýr orðaflaumur í stað skýrrar tjáningar. Viðeigandi málhlé skýra mælt mál og það er einnig hægt að beita þeim þannig að aðalatriðin skeri sig úr og sitji eftir til langframa.

Hvernig geturðu ákvarðað hvar þú eigir að gera málhlé og hve löng þau eiga að vera?

Málhlé við greinarmerki. Greinarmerki eru mikilvægur þáttur ritaðs máls. Þau geta afmarkað fullyrðingu eða spurningu. Í sumum tungumálum eru notuð greinarmerki til að afmarka tilvitnun. Sum greinarmerki gefa til kynna innbyrðis samband setninga og setningarhluta. Maður sér þessi greinarmerki þegar maður les í hljóði fyrir sjálfan sig. En þegar lesið er upphátt fyrir aðra þarf röddin að miðla þeirri merkingu sem fólgin er í greinarmerkjum hins prentaða máls. (Sjá nánar í 1. námskafla, „Nákvæmni í lestri.“) Ef ekki eru gerð viðeigandi málhlé við greinarmerki geta áheyrendur átt erfitt með að skilja hið upplesna eða merking textans getur hreinlega brenglast.

Málhlé og staðsetning þeirra ræðst einnig af því hvernig hugmyndum er komið á framfæri innan málsgreinar. Frægur tónlistarmaður sagði einu sinni: „Ég spila nóturnar ekkert betur en margir aðrir píanóleikarar. En þagnirnar á milli nótnanna — í þeim er listin fólgin.“ Hið sama má segja um talað mál. Viðeigandi þagnir eða málhlé auka á fegurð og skýra merkingu vel undirbúins efnis.

Þegar þú býrð þig undir upplestur getur verið gott að merkja við þar sem þú ætlar að gera málhlé í lestrinum. Gerðu stutt, lóðrétt strik þar sem þú vilt skjóta inn stuttu hléi eða gera smáhik. Notaðu tvö lóðrétt strik til að merkja lengri málhlé. Ef ákveðið orðalag er þér ekki tamt og þú hikar hvað eftir annað á röngum stað skaltu tengja saman með blýantsstriki öll orð setningarinnar eða orðasambandsins sem þú átt í erfiðleikum með. Lestu síðan setninguna eða orðasambandið í heild. Margir reyndir ræðumenn gera þetta.

Yfirleitt á fólk ekki í erfiðleikum með að beita málhléum í daglegu tali vegna þess að það veit hvaða hugmyndum það vill koma á framfæri. En ef þú hefur þann ávana að gera málhlé með reglulegu millibili, hvort sem hugsunin krefst þess eða ekki, þá verður mál þitt óskýrt og máttlítið. Ýmis ráð til úrbóta er að finna í 4. námskafla, „Málfimi.“

Málhlé við efnisskil. Þegar farið er úr einu aðalatriði yfir í annað getur málhlé gefið áheyrendum færi á að hugsa sig um. Það gefur þeim tækifæri til að íhuga það sem þú segir, laga sig að því, taka eftir hvar þú breytir um stefnu og glöggva sig betur á næstu hugmynd sem þú kemur fram með. Það er jafnmikilvægt fyrir ræðumann að gera málhlé milli hugmynda og fyrir ökumann bifreiðar að hægja á ferðinni í beygju.

Þegar ræðumenn æða úr einni hugmynd í aðra án þess að gera málhlé má oft rekja það til þess að þeir eru að reyna að komast yfir meira efni en tími leyfir. Sumir tala reyndar þannig að staðaldri og eru kannski vanir því að allir, sem þeir umgangast, geri það líka. En það skilar ekki áhrifaríkri kennslu. Ef þú hefur eitthvað fram að færa sem er þess virði að fólk heyri og leggi á minnið, þá skaltu gefa þér nægan tíma til að láta hugmyndina skera sig greinilega úr. Og málhlé eru nauðsynleg til að hugmyndir komist skýrt til skila.

Ef þú flytur ræðu eftir minnispunktum eða uppkasti þarf að útfæra það þannig að augljóst sé hvar eigi að gera málhlé milli aðalatriða. Eigir þú að lesa upp handrit skaltu merkja við hvar skipt er úr einu aðalatriði í annað.

Málhlé milli aðalatriða er venjulega lengra en við greinarmerki — en þó ekki svo langt að flutningurinn verði langdreginn. Ef málhlé eru of löng fá áheyrendur á tilfinninguna að þú sért illa undirbúinn og sért að bræða með þér hvað þú eigir að segja næst.

Áhersluhlé. Áhersluhlé eru oft áhrifamikil og fara á undan eða fylgja staðhæfingu eða spurningu sem sögð er með nokkrum áhersluþunga. Slík hlé vekja ýmist eftirvæntingu eða auðvelda áheyrendum að hugleiða það sem sagt er. Þetta eru tvær ólíkar aðferðir og þú þarft að ákveða hvor eigi við hverju sinni. En mundu að það á ekki að beita áhersluhléum nema um þýðingarmikil atriði sé að ræða. Að öðrum kosti glata þau gildi sínu.

Jesús notaði málhlé með áhrifaríkum hætti er hann las upp úr Ritningunni í samkunduhúsinu í Nasaret. Fyrst las hann um hlutverk sitt í spádómsbók Jesaja. En áður en hann heimfærði spádóminn vafði hann upp bókrollunni, afhenti hana þjóninum og settist niður. Allir í samkundunni störðu á hann. Þá sagði hann: „Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar.“ — Lúk. 4:16-21.

Hlé þegar aðstæður útheimta. Stundum þarf að gera málhlé vegna truflana. Umferðarhávaði eða barnsgrátur getur truflað samræður við húsráðanda sem þú hittir í boðunarstarfinu. Ef þú ert að flytja fyrirlestur á samkomu og truflunin er ekki of mikil geturðu kannski hækkað róminn og haldið áfram. En sé truflunin af hávaðanum mikil eða langvarandi þarftu að gera hlé á máli þínu. Áheyrendur hlusta ekki á þig hvort eð er. Gerðu því hlé svo að þeir geti haft fullt gagn af því góða efni sem þú vilt koma á framfæri við þá.

Málhlé til að fá fram viðbrögð. Þó að þú sért að flytja ræðu þar sem ekki er gert ráð fyrir formlegri þátttöku áheyrenda er nauðsynlegt að gefa þeim tækifæri til að taka undir við þig í huganum. Ef þú varpar fram spurningum sem eiga að vekja áheyrendur til umhugsunar án þess að gera nægilegt málhlé á eftir fer gildi spurninganna að miklu leyti í súginn.

Málhlé eru auðvitað mikilvæg, ekki aðeins þegar þú talar af ræðupallinum heldur einnig þegar þú vitnar fyrir öðrum. Sumir virðast aldrei gera málhlé. Ef þú ert þannig ættirðu að leggja þig vel fram um að tileinka þér þessa tækni. Þá tjáir þú þig skýrar við aðra og nærð betri árangri í boðunarstarfinu. Hlé er sama og stundarþögn og það hefur verið sagt með sanni að þögn skerpi skilin, auki áhersluna, brýni athyglina og örvi heyrnina.

Í daglegum samræðum skiptast menn á hugmyndum. Aðrir hlusta frekar á þig ef þú hlustar á þá og sýnir áhuga á því sem þeir segja. Til þess þarftu að gera nógu langa málhvíld svo að þeir fái tækifæri til að tjá sig.

Boðunin er áhrifaríkust ef hún fer fram í formi samræðna. Mörgum vottum reynist það vel að byrja á því að heilsa, segja frá tilefni heimsóknarinnar og varpa síðan fram spurningu. Þeir gera síðan málhvíld til að gefa viðmælandanum færi á að svara, og taka svo undir við hann. Þeir gefa viðmælandanum mörg tækifæri til að láta skoðun sína í ljós í samtalinu, vitandi að það er alla jafna auðveldara að hjálpa öðrum ef maður veit hvaða skoðanir hann hefur á því máli sem til umræðu er. — Orðskv. 20:5.

Viðbrögð manna við spurningum eru auðvitað ekki alltaf jákvæð. En Jesús lét það ekki aftra sér frá að gera nógu löng málhlé til að jafnvel andstæðingar hans fengju tækifæri til að tala. (Mark. 3:1-5) Með því að gefa viðmælandanum tækifæri til að tjá sig ertu að hvetja hann til að hugsa og það getur leitt í ljós hvað býr í hjartanu. Eitt af markmiðum boðunarstarfsins er einmitt að örva hjartað með því að leggja fyrir fólk ýmis mikilvæg mál úr Biblíunni sem það þarf að taka afstöðu til. — Hebr. 4:12.

Það er sannarlega list að beita viðeigandi málhléum í boðunarstarfinu en þegar það er vel gert komast hugmyndirnar skýrar til skila og þær festast frekar í minni.

AÐ NÁ ÁRANGRI

  • Gefðu gaum að greinarmerkjum þegar þú lest upphátt.

  • Hlustaðu vandlega á færa ræðumenn og fylgstu með hvar og hve löng málhlé þeir gera.

  • Gerðu málhlé eftir að þú hefur sagt eitthvað sem þú vilt að aðrir muni, til að þeir meðtaki það.

  • Hvettu aðra til að tjá sig í samræðum og hlustaðu á það sem þeir hafa fram að færa. Leyfðu þeim að ljúka máli sínu. Gríptu ekki fram í fyrir þeim.

ÆFING: Lestu upphátt úr Markúsi 9:1-13, gerðu viðeigandi hlé við greinarmerki en láttu lesturinn ekki verða langdreginn. Eftir að þú hefur æft þig skaltu biðja einhvern að hlusta á þig lesa, og leiðbeina þér um það hvernig þú getir beitt málhléum betur.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila