Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 8 bls. 107-bls. 110 gr. 1
  • Hæfilegur raddstyrkur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hæfilegur raddstyrkur
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Raddstyrkur og þagnir
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Raddbrigði
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Raddbrigði
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 8 bls. 107-bls. 110 gr. 1

Námskafli 8

Hæfilegur raddstyrkur

Hvað þarftu að gera?

Talaðu nógu hátt og kraftmikið. Til að ákveða hvað sé hæfilegur raddstyrkur þarftu að hafa hliðsjón af því (1) hverjir áheyrendur eru og hve margir, (2) hvað þurfi til að yfirgnæfa hávaða, (3) umræðuefninu og (4) markmiði þínu.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Áheyrendur missa einbeitinguna ef þeir heyra ekki nógu vel í þér og það sem þú segir fer að einhverju leyti fram hjá þeim. Ef þú talar of hátt getur verið óþægilegt að hlusta á þig og þú gætir jafnvel virkað ókurteis.

BÚAST má við að sumir áheyrendur dotti ef fyrirlesari talar ekki nógu hátt. Ef boðberi talar of lágt í boðunarstarfinu getur hann misst athygli húsráðanda. Og ef svör utan úr sal á safnaðarsamkomu heyrast ekki nógu vel fara hinir á mis við þá hvatningu sem þeir þurfa að fá. (Hebr. 10:24, 25) Hins vegar getur það verið óþægilegt, jafnvel pirrandi, fyrir áheyrendur ef mælandi hækkar róminn á röngu augnabliki. — Orðskv. 27:14.

Taktu mið af áheyrendum. Ertu að tala við einstakling, fjölskyldu, meðalstóran hóp á samkomu fyrir boðunarstarfið, allan söfnuðinn eða gesti á fjölmennu móti? Ljóst er að það þarf að tala mishátt eftir aðstæðum.

Þjónar Guðs forðum daga töluðu stundum að viðstöddu fjölmenni. Það var ekkert magnarakerfi til þegar musterið í Jerúsalem var vígt á dögum Salómons. Hann stóð því á upphækkuðum palli og blessaði fólkið „hárri röddu.“ (1. Kon. 8:55; 2. Kron. 6:13) Öldum síðar, eftir að heilögum anda var úthellt á hvítasunnu árið 33, safnaðist mikill mannfjöldi umhverfis hinn fámenna hóp kristinna manna í Jerúsalem. Sumir áheyrenda voru áhugasamir en aðrir hæðnir. Pétur tók á sig rögg, ‚steig fram, hóf upp rödd sína‘ og vitnaði rækilega fyrir þeim. — Post. 2:14.

Hvernig er hægt að meta hvort raddstyrkur er hæfilegur miðað við aðstæður? Viðbrögð áheyrenda eru einn besti mælikvarðinn. Þú þarft að reyna að hækka róminn ef þú sérð að einhverjir í áheyrendahópnum eiga í vandræðum með að heyra í þér.

Hvort sem við erum að tala við einstakling eða hóp er ástæða til að taka mið af áheyrendum. Þú getur þurft að hækka róminn ef áheyrandi er heyrnarskertur. Hins vegar færðu engar þakkir fyrir að hrópa á fólk sem sýnir kannski hæg viðbrögð vegna aldurs. Sumir gætu jafnvel túlkað það sem ókurteisi. Í sumum menningarsamfélögum er litið á það sem merki um óþolinmæði eða reiði ef mælandi hækkar raustina um of.

Truflanir. Breytilegar aðstæður í boðunarstarfinu hafa tvímælalaust áhrif á það hvernig rétt er að beita röddinni til að vitna. Kannski áttu í samkeppni við umferðarnið, hávaðasöm börn, hundgá, háværa tónlist eða gjallandi sjónvarpstæki. Á svæðum þar sem fólk býr þétt gæti húsráðanda hins vegar þótt vandræðalegt ef þú vektir athygli nágranna með því að tala hátt.

Bræður sem flytja ræður á safnaðarsamkomum eða mótum þurfa líka að bjarga sér við alls konar aðstæður. Það er mikill munur á því að tala undir berum himni eða í sal með góðum hljómburði. Tveir trúboðar fluttu einu sinni opinberan fyrirlestur úti á verönd heima hjá áhugasömum manni í Rómönsku-Ameríku. Meðan á ræðunni stóð var verið að skjóta upp flugeldum á nálægu torgi og hani galaði stanslaust í grenndinni!

Truflun í miðri ræðu getur útheimt að ræðumaður hækki róminn eða geri hlé uns truflunin er liðin hjá. Haglél getur bulið svo á þaki eða gluggum að það sé nánast ógerlegt að heyra í ræðumanni. Grátandi barn eða síðkomnir samkomugestir trufla á sinn hátt. Lærðu að bregðast rétt við truflunum þannig að áheyrendur hafi fullt gagn af því efni sem þú hefur fram að færa.

Magnarakerfi auðveldar mælanda að láta í sér heyra en hann þarf engu að síður að hækka róminn undir vissum kringumstæðum. Sums staðar eru rafmagnstruflanir algengar og þar þurfa ræðumenn að geta haldið áfram án hljóðnema.

Taktu mið af efninu. Raddstyrkur þarf líka að vera breytilegur eftir viðfangsefni ræðunnar. Ef efnið er þess eðlis að það þarf að flytja það með krafti máttu ekki draga úr áhrifum þess með því að tala of lágt. Það þarf til dæmis að leggja meiri kraft í að lesa upp fordæmingarorð í Biblíunni en hvatningu til að sýna kærleika. Lagaðu raddstyrkinn að efninu en gættu þess að gera það ekki þannig að þú dragir athyglina að sjálfum þér.

Íhugaðu markmiðið. Þú getur þurft að hækka róminn eilítið ef þú ætlar að hvetja áheyrendur til dáða. En viljirðu hafa áhrif á hugsunarhátt þeirra máttu ekki fæla þá frá þér með því að tala of hátt. Og yfirleitt er best að tala með mildri röddu ef ætlunin er að hugga og hughreysta.

Að beita röddinni. Oft getur verið gott að hækka róminn þegar maður vill ná athygli upptekinnar manneskju. Foreldrar þekkja þetta mætavel og brýna því raustina til að kalla á börnin og segja þeim að koma inn. Dagskrárkynnir á safnaðarsamkomu eða móti þarf líka að hækka róminn þegar hann kallar gesti til sætis. Og boðberi úti í boðunarstarfinu kallar kannski kveðju til manns sem er að vinna utan dyra.

Þú þarft að tala hæfilega hátt eftir að þú hefur náð athygli viðmælanda þíns eða áheyrenda. Sértu mjög lágróma gæti það virkað eins og þú sért illa undirbúinn eða þig skorti sannfæringu.

Það er hægt að hvetja fólk til dáða með því að brýna raustina þegar maður gefur skipun. (Post. 14:9, 10) Og hægt er að afstýra slysi með því að hrópa skipun. Fangavörður í Filippí var kominn á fremsta hlunn með að fyrirfara sér er hann hélt að fangarnir væru sloppnir. „Þá kallaði Páll hárri raustu: ‚Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!‘“ Þannig afstýrði hann sjálfsvígi. Þeir Páll og Sílas vitnuðu síðan fyrir fangaverðinum og fjölskyldu hans með þeim árangri að allir tóku við sannleikanum. — Post. 16:27-33.

Að styrkja röddina. Sumir þurfa að leggja töluvert á sig til að læra að beita röddinni og tala nægilega hátt. Sumum liggur hreinlega lágt rómur og þeir eiga erfitt með að láta í sér heyra. En með æfingunni geta þeir styrkt röddina þótt aldrei verði þeir háróma. Hugaðu að öndun og stellingu. Æfðu þig í að vera beinn í baki þegar þú situr og stendur. Ýttu öxlunum aftur og andaðu djúpt. Fylltu lungun alveg niður í botn. Með því að beita þessu loftmagni rétt geturðu lært að stjórna raddstyrknum.

Sumir tala hins vegar of hátt. Þeir hafa kannski unnið utandyra eða í hávaðasömu umhverfi og vanið sig á að brýna raustina. Og sumir hafa vanist því í uppvextinum að allir hrópi, kalli og grípi fram í, þannig að þeir halda að þeir geti ekki skotið inn orði nema þeir tali hærra en hinir. En þeir læra smám saman að fara eftir ráðleggingu Biblíunnar um að ‚íklæðast hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi,‘ og lækka þá róminn í samræðum. — Kól. 3:12.

Með því að undirbúa þig vel, afla þér reynslu með reglubundnu boðunarstarfi og biðja Jehóva um hjálp lærirðu að tala með hæfilega sterkri röddu. Hvort sem þú ert uppi á ræðupallinum eða ert að tala við manneskju í boðunarstarfinu skaltu einbeita þér að því hvernig þú getir auðveldað viðmælanda þínum eða áheyrendum að heyra það sem þú segir. — Orðskv. 18:21.

ÞÚ ÞARFT AÐ HÆKKA RÓMINN

  • Til að halda athygli fjölmenns hóps.

  • Til að yfirgnæfa truflanir.

  • Til að fá athygli þegar þú segir eitthvað mjög mikilvægt.

  • Til að hvetja til dáða.

  • Til að ná athygli einstaklings eða hóps.

AÐ BÆTA SIG

  • Fylgstu með viðbrögðum áheyrenda og talaðu með hæfilega sterkri röddu til að þeir heyri vel í þér.

  • Lærðu að fylla neðri hluta lungnanna þegar þú andar.

ÆFING: Lestu Postulasöguna 19:23-41 í hljóði og settu þig inn í sögusviðið sem ráða má af frásögunni og samhenginu. Taktu eftir hverjir tala og viðmóti þeirra. Lestu frásöguna síðan upphátt með þeim raddstyrk sem hæfir hverjum hluta.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila