Námskafli 13
Augnasamband
AUGUN miðla viðhorfum fólks og tilfinningum. Þau geta tjáð undrun eða ótta. Þau geta gefið til kynna umhyggju eða ást. Stundum koma þau upp um efa eða lýsa harmi. „Við tölum með augunum,“ sagði aldraður maður um samlanda sína sem höfðu þolað miklar þjáningar.
Aðrir geta dregið ályktanir um okkur og það sem við segjum eftir því hvert við horfum. Í mörgum menningarsamfélögum hafa menn tilhneigingu til að treysta þeim sem viðheldur vingjarnlegu augnasambandi við þá. Að sama skapi efast menn oft um einlægni eða færni þess manns sem horfir á fætur sér eða á einhvern hlut í stað þess að horfa á viðmælanda sinn. Í sumum öðrum menningarsamfélögum er langdregið augnasamband hins vegar álitið dónalegt, frekjulegt eða ögrandi, einkum ef viðmælandinn er af hinu kyninu, eða þá höfðingi eða tignarmaður. Og sums staðar væri það talið virðingarleysi ef ung manneskja væri að tala við sér eldri manneskju og horfðist í augu við hana.
En þar sem það telst viðeigandi er hægt að gera orð sín áherslumeiri með því að horfast í augu við viðmælanda sinn. Það er oft talið til merkis um sannfæringu mælandans. Taktu eftir hvernig Jesús brást við þegar lærisveinarnir undruðust og spurðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Biblían segir: „Jesús horfði á þá og sagði: ‚Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt.‘“ (Matt. 19:25, 26) Í Biblíunni kemur fram að Páll postuli var glöggur á viðbrögð áheyrenda sinna. Einhverju sinni var hann að tala og meðal viðstaddra var maður sem hafði verið lamaður frá fæðingu. Postulasagan 14:9, 10 segir: „Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill, og sagði hárri raustu: ‚Rís upp og stattu í fæturna!‘“
Tillögur fyrir boðunarstarfið. Vertu vingjarnlegur og hlýlegur þegar þú tekur fólk tali í boðunarstarfinu. Þegar við á geturðu varpað fram áhugaverðri spurningu til að hefja samræður um mál sem báðir hafa áhuga á. Reyndu að ná augnasambandi við viðmælanda þinn á meðan — eða horfðu að minnsta kosti vingjarnlega og með eðlilegri virðingu framan í hann. Hlýlegt bros og augu sem geisla af innri gleði eru einkar aðlaðandi. Það getur sagt viðmælandanum margt um það hvers konar mann þú hefur að geyma og auðveldað honum að slaka á meðan þið talið saman.
Með því að taka eftir augnsvip viðmælandans, ef það á við, færðu kannski vísbendingu um það hvernig þú getir hagað máli þínu. Þú sérð það kannski ef hann er reiður eða áhugalítill. Þú kemur ef til vill auga á það ef hann skilur þig ekki. Yfirleitt sérðu merki þess ef hann er að verða óþolinmóður. Það sést líka ef hann hefur mikinn áhuga á því sem þú ert að segja. Augnsvipur viðmælandans getur gefið þér vísbendingu um að þú þurfir að breyta um takt, leggja þig betur fram um að draga hann inn í samtalið, ljúka samtalinu eða jafnvel að sýna honum biblíunámsaðferðina.
Hvort sem þú ert að vitna meðal almennings eða kenna í heimahúsi skaltu leitast við að hafa viðeigandi augnasamband við þann sem þú ert að tala við. Starðu ekki á hann því að þá gæti hann orðið vandræðalegur en horfðu oft og vingjarnlega í augu hans. Víða um lönd er litið á það sem merki um einlægan áhuga. Sértu að lesa upp úr Biblíunni eða einhverju öðru riti horfirðu auðvitað á hið prentaða mál. En þú getur lagt áherslu á viss atriði með því að horfa beint á viðmælandann þó stutt sé. Ef þú lítur upp af og til geturðu líka fylgst með viðbrögðum hans við hinu upplesna.
Gefstu ekki upp þó að þú sért feiminn og eigir erfitt með að horfast í augu við aðra. Með æfingunni fer þér að þykja eðlilegt að horfast í augu við fólk og það auðveldar þér að eiga árangursrík tjáskipti við það.
Þegar þú flytur ræðu. Biblían segir að Jesús hafi ‚hafið upp augu sín og litið á lærisveinana‘ áður en hann hóf fjallræðuna. (Lúk. 6:20) Farðu að dæmi hans. Ef þú átt að flytja ræðu er gott að horfa yfir hópinn í fáeinar sekúndur áður en þú byrjar að tala. Víða má nota þetta tækifæri til að ná augnasambandi við einhverja í hópnum. Þessi stutta töf getur auðveldað þér að róa taugarnar. Hún gefur áheyrendum líka ráðrúm til að stilla sig inn á það viðmót eða þá tilfinningu sem endurspeglast í andliti þínu. Og með þessum hætti gefurðu áheyrendum svigrúm til að komast í ró og beina athyglinni að þér.
Horfðu á áheyrendur meðan þú talar. Horfðu ekki aðeins yfir hópinn sem heild heldur reyndu að sjá einstaklingana. Nánast alls staðar í heiminum er þess vænst að ræðumaður hafi eitthvert augnasamband við áheyrendur sína.
Með augnasambandi við áheyrendur er ekki átt við það að renna augunum taktfast yfir hópinn heldur að ná beinu augnasambandi við einhvern í hópnum ef það á við og segja heila setningu við hann. Horfðu síðan á einhvern annan og segðu eina eða tvær setningar við hann. En horfðu ekki svo lengi á einhvern einn að hann fari hjá sér og einbeittu þér ekki að fáeinum áheyrendum alla ræðuna. Haltu áfram að fara yfir áheyrendahópinn með þessum hætti, og þegar þú talar til einhvers ákveðins í hópnum skaltu tala beint til hans og taka eftir viðbrögðum hans áður en þú snýrð þér að næsta manni.
Hafðu minnisblöðin á ræðupúltinu, í hendinni eða í Biblíunni þannig að þú getir litið snöggt á þau án þess að hreyfa höfuðið. Ef þú þarft að lúta höfði til að líta á minnisblöðin kemur það niður á sambandinu við áheyrendur. Vertu bæði vakandi fyrir því hvenær þú horfir á minnisblöðin og hve oft. Ef þú horfir á minnisblöðin þegar þú nærð hápunkti í ræðunni sérðu ekki hvernig áheyrendur bregðast við og auk þess dregur það úr krafti orða þinna. Þú missir líka sambandið við áheyrendur ef þú ert sífellt að horfa á minnisblöðin.
Þegar þú kastar bolta til einhvers fylgistu með til að sjá hvort hann grípur hann. Sérhver hugsun í ræðunni er eins og bolti sem þú kastar til áheyrenda. Viðbrögð þeirra — höfuðhneiging, bros eða eftirtekt — sýna hvort þeir grípa boltann. Með því að halda góðu augnasambandi við þá geturðu fullvissað þig um að þeir „grípi“ þær hugmyndir sem þú sendir þeim.
Er ætlast til að þú reynir að hafa augnasamband við áheyrendur ef þér er falið upplestrarverkefni í söfnuðinum? Séu áheyrendur að fylgjast með lestrinum í Biblíunni taka fæstir eftir því hvort þú lítur upp eða ekki. En þú getur lífgað lesturinn með því að horfa á áheyrendur því að þá ertu vel vakandi fyrir viðbrögðum þeirra. Og séu einhverjir meðal áheyrenda ekki að fylgjast með í Biblíunni heldur hafa látið hugann reika, þá gæti augnasamband við ræðumanninn komið þeim aftur inn á sporið. Þú getur auðvitað ekki litið upp nema örstutt og þú þarft að geta gert það án þess að fipast í lestrinum. Best er að vera ekki álútur við lesturinn heldur halda Biblíunni í hendinni og halda höfðinu hátt.
Stundum fá öldungar það verkefni að flytja ræðu eftir handriti. Það þarf töluverða reynslu, vandaðan undirbúning og mikla æfingu til að gera það vel. Að flytja ræðu eftir handriti takmarkar auðvitað það augnasamband sem hægt er að hafa við áheyrendur. En ef ræðumaðurinn er vel undirbúinn getur hann litið á áheyrendur af og til án þess að fipast. Þá heldur hann athygli þeirra betur og auðveldar þeim að hafa sem mest gagn af hinni mikilvægu, andlegu fræðslu sem hann hefur fram að færa.